Fréttir Greiningar

Vöruskipti: Ekki verri byrjun á ári síðan 2009

06.03.2014 08:04

nullAfgangur af vöruskiptum í febrúar sl. nam 4,0 mö.kr. skv. bráðabirgðatölum sem Hagstofa Íslands birti gærmorgun. Þetta er talsvert minni afgangur en var af vöruskiptum í febrúar í fyrra (6,1 ma.kr.). Svipuð saga var uppi á teningnum í janúarmánuði, og dregur þar með verulega úr vöruskiptaafgangi á milli ára.

Alls nemur afgangur af vöruskiptum 11,1 mö.kr. á fyrstu tveimur mánuðum ársins samanborið við 17,3 ma.kr. í fyrra. Hefur vöruskiptaafgangurinn á þessu tímabili ekki verið lakari síðan í ársbyrjun 2009, hvort sem leiðrétt er fyrir sveiflum í gengi krónunnar eður ei.

Útflutningur ekki verið minni síðan 2011

nullSamanlagt í janúar og febrúar nemur verðmæti vöruútflutnings 89,3 mö.kr. samanborið við 106,1 ma.kr á sama tímabili í fyrra. Dregur þar með verulega úr útflutningi á milli ára, eða um 17,1 ma.kr. Hefur verðmæti útflutnings í raun ekki verið minna síðan 2011, og á það bæði við hvort sem leiðrétt er fyrir sveiflum í gengi krónunnar eða ekki.

Munar hér mestu um útflutningsverðmæti sjávarafurða sem nemur alls 35,1 mö.kr. á fyrstu tveimur mánuðum ársins, og dregst saman um 9,7 ma.kr. á milli ára. Hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða ekki verið minna síðan 2011. Jafnframt dregst útflutningur iðnaðarvara talsvert saman, en alls hafa verið fluttar út iðnaðarvörur fyrir 48,8 ma.kr. á fyrstu tveimur mánuðum ársins, sem er 7,3 mö.kr. minna en flutt var út á sama tímabili í fyrra. Útflutningsverðmæti iðnaðarvara hefur ekki verið minna í upphafi árs síðan í ársbyrjun 2009, en sé tekið tillit gengisbreytinga þá hefur það ekki verið minna síðan 2010. Óhagstæð þróun álverðs hefur sitt að segja um minni útflutningsverðmæti iðnaðarvara, en hvað sjávarafurðir varðar virðist ástæðan fremur vera minna útflutt magn sem væntanlega skrifast að stórum hluta á það bakslag sem orðið hefur í loðnuveiðum

... en innflutningur dregst einnig saman

nullAlls hafa verið fluttar inn vörur fyrir 78,2 ma.kr. á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra voru fluttar inn vörur fyrir 88,8 ma.kr., og dregst innflutningur þar með saman um 10,6 ma.kr. á milli ára. Það er sitt lítið að hverju sem er að skýra þennan samdrátt, þó kannski einna helst samdráttur í innflutningi hrá- og rekstrarvara en þar spilar þróun verðs á súráli, sem tengist álverði, stóra rullu. Þrátt fyrir þennan samdrátt í innflutningi á milli ára er ekki samdráttur á þeim liðum er tengjast einkaneyslu, sem er í takti við spár þar sem almennt er reiknað með vexti einkaneyslu á árinu.

Útlitið alls ekki slæmt

nullVið reiknum með að afgangur af vöruskiptum verði nokkru minni í ár en hann var í fyrra, en þó teljum við útlitið alls ekki slæmt. Miklar sveiflur eru í mánaðartölum um vöruskipti, sem jafnframt eru endurskoðaðar reglulega aftur í tímann. Einnig má nefna að loðnuveiði virðist loks vera að glæðast og gætu síðustu vikur vertíðarinnar orðið nokkuð gjöfular eftir litlar gæftir í janúar og febrúar. Þó teljum við að afgangur af þjónustujöfnuði verði meiri en afgangur af vöruskiptum í ár, sem yrði þá í fyrsta sinn sem það myndi atvikast nú á eftirhrunsárunum. Í fyrra nam afgangurinn af vöruskiptum 69,4 mö.kr. en af þjónustuviðskiptum 62,4 ma.kr. Hægt er að sjá vísbendingu um einn undirlið þjónustujafnaðarins, þ.e. ferðalög, út frá kortatölum Seðlabankans. Af þeim má lesa að  ferðamannaárið 2014 byrji með miklum látum. Þar mátti sjá gríðarlegan vöxt í kortanotkun útlendinga hér á landi í janúar, og tókst þeim í fyrsta sinn að eyða umfram Íslendinga í útlöndum í janúarmánuð í krónum talið. Verður áhugavert að sjá hvernig kortatölurnar fyrir febrúarmánuð koma út, en þær verða birtar í lok næstu viku.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall