Fréttir Greiningar

Spáum óbreyttum stýrivöxtum 8. febrúar

02.02.2017 11:30

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands (SBÍ) muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi sínum 8. febrúar nk. Verður rökstuðningur nefndarinnar fyrir óbreyttum vöxtum væntanlega sá að þrátt fyrir að verðbólga og verðbólguvæntingar haldist við verðbólgumarkmiðið þá kalli gengislækkun krónunnar undanfarið og kröftugur vöxtur eftirspurnar á óbreytta vexti. 

Nefndin mun að okkar mati vera áfram með hlutlausa framsýna leiðsögn í yfirlýsingu sinni vegna vaxtaákvörðunarinnar nú. Mun hún líklegast segja, líkt og í yfirlýsingu sinni í desember, að aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn.  

Gengi krónunnar búið að lækka talsvert frá síðustu vaxtaákvörðun  

Gengi krónunnar hefur lækkað um ríflega 4% gagnvart viðskiptaveginni gengisvísitölu frá síðustu vaxtaákvörðun um miðjan desember. Er það viðsnúningur frá því sem hefur verið undanfarna mánuði, en krónan var að styrkjast milli nær allra vaxtaákvörðunarfunda peningastefnunefndar á síðastliðnu ári. 

Er þessi þróun sérstaklega áhugaverð í ljósi þess að helstu rök sem komu fram á fundi peningastefnunefndar í desember fyrir lækkun stýrivaxta þá voru að gengi krónunnar hefði hækkað um 1,5% frá síðasta fundi nefndarinnar. Í fundargerð vegna þeirrar ákvörðunar kemur fram að gengi krónunnar væri því þegar orðið nokkru hærra en nóvemberspá bankans gerði ráð fyrir að það yrði að meðaltali á næsta ári. Var það mat nefndarmanna þá að verðbólguhorfur næstu missera hefðu því líklega batnað enn frekar frá því sem gert var ráð fyrir í spánni. Töldu sumir nefndarmenn því svigrúm til að lækka nafnvexti, þótt margvísleg óvissa sem vísað var til við fyrri vaxtaákvörðun væri enn til staðar. Greiddu fjórir nefndarmenn atkvæði með tillögu Seðlabankastjóra um lækkun stýrivaxta um 0,25 prósentur en einn greiddi atkvæði á móti og vildi halda stýrivöxtum óbreyttum.

Gengi krónunnar hefur lækkað undanfarið, m.a. vegna tímabundinna þátta á borð við sjómannaverkfall, árstíðarsveiflu í gjaldeyristekjum ferðaþjónustunnar og tímabundið aukið útflæði gjaldeyris vegna aukins frelsis í fjármagnsflutningum. Líklegt er að nefndin horfi til þessa.  Á móti þessu hefur Seðlabankinn dregið umtalsvert úr stórtækum gjaldeyriskaupum sínum á innlendum gjaldeyrismarkaði, en gjaldeyriskaup bankans í janúar á þessu ári voru þau minnstu í einum mánuði síðan í nóvember 2014. Ákvað peningastefnunefndin á síðasta fundi sínum í desember að gera ekki breytingu á inngripastefnu sinni en endurmeta stöðuna á næsta fundi nefndarinnar, þ.e. núna í febrúar, eftir að næsta skref að losun fjármagnshafta á einstaklinga og fyrirtæki hefði verið tekið.

Horfur varðandi gengisþróun næstu missera hafa ekki breyst að okkar mati, en við reiknum með því að krónan komi til með að styrkjast þegar líða tekur á árið og ofangreindir tímabundnir þættir sem undanfarið hafa verið að veikja krónuna eru að baki. 

Verðbólgan að hjaðna og horfur á að hún haldist undir markmiði út árið  

Verðbólgan hefur hjaðnað frá síðustu vaxtaákvörðun í desember. Mælist verðbólgan nú 1,9% en var 2,1% þegar peningastefnunefndin fundaði um miðjan desember. Miklar innlendar kostnaðarverðshækkanir samhliða vaxandi framleiðsluspennu og í kjölfar mikilla launahækkana og aukins hraða í hækkun húsnæðisverðs eru að skapa verðbólguna, en á móti vegur styrking krónunnar undanfarna mánuði og lítil innflutt verðbólga.

Samhliða vaxtaákvörðuninni nú mun Seðlabankinn birta uppfærða verðbólguspá. Samkvæmt síðustu spá bankans sem birt var samhliða vaxtaákvörðuninni í nóvember sl. átti verðbólgan að haldast nálægt verðbólgumarkmiðinu út spátímabilið, þ.e til loka árs 2019.

Gengi krónunnar er nú 2,6% lægra en Seðlabankinn reiknaði með að það yrði að meðaltali á þessu ári í ofangreindri verðbólguspá.  Er gengi krónunnar það sem af er þessu ári búið að vera að meðaltali nánast það sama og Seðlabankinn reiknaði með í ofangreindri spá að það yrði á árinu í heild. Til grundvallar nýrri verðbólguspá mun bankinn birta nýja spá um gengi krónunnar. Fyrri spá bankans fól í sér hóflega sveiflu í gengi krónunnar. Reiknum við með því að ný spá muni gera það einnig.  

Miklar innlendar kostnaðarverðshækkanir og hækkun húsnæðisverðs mun áfram ýta undir verðbólgu, en verður þó hóflegri á þessu ári en á síðasta ári skv. okkar spá. Á móti þessum hækkunum vegur hækkun gengis krónunnar þegar líða tekur á árið, en sú hækkun mun þó vera mun minni en á síðasta ári að okkar mati. Vaxandi verðbólga erlendis mun einnig skapa aukinn þrýsting á verðbólgu hér á landi.

Samkvæmt okkar nýjustu verðbólguspá mun verðbólgan mælast undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram á árið 2018. Er það aðeins minni verðbólga en ofangreind nóvemberspá Seðlabankans hljóðar upp á. Við spáum því hins vegar að verðbólgan aukist nokkuð á árinu 2018, fari yfir verðbólgumarkmiðið um mitt það ár og verði aðeins meiri en Seðlabankinn spáir. Heilt á litið reiknum við ekki með því að ný verðbólguspá bankans feli í sér verulegar breytingar frá nóvemberspá hans.    

Hagvöxtur í fyrra yfir spá Seðlabankans  

Samhliða vaxtaákvörðuninni nú mun Seðlabankinn uppfæra hagvaxtarspá sína. Frá síðustu spá bankans sem birt var í nóvember sl. hafa verið birtar tölur fyrir hagvöxt á fyrstu níu mánuðum sl. árs en hagvöxtur mældist 6,2% á þeim tíma. Er þetta talsvert kröftugur hagvöxtur og sá hraðasti sem mælst hefur í þessari uppsveiflu skv. tölum sem Hagstofan birti þann 7. desember sl. Hagvöxturinn á fyrstu níu mánuðum ársins er nokkuð yfir því sem Seðlabankinn spáði fyrir árið í heild í nóvember, en hann reiknaði þá með 5,0% vexti. Tölurnar benda til þess að framleiðsluspennan í hagkerfinu sé að myndast nokkuð hraðar en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í þeirri spá.

Samkvæmt fundargerð vegna síðasta fundar peningastefnunefndar voru nýjar hagvaxtartölur þar til sérstakrar umræðu. Var þar rætt um að ekki væri hagvöxturinn bara meiri heldur væri samsetning hagvaxtarins einnig önnur og hagstæðari að mati peningastefnunefndar, þ.e. meiri atvinnuvegafjárfesting en minni einkaneysla. Einnig er framlag útflutnings til hagvaxtar meiri en bankinn spáði. Reiknum við með því að ný hagvaxtarspá bankans endurspegli þessar tölur.

Í nóvemberspá sinni reiknaði bankinn með því að hagvöxtur yrði 4,5% í ár. Er þetta nokkuð minni hagvöxtur en við spáum en við reiknum með 5,1% hagvexti á árinu. Reiknum við ekki með því að hagvaxtarspá bankans fyrir þetta ár taki miklum breytingum í nýrri spá. 

Spáum 0,25 prósentustiga vaxtalækkun á öðrum ársfjórðungi þessa árs 

Við reiknum með því að peningastefnunefnd Seðlabankans lækki vexti bankans um 0,25 prósentustig á öðrum ársfjórðungi, en bankinn mun í maí nk. birta nýja verðbólgu og hagvaxtarspá. Reiknum við með því að gengi krónunnar verði þá farið að styrkjast aftur sem mun, ásamt verðbólgu undir verðbólgumarkmiði, styðja ákvörðun nefndarinnar um lækkun. Eftir það reiknum við með því að nefndin muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum út spátímabilið sem nær til loka árs 2018.

Talsvert aðhald er nú í peningamálum, hvort sem er mælt út frá mun á núverandi verðbólgu og stýrivöxtum eða verðbólguvæntingum og stýrivöxtum. Vegna hóflegrar verðbólgu á næstunni í okkar spá, sem og spá Seðlabankans, haldast raunstýrivextir áfram háir m.v. óbreytta stýrivexti. Þannig má reikna með að áfram verði umtalsvert aðhald í peningastjórnuninni á næstunni. Aðhaldsstigið mun hins vegar minnka á árinu 2018 að okkar mati vegna aukinnar verðbólgu, en þá reiknum við á móti með því að það dragi úr hagvexti og spennunni í hagkerfinu.

Framvindan í peningamálum mun eðlilega taka mið af því hvað mun gerast í annarri hagstjórn. Samkvæmt langtímaáætlun í ríkisfjármálum sem ný ríkisstjórn hefur lagt fram er að vænta aukins aðhalds ríkisins sem mun styðja við peningastjórnunina á næstunni við að halda verðbólgu í skefjum. Mun afgangurinn af rekstri hins opinbera verða 1% af vergri landsframleiðslu (VLF) á yfirstandandi ári en hækka í 1,6% næstu tvö ár eftir það samkvæmt áætluninni. 

Hér má nálgast stýrivaxtaspá okkar. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall