Fréttir Greiningar

Mesta verðbólga í ár

27.08.2015 11:17

Verðbólga mælist nú 2,2% hér á landi og hefur hún ekki verið meiri í heilt ár, eða síðan í ágúst í fyrra. Engu að síður mælist verðbólga enn undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans, líkt og hún hefur gert samfleytt undanfarna 19 mánuði. Horfur eru á stíganda í árstakti verðbólgunnar á næstu mánuðum, og er útlit fyrir að verðbólgan verði komin vel yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans fyrir árslok.

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,53% í ágúst. Mælingin er í samræmi við spá okkar en við spáðum 0,5% hækkun VNV milli mánaða. Opinberar spár voru á bilinu 0,1% til 0,5% hækkun. Árstaktur verðbólgunnar hækkar talsvert í ágúst, en verðbólga mælist nú 2,2% en var 1,9% í júlí. Miðað við VNV án húsnæðis mælist hins vegar 0,7% verðbólga undanfarna 12 mánuði en á þann kvarða mældist hún 0,4% í júlí, og er því stígandi einnig í árstaktinum á þann kvarða. 

Útsölulok og matarkarfan til hækkunar

Líkt og jafnan í ágúst höfðu útsölulok talsverð hækkunaráhrif í VNV, en þó voru áhrifin minni en við reiknuðum með. Þannig hækkuðu föt og skór í verði um 5,4% (0,21% áhrif í VNV), sem er heldur minni hækkun á þessum lið í ágústmánuði en verið hefur undanfarin tvö ár. Eins var talsverð hækkun á matarkörfunni nú í ágúst, en alls hækkaði mat- og drykkjarvöruliðurinn um 1,1% í ágústmælingunni frá síðasta mánuði (0,16% í VNV). Líkt og við mátti búast spilaði þar hækkun á verði á mjólk og mjólkurafurðum stóra rullu (0,09% í VNV). 

Kostnaður við hús og híbýli hækkar vegna kjarasamninga

Húsnæðisliður VNV hækkaði um 0,5% í ágúst (0,14% í VNV). Þar af hækkaði reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu markaðsverð íbúðarhúsnæðis, um 0,3% (0,04% í VNV) og greidd húsaleiga um 0,3% (0,01% í VNV). Í takti við væntingar okkar var mikil hækkun á kostnaði við viðhald á húsnæði, en alls hækkað sá liður um 3,0% (0,08% í VNV) á milli júlí og ágúst. Þá hækkun má svo aftur rekja til 11,6% hækkunar á viðhaldsþjónustu, sem kemur í kjölfar nýgerðra kjarasamninga iðnaðarmanna og verkafólks í byggingariðnaði. 

Ferðaliðurinn lækkar

Alls lækkaði ferða- og flutningaliður VNV um 1,1% (-0,17% í VNV) í ágúst frá fyrri mánuði. Þá lækkun má að langmestu leyti rekja til 4% lækkunar á eldsneytisverði (-0,15% í VNV). Þar að auki var voru ökutæki að lækka í verði um 0,4% (-0,02 í VNV) og flutningar í lofti um 1,0% (-0,02% í VNV). Hvað síðarnefnda liðinn varðar þá var þetta mun minni lækkun en búist var við, sem hvort tveggja má rekja til flugfargjalda til útlanda sem og innanlands. Þannig var lækkunin á flugfargjöldum til útlanda öllu hóflegri en við bjuggumst við, eða sem nemur um 3,4%, og mun meiri hækkun varð á flugfargjöldum innanlands, um 32,4%. Þess má geta að síðarnefndi flugliðurinn vegur mun minna en sá fyrrnefndi.   

Verðbólguþrýstingur minni næsta kastið

Verðlækkun á eldsneyti og öðrum hrávörum síðustu vikur gæti orðið til þess að verðbólguþrýstingur verði minni næsta kastið en við gerum ráð fyrir. Auk beinna áhrifa á eldsneytisverð í VNV getur hin snarpa verðlækkun hrávara síðustu vikurnar haft áhrif á verð á öllu frá flugfargjöldum til innfluttra matvæla. Innflutt verðhjöðnun gæti því vegið nokkuð gegn innlendum kostnaðarhækkunum næstu mánuðina, sér í lagi í ljósi styrkingar krónu frá miðju ári.

Við höfum nú þegar lækkað bráðabirgðaspá okkar fyrir septembermánuð, og reiknum nú með að VNV verði nánast óbreytt í mánuðinum í stað þess að hækka um 0,2% líkt og við höfðum áður reiknað með. Þessa lækkun má fyrst og fremst rekja til þess að nú þegar hefur eldsneytisverð hér heima lækkað um 4,4% frá mælingu Hagstofunnar á VNV fyrir ágústmánuð (-0,16% í VNV), og í raun virðist líklegra en ekki að til frekari lækkunar komi á næstunni. Þar fyrir utan má reikna með að verðlækkun IKEA á vörum sínum um 2,8% hafi áhrif á húsgagnaliðinn í september, en þegar bráðabirgðaspáin var gerð fyrir mánuðinn var ekki búið að ljóstra upp þeirri ákvörðun fyrirtækisins. Samkvæmt þessari spá, sem er til bráðabirgða, mun árstaktur verðbólgu fara úr 2,2% nú í ágúst í 2,3% í september.

Stígandi í verðbólgu 

Við gerum svo ráð fyrir 0,2% hækkun VNV bæði í október og nóvember. Gangi spá okkar eftir mun 12 mánaða taktur VNV mælast 2,3% í október en svo skjótast vel upp fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans í nóvember og mælast 3,1%. Ástæða þessarar miklu hækkunar á 12 mánaða takti VNV í nóvember er fyrst og fremst þróun hennar í nóvember í fyrra. Lækkaði vísitalan þá óvænt um 0,5%, sem var langt undir opinberum spám, en sá munur lá fyrst og fremst í óvæntri lækkun íbúðaverðs í mánuðinum og meiri verðlækkun á ýmsum innfluttum vörum en búist var við.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall