Fréttir Greiningar

Kortavelta erlendra ferðamanna heldur áfram að aukast

14.01.2015 11:19

Alls nam kortavelta útlendinga hér á landi um 6,1 mö. kr. í desember sl., sem er aukning upp á rúm 21% í krónum talið á milli ára samkvæmt tölum sem Seðlabanki Íslands birti um greiðslumiðlun í gær. Ekki liggja enn fyrir tölur Ferðamálastofu Íslands um brottfarir í mánuðinum, en þessar tölur benda til þess að erlendir ferðamenn hafi verið um fimmtungi fleiri í desember sl. en í sama mánuði 2013. 

Alls nam kortavelta Íslendinga í útlöndum 7,8 mö. kr. í desember sl. Var velta Íslendinga erlendis þar með rúmlega 1,7 ma. kr. umfram kortaveltu útlendinga hér á landi. Þetta er örlítið óhagstæðari útkoma en var ári áður, og má geta þess að þetta er í eini mánuðurinn á árinu sem útkoman reynist lakari en í sama mánuði 2013. Munurinn er ekki ýkja mikill, en í desember 2013 var kortaveltujöfnuður óhagstæður um tæpa 1,7 ma. kr. 

Afgangur af kortaveltujöfnuði tvöfaldast

Sé tekið mið af árinu 2014 í heild nam kortavelta erlendra ferðamanna alls 113,3 mö. kr. samanborið við 91,3 ma. kr. árið á undan. Jókst kortavelta útlendinga þar með um 24% að nafnvirði á milli ára. Kortavelta Íslendinga erlendis jókst einnig þó nokkuð, eða um rúm 13% að nafnvirði. Alls nam hún 89,5 mö. kr. á árinu 2014 samanborið við 79,0 ma. kr. árið á undan. Var kortaveltujöfnuður þar með hagstæður um 23,8 ma. kr., sem þýðir að gjaldeyrisinnflæði vegna greiðslukorta var að jafnaði um 2 ma. kr. í mánuði hverjum í fyrra samanborið við 1 ma.kr. árið á undan. Vart þarf að nefna að hér er um gríðarlega breytingu að ræða á þessum jöfnuði frá því sem áður var, en fyrir hrun var kortajöfnuðurinn ávallt í halla. Hallinn var hvað mestur á hinu mikla einkaneysluári 2007 þegar hann fór upp í 34,6 ma. kr., sem þýðir gjaldeyrisútflæði vegna greiðslukorta upp á tæpa 3 ma. kr. að jafnaði í mánuðinum hverjum það ár. 

Ofangreind þróun er sterk vísbending um að afgangur af þjónustujöfnuði muni reynast talsvert meiri á árinu 2014 en árið áður, og raunar virðist ljóst með hliðsjón af vöruskiptatölum ársins að þjónustuafgangurinn var ein helsta rót þess hreina gjaldeyrisinnflæðis hingað til lands sem var á síðasta ári.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall