Fréttir Greiningar

Vinnumarkaður að færast nær jafnvægi?

03.05.2018 14:00

Íslenskur vinnumarkaður virðist vera að ná jafnvægi eftir tímabil minnkandi atvinnuleysis og allhraðra fjölgunar vinnustunda í hagkerfinu frá upphafi áratugarins fram á síðasta ár. Fjölgun vinnustunda á fyrsta fjórðungi ársins bendir til þess að hagvöxtur hafi verið allnokkur á tímabilinu. Hægari hagvöxtur í ár mun væntanlega leiða til minnkandi þrýstings á vinnumarkaði þegar frá líður.

Atvinnuleysi óbreytt milli ára

Í nýbirtum vinnumarkaðstölum Hagstofunnar fyrir 1. ársfjórðung 2018 kemur fram að atvinnuleysi á fjórðungnum nam 2,9% af vinnuafli. Er það sama hlutfall og á sama tíma í fyrra, en fram á síðasta ár hafði dregið jafnt og þétt úr atvinnuleysi samkvæmt könnun Hagstofunnar. Alls voru 5.700 manns atvinnulausir að jafnaði á tímabilinu, þar af 2.300 konur og 3.400 karlar. Stærstur hluti atvinnulausra höfðu verið án vinnu skemur en 12 mánuði, þar af tæplega 60% í tvo mánuði eða skemur. Nam langtíma atvinnuleysi aðeins 0,3% af heildarfjölda á vinnumarkaði.

Hlutfall starfandi lækkar..

Þróun á hlutfalli starfandi af mannfjölda segir svipaða sögu. Alls voru tæplega 195 þúsund manns starfandi á íslenskum vinnumarkaði á 1F 2018 samkvæmt könnun Hagstofunnar. Af heildar mannfjölda var hlutfall starfandi 78,4%, og lækkaði hlutfallið um 2 prósentur milli ára þrátt fyrir nokkra fjölgun starfandi fólks. Hlutfall starfandi hafði hækkað jafnt og þétt frá byrjun áratugarins fram á fyrsta fjórðung síðasta árs, en hefur lækkað síðan líkt og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Hlutfallið er þó enn með því hæsta sem gerist meðal ríkja heims. Hlutfall starfandi kvenna var 76,8% og starfandi karla 83,8% á 1F, en þetta hlutfall er jafnan nokkru hærra meðal karla m.a. vegna meiri fráveru kvenna frá vinnumarkaði í kring um barneignir.

..en vinnustundum fjölgar

Starfandi svarendur í könnun Hagstofunnar sögðust að jafnaði vinna 38,6 stundir í viku hverri. Það jafngildir lítilsháttar aukningu milli ára. Með því að margfalda saman fjölda venjulegra vinnustunda og fjölda starfandi á vinnumarkaði fæst mat á heildarfjölda vinnustunda í hagkerfinu. Þróun þess gefur svo vísbendingu um framboðshlið hagkerfisins, enda endurspeglar hagvöxtur samanlagða fjölgun vinnustunda og framleiðniaukningu vinnuafls. 

Vinnustundum á síðasta ári fjölgaði um 1,2% á þennan mælikvarða, og var fjölgun starfandi rót þeirrar aukningar. Venjulegum vinnustundum í viku hverri fækkaði hins vegar lítillega. Á 1. fjórðungi þessa árs mældist svo 2,4% aukning á heildar vinnustundum frá sama tíma í fyrra á þennan mælikvarða.

Sem fyrr segir er talsverð fylgni milli þróunar heildarfjölda vinnustunda annars vegar, og hagvaxtar hins vegar. Munurinn þarna á milli skýrist svo af breytingum á framleiðni, þ.e. því hve miklu hver vinnustund skilar í verðmætasköpun í hagkerfinu í heild. Vitaskuld er óvissa töluverð í þessum tölum, enda vinnumarkaðskönnun Hagstofu úrtakskönnun og endurskoðun þjóðhagsreikninga getur breytt töluvert myndinni af hagvexti milli einstakra tímabila.

Að því gefnu að ekki hafi orðið samdráttur í framleiðni vinnuafls á milli ára bendir því fjölgun heildarvinnustunda á 1F til þess að hagvöxtur hafi verið allnokkur á tímabilinu. Það rímar svo við ýmsar vísbendingar af eftirspurnarhlið. Kortavelta jókst til að mynda um ríflega 9% að raungildi á 1F og innflutningur fjárfestingarvara um ríflega 8% í magni mælt frá sama tíma fyrir ári. Við teljum þó að hagvöxtur á árinu í heild verði öllu minni en á síðasta ári, ekki síst vegna minni vaxtar einkaneyslu og þjónustuútflutnings. Þrýstingur á vinnumarkaði ætti samkvæmt því að halda áfram að minnka á komandi fjórðungum.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall