Fréttir Greiningar

Brún neytenda léttari á aðventunni

23.12.2014 11:04

Íslenskir neytendur virðast hafa komist í nokkurt jólaskap á aðventunni eftir fremur þungbúið haust, þótt enn sé nokkuð í að almenn bjartsýni ríki um stöðu og horfur í efnahags- og atvinnumálum. Þá hyggja nú fleiri en áður á ferðalög til útlanda, en heldur færri eru í bifreiða- og húsakaupahugleiðingum en raunin var í sumarlok. Þetta má lesa úr nýlega birtu yfirliti Capacent yfir Væntingavísitölu Gallup (VVG) fyrir desembermánuð. 

VVG hækkaði í desember um 6,5 stig frá mánuðinum á undan og mælist nú 86,7 stig. Er það hæsta gildi hennar frá september síðastliðnum, en VVG tók nokkuð snarpa dýfu með haustinu. Vísitalan er enn nokkuð frá 100 stiga jafnvæginu milli bjartsýni og svartsýni hjá íslenskum neytendum, en frá hruni hefur hún einungis í þrígang mælst yfir 100 stigum.

Mat á atvinnuástandi hækkaði mest, eða um 13 stig. Einnig varð all myndarleg hækkun á mati neytenda á núverandi ástandi, en það hækkaði um tæp 10 stig. Væntingar til næstu sex mánaða breyttust minna, og mat á efnahagsástandinu var nánast óbreytt.

Væntingar um framtíðina hafa sigið

Athyglisvert er að bera saman leitni í mati neytenda á núverandi ástandi annars vegar, og væntingum til næstu 6 mánaða hins vegar. Líkt og sést á myndinni hefur mat á núverandi ástandi sótt jafnt og þétt í sig veðrið undanfarin 5 ár á þennan mælikvarða, að frátöldu stuttu bakslagi á síðasta ári. Leitni 6 mánaða væntinga náði hins vegar hámarki um mitt síðasta ár og hefur heldur farið lækkandi síðan. Þessi þróun minnir að sumu leyti á innbyrðis þróun þessara stærða fyrir rétt um áratug síðan, en á sér þó stað við talsvert lægri gildi nú. Fyrir áratug var VVG talsvert yfir 100 stiga jafnvægisgildinu þegar þessi þróun varð, en er þessa dagana nokkuð undir þeim miðpunkti sem markar skil milli bjartsýni og svartsýni hjá meirihluta neytenda.

Meiri ferðir, færri bílar?

Capacent birti einnig stórkaupavísitölu, eins og jafnan í síðasta mánuði hvers ársfjórðungs. Að þessu sinni varð ekki breyting á stórkaupavísitölunni frá síðustu mælingu hennar, en frá sama tíma í fyrra hefur stórkaupavísitalan hins vegar hækkað um 6 stig. Stórkaupavísitalan vegur saman fyrirhuguð bifreiðakaup, húsnæðiskaup og kaup á utanlandsferðum. Að þessu sinni lækkaði vísitalan fyrir bifreiðakaup um fjögur stig milli mælinga, en tæp 12% svarenda töldu líklegt að þeir myndu ráðast í bílakaup næsta hálfa árið. Vísitala fyrir húsnæðiskaup lækkaði einnig lítillega, og virðist ekki sem fyrstu niðurstöður úr skuldalækkunaraðgerð stjórnvalda hafi aukið áhuga á húsnæðiskaupum enn sem komið er. Á móti hækkaði vísitalan fyrir fyrirhugaðar utanlandsferðir um fjögur stig, og fór í sitt hæsta gildi frá hruni. Töldu u.þ.b. tveir af hverjum þremur svarendum líklegt að þeir myndu fara út fyrir landsteinana næstu 12 mánuðina.  

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall