Fréttir Greiningar

Ágætis vetrarbyrjun á hlutabréfamörkuðum

04.12.2013 09:47

Velta á hlutabréfamarkaði nam tæpum 20 mö.kr. í nóvembermánuði og var því örlítið meiri en hún var að jafnaði í september og október þegar veltan nam um 19,4 mö.kr. Um 31% veltunnar í nóvember var með bréf í Icelandair en félagið hefur verið veltumesta félag kauphallarinnar átta af ellefu mánuðum sem liðinir eru af árinu. Velta með bréf í Marel tók nokkuð óvæntan kipp í mánuðinum og var það næst veltumesta félagið.

Útboð N1 virðist ekki, í það minnsta enn sem komið er, vera að ýta undir viðlíka veltuaukningu og við sáum í kringum útboð tryggingafélaganna. Ástæðan gæti verið sú að útboðið er mun minna í sniðum og þar sem lítið hefur verið um nýja fjárfestingakosti á árinu er ekki ólíklegt að kistur fjárfesta er innihalda laust fé til fjárfestinga standi fullar.

Eimskip hástökkvari nóvembermánaðar

nullGengi bréfa í Eimskip hækkaði mest í nóvembermánuði, eða um 8,1%. Einungis tvö félög lækkuðu, Icelandair um 0,6% og VÍS um 2,4%. Lækkun á bréfum í VÍS kemur ekki á óvart enda lækkaði virði skuldabréfa á markaði töluvert undir lok mánaðarins og hafði sú lækkun bein áhrif á virði eigna félagsins.

Vísitala Kauphallarinnar, OMXI6ISK, hækkaði um 3,6% í nóvember en vísitala Greiningar Íslandsbanka, K-90, hækkaði um 3,2%. Frá ársbyrjun til loka nóvember hefur K-90 hækkað um 29,4% en OMXI6ISK hækkað um 15,6%. Aðferðarfræði við útreikninga vísitalnanna er misjöfn en meginskýringin á þessum mikla mun er sú staðreynd að Össur var inn í vísitölu Kauphallarinnar fram á mitt ár en verðmyndun félagsins á íslenska hlutabréfamarkaðnum er mjög óskilvirk.

Uppgjörstímabil á enda

Öll félögin birtu uppgjör í lok október eða nóvember og hafði birtingin mis mikil áhrif á gengi félaganna. Gengi bréfa í Össuri hækkuðu mest í kjölfar uppgjörs, eða um 3,9% daginn eftir birtingu. Næstmest var hækkun bréfa í Vodafone, eða um 3,2%, en segja má að með uppgjöri þriðja ársfjórðungs hafi félagið loksins fengið uppreisn æru eftir töluvert ýkt viðbrögð við slæmu uppgjöri á fyrsta ársfjórðungi. Yfir nóvembermánuð hækkaði Vodafone samtals um 4,8% og stóð gengi félagsins í 29,75 kr. á hlut í lok hans. Í kjölfar árásar á vef félagsins um síðustu helgi lækkaði gengi félagsins hins vegar töluvert aftur og stendur nú í kringum 26 kr. á hlut. Gengi félagsins hafði þó samtals yfir október- og nóvembermánuð hækkað verulega og hefur lækkunin nú í byrjun desember ekki náð að eyða að fullu þeirri hækkun.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall