Fréttir Greiningar

Þjónustuútflutningur gegnir lykilhlutverki við gjaldeyrisöflun

08.05.2014 10:55

Gjaldeyrisinnstreymi vegna ferðaþjónustu vó gegn afar óhagstæðum vöruskiptum í aprílmánuði. Innbyrðis þróun vöru- og þjónustuviðskipta það sem af er ári hefur verið enn hraðari en við áttum von á, þar sem innflæði vegna þjónustuviðskipta hefur vaxið meira en við væntum á sama tíma og vöruskiptin hafa reynst óhagstæðari en búast mátti við.

Apríl: Áfram ótrúleg aukning á ferðamönnum

nullFerðamálastofa birti fyrr í vikunni brottfarartölur um Keflavíkurflugvöll (KEF) í apríl sl. Er þar sama ótrúlega aukningin á fjölda erlendra ferðamanna og undanfarið, en þeir voru alls 59,2 þús. talsins í apríl sl. samanborið við 45,8 þús. á sama tíma í fyrra. Fjölgaði þeim þar með um rúm 29,4% á milli ára og er þetta fjölmennasti aprílmánuður hvað varðar erlenda ferðamenn frá upphafi.  Aukning í apríl er aðeins umfram það sem við gerðum ráð fyrir í mánuðinum (27%) og fjallað er um í spá sem við birtum í aprílbyrjun. Hefur því  sætanýting  almennt batnað á milli ára í apríl.

Einnig var talsverð aukning í brottförum Íslendinga um KEF, sem skýrist væntanlega að miklu leyti af því að í fyrra héldu menn utan vegna páskafrís í marsmánuði en í apríl í ár. Fóru alls 35,4 þúsund Íslendingar erlendis í apríl samanborið við 28,1 þúsund á sama tíma í fyrra. Fjölgaði þeim þar með um 25,9% á milli ára.

Apríl: Mesti halli á vöruskiptum síðan fyrir hrun

nullHagstofan birti svo bráðabirgðatölur um vöruskipti við útlönd í apríl í gærmorgun, og óhætt er að segja að þær tölur hafi verið nokkuð sláandi Samkvæmt þeim voru vöruskipti óhagstæð um 7,0 ma.kr. Er hér um að ræða mesta halla á vöruskiptum frá því í júlí 2008, sem sagt fyrir hrun, hvort sem leiðrétt sé fyrir sveiflum í gengi krónunnar eða ekki.

Halli á vöruskiptum skýrist fyrst og fremst af rýrum útflutningi, en verðmæti vöruútflutnings nam 37,5 mö.kr. í mánuðinum. Á sama tíma í fyrra voru fluttar út vörur fyrir 51,6 ma.kr., eða sem nemur rúmum 14 mö.kr. meira en nú. Útflutningsverðmæti iðnaðarvara nam 17,3 mö.kr. í apríl, sem er um 10 mö.kr. minna en flutt var út á sama tíma í fyrra. Útflutningur sjávarafurða dróst einnig saman, en verðmæti þeirra nam alls 18,7 mö.kr. í apríl sem er rúmlega 4 mö.kr. minna en flutt var út í apríl í fyrra. Innflutningur dróst einnig saman á milli ára, en þó í mun minna mæli en útflutningur. Alls voru fluttar inn vörur fyrir 44,5 ma.kr. í apríl sl. samanborið við 47,8 ma.kr. á sama tíma í fyrra.

Margt leggst á eitt í rýrum útflutningi í aprílmánuði. Loðnuvertíðin var afar slök þennan veturinn og útflutningur uppsjávarafurða þar með lítill í magni mælt. Þá drógu álfyrirtækin úr framleiðslu seinni hluta vetrar vegna skömmtunar raforku, sem kom til af slæmum vatnsbúskap vatnsaflsvirkjana. Verð á bæði uppsjávarafurðum og áli hefur auk þess verið lágt á tímabilinu. Loks er hér líklega að hluta til um tilfærslu á milli mánaða að ræða, og gæti því vöruútflutningur orðið með meira móti í maí.

Í það minnsta 20% fjölgun ferðamanna 2014

nullBrottfarir erlendra ferðamanna frá landinu um KEF eru nú þegar komnar upp í 224,5 þús. á fyrsta þriðjungi ársins samanborið við 167,9 þús. á sama tímabili í fyrra. Þetta nemur 34% fjölgun á milli ára, en 79% sé borið saman við sama tímabil 2012. Er það í línu við spá okkar um fjölda erlendra ferðamanna fyrir árið í heild, en þar gerðum við ráð fyrir að ferðamenn yrðu í það minnsta 20% fleiri í ár en í fyrra. Samkvæmt tölum Isavia um fyrirhugaða flugumferð í hverjum mánuði til októberloka er útlit fyrir að sama sagan verði upp á teningnum í ár og undanfarin ár, þ.e. að erlendum ferðamönnum fjölgi hlutfallslega meira utan háannartíma og þar með að áfram dragi úr árstíðarsveiflu. Við teljum í raun að mesta aukningin á árinu hafi verið á fyrstu mánuðum ársins, og þá að hún verði eitthvað hóflegri síðustu mánuði ársins.

Brottfarir Íslendinga um KEF eru komnar upp í 106,6 þús. á fyrsta þriðjungi ársins, og er það fjölgun upp á rúm 7% frá sama tíma í fyrra. Ferðamannajöfnuður, þ.e. brottfarir erlendra gesta umfram Íslendinga, er nú kominn upp í 117,8 þús. samanborið við 68,3 þús. í fyrra.

Vöruskipti: Ekki verri byrjun á ári síðan 2008

nullÁ fyrsta þriðjungi ársins var vöruskiptajöfnuður hagstæður um aðeins 2,3 ma.kr. samanborið við 30,4 ma.kr. á sama tímabili í fyrra. Er hér um langminnsta afgang að ræða af vöruskiptum frá hruni, og á það bæði við hvort sem leiðrétt er fyrir sveiflum í gengi krónunnar eða ekki.

Alls hafa verið fluttar út vörur á tímabilinu fyrir 173,8 ma.kr., sem er 35 mö.kr. minna en flutt var út á sama tíma í fyrra. Skýrist það hvort tveggja af rýrum útflutningi iðnaðarvara og sjávarafurða. Útflutningsverðmæti iðnaðarvara nam alls 88,5 mö.kr. á fyrsta þriðjungi ársins sem er um 20 mö.kr. minna en flutt var út á sama tímabili í fyrra. Á sama tímabili hafa verið fluttar út sjávarafurðir fyrir 74,5 ma.kr., sem er um 17 mö.kr. minna en útflutningsverðmæti þeirra nam í sama tímabili í fyrra.

Alls voru fluttar inn vörur fyrir 171,3 ma.kr. á fyrsta þriðjungi ársins, sem er um 7 mö.kr. minna ein flutt var inn á sama tímabili í fyrra. Þó hefur gengi krónunnar verið töluvert sterkara í ár en það var á sama tímabili í fyrra og sé leiðrétt fyrir sveiflum í gengi krónunnar þá hefur innflutningur í raun aukist á milli ára. Það sama gildir ekki um útflutning, og er hann mun minni nú en í fyrra hvort sem leiðrétt sé fyrir gengi krónunnar eður ei. Aukinn innflutningur skýrir því ekki óhagstæða þróun vöruskipta milli ára, heldur eingöngu snarpur samdráttur í útflutningi. Er þessi þróun útflutnings verulegt áhyggjuefni, þótt við teljum raunar að hann muni sækja nokkuð í sig veðrið þegar líður á árið þar sem tímabundin áföll skýra slakt upphaf ársins að talsverðu leyti eins og reifað var hér að framan. Það er í öllu falli ljóst að þjónustuútflutningur gegnir orðið lykilhlutverki við að afla gjaldeyris fyrir þjóðarbúið, og er líklegt að hreint gjaldeyrisinnflæði vegna þjónustuviðskipta verði umtalsvert meira en hreint innflæði vegna vöruskipta í ár. Í heild gerum við ráð fyrir að afgangur vöru- og þjónustuviðskipta verði svipaður í krónum talið og í fyrra, þegar hann var 132 ma.kr. samkvæmt tölum Seðlabankans.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall