Fréttir Greiningar

Fjáreignir tryggingafélaganna 116 ma.kr.

20.09.2013 12:01

nullFjáreignir tryggingafélaganna námu 116 mö.kr. í lok júlí sl., sem er 140% af vátryggingaskuld félaganna. Hlutfall fjáreigna á móti vátryggingaskuld sveiflast þó nokkuð yfir árið í takt við árstíðarsveiflu iðgjaldaskuldar félaganna en hún hækkar í ársbyrjun og lækkar svo yfir árið. Þróun þessa hlutfalls hefur verið upp á við síðustu ár sem bendir til þess að vátryggingavernd tryggingartaka sé heldur að batna. Þess ber að geta að hér er um er að ræða samtölu alls tryggingamarkaðarins sem gefur ekki vísbendingu um stöðu einstakra félaga.

Vátryggingavernd tryggingartaka batnar

nullVátryggingavernd tryggingartaka var töluvert há árin fyrir hrun, metin með fyrrgreindu hlutfalli, en áhætta í eignasafni félaganna var hins vegar meiri. Eins og sést á myndinni hér til hliðar fór hlutfall hlutabréfa og hlutdeildaskírteina vel yfir 60% af fjáreignum tryggingafélaga þegar mest lét en í júlí sl. var hlutfall þessara eigna 22%. Á sama tíma hefur hlutfall skuldabréfa hækkað verulega en hlutfall þeirra var 61% í júlí sl. Hlutfall handbærs fjár eða ígildi þess nam rúmum 14% en útlán voru tæp 3%. Ef við skoðum hlutfall þeirra eigna sem almennt eru taldar traustastar, þ.e. skuldabréf og handbært fé og ígildi þess, má sjá að þær eignir í júlí  sl. dugðu fyrir samanlagðri vátryggingaskuld félaganna en þegar verst lét hefðu þær einungis dugað fyrir tæpum þriðjungi hennar. Þess ber þó að geta að takmarkaðir fjárfestingakostir þýða eðlilega að áhættudreifing innan einstakra flokka er minni en ella.

Hóflegt eignasafn eftir hrun

OECD gefur árlega út tölur fyrir tryggingamarkað aðildarríkja þess. Nýjustu tölur eru frá því 2011 og benda þær til þess að íslensk tryggingarfélög séu nokkuð hófleg er kemur að samsetningu sinna eignasafna. Í því eignasafni sem OECD metur var hlutfall skuldabréfa á Íslandi 76,7% en að meðaltali var skuldabréfaeign í eignasöfnum tryggingarfélaga ríkja innan OECD um 62%. Hlutabréfaeign hér heima var aftur 17,3% en 12,5% í OECD ríkjunum. Það sem út af stendur er svo fjárfest í öðrum eignum en OECD tilgreinir ekki sérstaklega um hvers konar fjárfestingar er að ræða enda eru þær eflaust af ýmsum toga og ólíkar. Árið 2011 voru aðeins þrjú lönd með hærra hlutfall skuldabréfa gefnum út af opinberum aðilum (e. public sector bonds) í sínum skuldabréfasöfnum. Þessi samanburður kann þó að lýsa að verulegu leyti því framboði sem var á fjárfestingamarkaði fyrir tveimur árum en frá þeim tíma hefur bæði hlutabréfamarkaður stækkað og skuldabréfaútgáfa einkaaðila aukist.

Eru hóflegri eignsöfn komið til að vera?

Sem fyrr segir virðast eignasöfn félaganna nokkuð hófleg í dag og miðað við núverandi eignahald, þar sem lífeyrissjóðir eiga stóran hluta í þrem stærstu tryggingafélögum landsins, standa líkur til að ekki verði stórvægilegar breytingar þar á í bráð. Tryggingafélög hafa þó löngum laðað að sér fjárfesta sem telja sig geta aukið ávöxtun eignasafns tryggingafélags hluthöfum til hagsbóta, enda þarf oft lítið fjármagn til að ná áhrifastöðu í stýringu tryggingafélags. Fari slíkur fjárfestir út í áhættusamar fjárfestingar er þó fyrirséð að hagsmunir fjárfesta og þeirra sem tryggja hjá umræddu félagi fara illa saman þar sem tryggingavernd þeirra kann að versna. Regluverk Solvency II, sem unnið er í innleiðingu á, á þó að leiða til þess að fjárfestar geti ekki notað eignasafn félags á kostnað vátryggjenda. Við innleiðingu Solvency II verður tryggingafélögum gert skylt að hækka eiginfjárhlutfall sitt til samræmis við aukna áhættutöku ásamt ríkari kröfum um upplýsingar sem birta þarf í uppgjörum tryggingarfélaganna.  Verði árangur innleiðingarinnar sem skyldi er ekki ólíklegt að hóflegri eignasöfn séu komin til að vera.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall