Fréttir Greiningar

Mikill undirliggjandi viðskiptaafgangur

03.09.2015 11:48

Undirliggjandi viðskiptaafgangur var 26,5 ma. kr. á 2. ársfjórðungi 2015 samkvæmt nýbirtum bráðabirgða tölum Seðlabankans. Er það ríflega tvisvar sinnum meiri afgangur en mældist á sama fjórðungi í fyrra, og enn meiru munar sé litið lengra aftur í tímann enda hefur langoftast mælst halli á viðskiptajöfnuði á þessum árstíma. Hefur afgangur af undirliggjandi viðskiptajöfnuði nú mælst 5 ársfjórðunga í röð, en slíkt hefur aldrei áður atvikast, a.m.k. ekki eins langt aftur og tölur Seðlabankans ná sem spanna tvo áratugi. Þáttatekjur án áhrifa slitabúa voru óhagstæðar um 9,4 ma. kr. á 2. ársfjórðungi og rekstrarframlög voru óhagstæð um 4,7 ma. kr. Þegar lá fyrir að afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði nam 41,9 mö. kr. á tímabilinu. Að slitabúunum meðtöldum nam þáttatekjuhalli hins vegar 16,0 mö. kr. og viðskiptaafgangur 21,3 mö. kr. 

Ótrúleg þróun á þjónustujöfnuði

Vart þarf að nefna að sá mikli uppgangur sem verið hefur í ferðaþjónustu hér á landi spilar langstærsta hlutverkið í þeirri jákvæðu þróun sem getið er um hér að ofan. Samkvæmt nýlega birtum tölum Hagstofunnar nam 54,7 ma. kr. afgangur af þjónustu, sem er langhagstæðasta útkoma þessa jafnaðar frá upphafi á öðrum ársfjórðungi. Alls nam útflutningur á þjónustu 149,0 mö. kr. á fjórðungnum og jókst um 27,0 ma. kr. milli ára, en innflutningur þjónustu nam 94,3 mö. kr. og jókst um 4,5 ma. kr. á sama tíma.
 
Þeir tveir undirliðir þjónustujafnaðar sem ferðaþjónusta kemur við sögu áttu augljóslega stærstan þátt í þessum metafgangi. Var afgangurinn mestur af viðskiptum vegna samganga og flutninga (33,6 ma. kr.) og næstmestur var afgangur á þjónustu tengdri ferðalögum (20,4 ma. kr.) Þó dróst afgangurinn af fyrrnefnda liðnum lítillega saman frá sama tíma í fyrra (0,4 ma. kr.), en á hinn bóginn jókst afgangur vegna ferðalaga verulega á milli ára (9,2 ma. kr.). Auk þessara liða var verulegur afgangur á undirlið þjónustujafnaðar sem ber heitið gjöld fyrir notkun hugverka, eða 11,8 ma. kr., en ólíklegt er að svo mikill afgangur komi til með að reynast af þeim lið á næstu fjórðungum. Mestur var hallinn af liðnum annarri þjónustu, eða sem nemur 14,8 mö. kr., en sá liður hefur á undanförnum árum ávallt mælst í halla. Stærsta skýringin á því er eflaust rekstrarleiga sem endurspeglar leigu flutningafyrirtækja á skipum og flugvélum, og má því raunar segja að sá liður sé hin hliðin á þjónustutekjum vegna samgagna, enda eru leiguskipin og –flugvélarnar nýttar til að afla þeirra tekna.

Útflutningur eykst á alla kanta 

Tekjur af erlendum ferðamönnum koma hvort tveggja fram í þjónustu tengdri ferðalögum og í samgöngum, sem eru tekjur íslenskra flugfélaga af því að flytja erlenda farþega, hvort sem það er til og frá Íslandi eða annars staðar í heiminum. Hagstofan hefur einnig birt þann hluta, og telur að samanlagðar tekjur af erlendum ferðamönnum á 2. ársfjórðungi hafi numið 91,9 mö. kr., sem er 14,9 mö. kr. umfram það sem þær voru í fyrra og 20,6 mö. kr. meiri en þær voru á sama tíma árið 2013.
 
Auk mikils vaxtar þjónustuútflutnings var einnig nokkuð myndarlegur vöxtur í vöruútflutningi á 2. ársfjórðungi. Má þar nefna að útflutningur sjávarafurða sem og álafurða jókst hvort um sig um 17,0 ma. kr. milli ára. Samanlagður vöru- og þjónustuútflutningur jókst því um 59,3 ma. kr. á milli ára, og nam alls 313,6 mö. kr. og hefur aldrei áður verið meiri á 2. ársfjórðungi.

Seðlabankinn mætir gjaldeyrisinnstreymi með gjaldeyriskaupum

Gengi krónunnar hækkaði um 0,7% á 2. ársfjórðungi þessa árs samhliða hreinu innflæði gjaldeyris, og þá sérstaklega vegna afar jákvæðs undirliggjandi viðskiptajafnaðar eins og fjallað er um hér á undan. Spornaði Seðlabankinn gegn gengishækkuninni með auknum kaupum á gjaldeyri og námu hrein hrein gjaldeyriskaup bankans 39,3 mö.kr. á fjórðungnum. Án þessara kaupa er ljóst að krónan hefði styrkst umtalsvert meira en hún gerði. Til samanburðar má nefna að á 2. ársfjórðungi í fyrra námu hrein kaup bankans á gjaldeyri 15,9 mö.kr. 

Meðvituð ákvörðun Seðlabankans

Á kynningarfundi vegna síðustu vaxtaákvörðunar peningastefnunefndar þann 19. ágúst sl. sagði seðlabankastjóri að það væri ekki þannig að Seðlabankinn væri að leyfa krónunni að styrkjast mikið þar sem þeir væru að verulegu leyti búnir að taka markaðsöflin þar úr sambandi á millibankamarkaði með gjaldeyri. Sagði hann að um væri að ræða tímabundnar aðstæður þar sem bankinn þyrfti óskuldsettan forða fyrir gjaldeyrisútboð sem er framundan og búa í haginn fyrir losun hafta. Sagði hann að hugsanlega væri bankinn að leggjast gegn styrkingu krónunnar sem innistæða væri fyrir, þ.e.a.s. byggist á þróun grunnþátta og að bankinn gæti ekki gert það lengi. Bætti hann síðan við að ef bankinn gerði þetta í of miklu mæli þá væri hann ekki að seinka eða milda verðbólguáhrifin sem óhjákvæmilega koma fram síðar, heldur væri bankinn að búa til aðstæður þar sem raungengi krónunnar væri að hækka með meiri launahækkunum og meiri verðbólgu en ella. 

Umtalsverð hækkun krónunnar frá síðustu vaxtaákvörðun

Þróunin á gengi krónunnar frá vaxtaákvörðunarfundinum í ágúst bendir til þess að bankinn sé að bregðast við þessari ógn sem seðlabankastjóri nefndi. Gengi krónunnar hefur styrkst umtalsvert á tímabilinu og er nú orðið 4,3% sterkara en það var þegar Seðlabankinn gerði verðbólguspá sína sem birt var samhliða vaxtaákvörðuninni 19. ágúst sl. Bankinn byggir á því í spá sinni að gengi krónunnar haldist óbreytt út spátímabilið. Styrking krónunnar síðustu vikur felur því í sér umtalsverða breytingu á forsendum spár Seðlabankans. Ljóst er að haldist gengi krónunnar á þessum stað eða styrkist frekar, þá mun það skila talsvert minni verðbólgu næsta kastið en Seðlabankinn spáir. Reiknaði hann með því að verðbólgan væri komin upp í 3,8% á fjórða ásfjórðungi þessa árs og færi nokkuð yfir 4% á næsta ári.
 
Líklegt er að styrking krónunnar og breyttar verðbólguhorfur munu hafa áhrif á vaxtaákvörðun peningastefnunefndar þann 30. september nk. Þess má geta að núna í ágúst námu hrein kaup Seðlabankans á gjaldeyri um 45 mö. kr., samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og okkar áætlun um aðgerðir banans á síðustu dögum mánaðarins. Um er að ræða stærsta mánuð í hreinum gjaldeyriskaupum bankans frá upphafi og meiri kaup en á öllum 2. ársfjórðungi. Til samanburðar má einnig nefna að allt árið í fyrra námu hreingjaldeyriskaup bankans 111,4 mö. kr.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall