Fréttir Greiningar

Almennt spáð auknum hagvexti hér á landi

22.11.2013 09:51

nullÞeir þrír aðilar sem gefið hafa út hagvaxtarspár fyrir Ísland í þessum mánuði, þ.e. OECD, Seðlabanki Íslands og Hagstofan, eru sammála um það að hagvöxtur muni glæðast hér á landi á næstunni. Spá þessir aðilar 2,5%-2,7% hagvexti hér á landi á næsta ári en 2,8% hagvexti á árinu 2015.

Lítill munur á spám um hagvöxt

Við þá miklu óvissu sem nú er í efnahagsmálum hér á landi er nokkuð merkilegt að ofangreindar spár séu jafn líkar og raun ber vitni. Mesti breytileikinn í hagvaxtarspám ofangreindra aðila er í raun í spá þeirra fyrir árið í ár sem er nær liðið, en þar eru spárnar frá 1,8%-2,3% hagvexti.

Óvissan sést í spám um undirliði

Óvissan í efnahagsmálunum endurspeglast betur í undirliðum ofangreindra hagvaxtarspáa. Þannig reiknar OECD með talsvert meiri vexti í útflutningi næstu árin en bæði Hagstofan og Seðlabankinn gera ráð fyrir. Spáir stofnunin 3,1% vexti í útflutningi á næsta ári og 3,2% á árinu 2015. Seðlabankinn á hinn bóginn reiknar með 2,2% vexti útflutnings á næsta ári og 1,6% á árinu 2015. Á móti reiknar OECD með minnstum vexti fjárfestinga af þessum aðilum, eða 6,2% á næsta ári og 7,1% á árinu 2015. Seðlabankinn reiknar með 8,9% vexti fjárfestinga á næsta ári og 22,8% árið 2015. Þá reiknar Seðlabankinn með áberandi minnstum vexti í einkaneyslu næstu tvö árin.   

Árið 2015 verður merkilegt ár

Allir þessir aðilar telja að atvinnuleysi muni minnka áfram á næstu tveim árum og að slakinn verði horfinn úr efnahagslífinu á árinu 2015. Þá reikna þeir með því að verðbólgan muni hjaðna á spátímabilinu og verða nálægt verðbólgumarkmiðinu undir lok þess. Árið 2015 verður þannig á margan hátt nokkuð merkilegt ár í sögu efnahagsmála eftir hrun gangi þessar spár eftir. Samkvæmt spánum mun landsframleiðslan á árinu 2015 verða meiri í fyrsta sinn eftir hrun en hún var árið 2008. 

Svipuð hagvaxtarþróun og í OECD ríkjunum almennt

nullSpá OECD sem kom út í mánuðinum nær til allra aðildarríkja stofnunarinnar. Spáir hún því að hagvöxtur glæðist almennt á meðal aðildarríkjanna og að hann verði 2,4% að meðaltali á næsta ári og 2,8% á árinu 2015 eftir 1,9% vöxt í ár. Sá aukni hagvöxtur sem spáð er hér á landi á næstunni skýrist að hluta af þessum vænta aukna hagvexti í iðnríkjunum. Hagvaxtarþróunin hér samkvæmt ofangreindum spám mun einnig verða afar nálægt þessu meðaltali OECD ríkjanna. 

Okkar spá er svipuð

Ekki er hægt að segja að hagvaxtarspá okkar sem við birtum í byrjun október síðastliðinn sé mikið frábrugðin ofangreindum hagvaxtarspám fyrir Ísland. Við erum aðeins svartsýnni á árið í ár, og spáum 1,7% hagvexti. Við reiknum með að hagvöxtur muni glæðast á næsta ári og verða 2,6%, sem er í meðaltali þess sem ofangreindir aðilar spá. Þá spáum við 2,7% hagvexti árið 2015. Reiknum við með því að hagvöxtur verði drifinn áfram af auknum vexti einkaneyslu og fjárfestinga, ásamt áframhaldandi vexti í útflutningi. Hagvöxtur verður þannig byggður á nokkuð breiðum grundvelli. Líkt og ofangreindar spár gera ráð fyrir þá reiknum við með að slakinn hverfi úr efnahagslífinu á næstu tveimur árum, en á hinn bóginn að verðbólgan verði öllu þrálátari en ofangreindir aðilar reikna með.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall