Fréttir Greiningar

Gjaldeyrisforðinn nær nýjum hæðum

09.11.2016 11:10

Hreinn gjaldeyrisforði Seðlabankans hefur tvöfaldast frá áramótum. Hreinn forði samsvarar nú hálfs árs innflutningi vöru og þjónustu, og er stærri en sem nemur líklegu útflæði vegna haftalosunar og erlendra fjárfestinga lífeyrissjóða næstu ár að viðbættum öllum aflandskrónustabbanum sem eftir situr. Gjaldeyrisinnflæði það sem af er ári er miklu meira en hægt er að skýra með afgangi af viðskiptajöfnuði og þeim hreyfingum um fjármagnsjöfnuð sem skýrt hafa gjaldeyrisflæðið að mestu síðustu ár. 

Forðinn gildnaði hressilega í október

Nýliðinn október var stærsti mánuður frá upphafi í forðasöfnun Seðlabankans. Alls keypti bankinn 396 m.EUR í gjaldeyrisforðann í mánuðinum, en til samanburðar námu gjaldeyriskaup hans að meðaltali 234 m.EUR í mánuði hverjum á fyrstu þremur fjórðungum ársins. Eins og við fjölluðum nýlega um leggst margt á eitt í miklu gjaldeyrisinnflæði í mánuðinum, bæði mikill vöxtur í þjónustuútflutningi, afgangur af vöruskiptum og síðast en ekki síst virðist innflæði um fjármagnsjöfnuð hafa verið verulegt í mánuðinum. Það sem af er nóvember virðist lítið lát á innflæðinu. Þannig keypti Seðlabankinn 51 m.EUR á fyrstu 3 dögum nóvembermánaðar, en til samanburðar voru heildarkaup hans 72 m.EUR í sama mánuði í fyrra. Þrátt fyrir metkaup bankans á gjaldeyri í október styrktist krónan um 3,6% í mánuðinum m.v. gengisvísitölu. 

Úr nýbirtum tölum Seðlabankans fyrir efnahag hans í októberlok má lesa að hreinn gjaldeyrisforði nam 4,3 mö.EUR (jafnvirði 540 ma.kr.), og hafði hann aukist um ríflega 400 m.EUR í októbermánuði á þennan mælikvarða. Stækkun forðans í október einum og sér var þannig meiri en sem nam hreinum gjaldeyrisforða í febrúar 2015. Heildar gjaldeyrisforði bankans var 6,3 ma.EUR (799 mö.kr.) í lok októbermánaðar, og hefur hann ekki verið stærri á þann kvarða síðan á fyrsta fjórðungi ársins 2012. Þá var forðinn hins vegar alfarið tekinn að láni, en nú standa gjaldeyrisskuldir á móti 1,9 mö.EUR af forðanum í efnahag Seðlabankans.

Af nógu að taka við losun hafta?

Óhætt er að segja að gjaldeyrisforðinn sé ríflegur, hvort sem horft er til hreins forða eða heildarforða. Má til dæmis nefna að við áætlum að innflutningur vöru og þjónustu muni nema tæplega 1.100 mö.kr. á yfirstandandi ári. Hreini forðinn gæti samkvæmt því fjármagnað innflutning í u.þ.b. 6 mánuði, og heildarforðinn dygði til að greiða fyrir nærri 9 mánaða innflutning. Svipaða sögu er að segja af samanburði við aðrar stærðir á borð við skammtímaskuldir. 

Fróðlegt er hins vegar að setja stærð forðans í samhengi við mögulegt útflæði um fjármagnsjöfnuðinn við losun hafta. Mikil óvissa er um hversu mikið innlendir aðilar munu kjósa að fjárfesta erlendis í kjölfar þess losunarskrefs sem stigið verður um næstu áramót, og sömuleiðis hefur Seðlabankinn verið nokkuð sveiflukenndur í heimildum til fjárfestinga lífeyrissjóða erlendis. Við höfum þó dregið upp sviðsmynd, þar sem við áætlum að útflæði vegna einstaklinga og fyrirtækja gæti numið á bilinu 60-80 ma.kr. næstu tvö árin, og að útflæði vegna lífeyrissjóða gæti verið á bilinu 80-140 ma.kr. Þá er einnig á huldu hvenær, og hvernig, losað verður um höft á aflandskrónur, en í ljósi þess að áhyggjur Seðlabankans snúast meira að því að tempra gjaldeyrisinnflæði og greiða vaxandi vaxtamunarkostnað af gjaldeyrisforðanum  en að hindra útflæði hlýtur að teljast rökrétt að höftum á þessar krónur verði aflétt á næstu tveimur árum. Þar er um að ræða u.þ.b. 232 ma.kr., en vel getur hugsast að eigendur þeirra eigna þurfi að sætta sig við óhagstæðara gengi en álandsgengið líkt og aðrir aflandskrónaeigendur hingað til. 

Samanlagt er hér um að ræða allt að 450 mö.kr. eða 3,6 ma.EUR miðað við forsendur okkar. Vitaskuld er hér aðeins um einfaldaða sviðsmynd að ræða, og ekki tekið tillit til gjaldeyrisinnflæðis vegna viðskiptaafgangs og/eða fjárfestingar inn í landið á tímabilinu. Miðað við þær forsendur er þó ljóst að hreini gjaldeyrisforðinn dygði fyrir öllu þessu útflæði og gott betur, og talsverður afgangur yrði af heildarforðanum. Því virðist ljóst að eftir litlu er að bíða á komandi ári með að losa höft á almenna fjármagnsflutninga að fullu, og raunar virðist Seðlabankanum ekki veita af öllu því liðsinni sem hann getur fengið til þess að tempra styrkingu krónunnar og aftra raungenginu frá því að endurtaka enn og aftur hina gamalkunnu sveiflu langt yfir jafnvægisgildi í hápunkti uppsveiflunnar í hagkerfinu, sem hingað til hefur ávallt á endanum leitt til misharkalegrar aðlögunar í formi gengisveikingar þegar að niðursveiflunni í efnahagslífinu kemur.


Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall