Fréttir Greiningar

Hægari hagvöxtur en reiknað var með

05.12.2014 11:44

Hagvöxtur á fyrstu 9 mánuðum ársins var 0,5% samkvæmt bráðabirgðatölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun. Þetta er langt undir væntingum okkar sem og annarra spáa fyrir árið í heild, en þær liggja á bilinu 2,7%-3,1% hagvöxtur. Spáum við 3,1% hagvexti á árinu í nýjustu spá okkar sem er frá því í byrjun október sl., og Seðlabanki Íslands spáir 2,9% hagvexti í spá sinni sem hann birti í byrjun nóvember. Rótin að hagvexti undir væntingum er í minni vexti þjóðarútgjalda er reiknað var með, og sérstaklega minni vexti einkaneyslu.

Vöxtur einkaneyslu undir væntingum

Vöxtur einkaneyslu var 2,8% á fyrstu 9 mán. ársins. Er þetta nokkuð undir spám, en við spáum 4,5% vexti einkaneyslu í ár og Seðlabankinn 4,3%. Þarna liggur einna stærsta skýringin á litlum hagvexti m.v. spár. Rétt er að hafa í huga að þessar fyrstu tölur geta tekið verulegum breytingum við síðari endurskoðun, og í ljósi m.a. kortaveltutalna finnst okkur líklegra en ekki að vöxtur einkaneyslu reynist meiri en kemur fram í þessum fyrstu tölum Hagstofunnar. Þrátt fyrir að einkaneysluvöxturinn sé undir því sem spáð er fyrir árið í heild er hann talsvert meiri en á síðasta ári þegar hann mældist einungis 0,8%. Vöxturinn í einkaneyslunni hefur því tekið við sér en ekki jafn kröftuglega og reiknað var með.  

Vöxtur fjárfestinga nálægt því sem búast mátti við

Fjárfesting jókst um 12% á fyrstu 9 mán. ársins. Er það nokkuð nálægt okkar væntingum fyrir vöxt á árinu. Við spáum 13,8% vexti fjárfestinga á árinu í heild og Seðlabankinn 17,6%. Íbúðafjárfesting jókst um 17,8% á fyrstu níu mánuðum ársins, fjárfesting atvinnuveganna um 11,7% og fjárfesting hins opinbera um 7,3%. Er vöxturinn í öllum þessum liðum undir því sem bæði við og Seðlabankinn spáum fyrir árið í heild. Fagnaðarefni er samt að það sé kominn þetta mikill vöxtur í fjárfestingar og að fjárfestingarstigið í hagkerfinu, sem hefur verið afar lágt undanfarin ár, sé hækkandi þótt þróunin sé ívið hægari en við áttum von á. Var fjárfestingin sem hlutfall af landsframleiðslu 16,2% á fyrstu níu mánuðum þessa árs samanborið við 14,9% á sama tíma í fyrra.   

Hraðari vöxtur í utanríkisviðskiptum en reiknað var með

Útflutningur vöru og þjónustu jókst um 5,1% á fyrstu 9 mán. ársins, þar af vöruútflutningur um 3,9% og þjónustuútflutningur um 6,4%. Er þetta nokkuð meiri vöxtur en bæði við og Seðlabankinn spáum á árinu í það heila. Kemur hann í kjölfar 6,9% vaxtar í útflutningi í fyrra, en utanríkisviðskipti héldu uppi hagvexti það árið. Er aukinn vöxtur í útflutningi að sjálfsögðu kærkomin búbót, en kemur nokkuð á óvart í ljósi lélegrar loðnuvertíðar og rafmagnsskömmtunar til stóriðju á fyrstu mánuðum ársins. 

Innflutningur vöru og þjónustu jókst um 10,8% á fyrstu 9 mán. ársins, þar af vöruinnflutningur um 11,1% og þjónustuinnflutningur um 10,3%. Er innflutningur að vaxa hraðar á þessu tímabili en gert er ráð fyrir í spám okkar og Seðlabankans fyrir árið í heild. Er það í sjálfu sér nokkuð merkilegt þar sem þjóðarútgjöld eru að vaxa hægar en reiknað er með í þessum spám. Spáum við 7,3% vexti innflutnings á árinu í heild en Seðlabankinn 8,3%. Skýringin virðist felast í því að innflutningshlutfall aukinna þjóðarútgjalda er hærra en reiknað var með auk þess að útflutningur er nokkuð umfram spár. 

Framlag utanríkisviðskipta til landsframleiðslu var neikvætt á fyrstu níu mánuðum ársins og skýrir af hverju landsframleiðslan jókst aðeins um 0,5% á tímabilinu þrátt fyrri að þjóðarútgjöld hafi aukist um 3,0%. Var framlag utanríkisviðskipta á fyrstu níu mánuðum ársins nálægt því sem við höfðum reiknað með. 

Varhugavert að horfa í breytingu milli einstakra ársfjórðunga

Ef litið er á ársbreytingu eftir ársfjórðungum á árinu mælist aðeins hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi, en þá var hann 2,2%. Á fyrsta ársfjórðungi var 0,4% samdráttur, og 0,2% samdráttur milli ára á þriðja ársfjórðungi. Varhugavert er að túlka sterkt einstaka ársfjórðunga í íslenskum þjóðhagsreikningum og því horfum við frekar til talna fyrir fyrstu níu mánuði ársins. 

Styður spá um lækkun stýrivaxta

Ofangreindar landsframleiðslutölur renna stoðum undir þá spá okkar að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða að lækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur næstkomandi miðvikudag, og að önnur vaxtalækkun fylgi í febrúar á næsta ári. Styðja tölurnar það að raunstýrivextir bankans hafi undanfarið hækkað umfram það sem staða hagsveiflunnar og nærhorfur gefa tilefni til.  Virkir raunvextir bankans miðað við ársverðbólgu eru nú tæplega 4,0% og hafa hækkað um tæplega 0,7 prósentustig frá síðustu vaxtaákvörðun þrátt fyrir lækkun nafnstýrivaxta bankans þá. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall