Fréttir Greiningar

Einhugur um óbreytta vexti í febrúar

21.02.2019 10:42

Áhugi peningastefnunefndar Seðlabankans á frekari hækkun vaxta hefur minnkað og er samhljómur þar á bæ um óbreytt vaxtastig þessa dagana. Líklegt er að stýrivextir verði áfram óbreyttir á næstunni.

Einhugur var um óbreytta stýrivexti við síðustu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans. Var það í fyrsta sinn frá október síðastliðnum sem enginn nefndarmaður lagðist gegn tillögu Seðlabankastjóra um vaxtastigið. Horfur á minnkandi spennu í hagkerfinu og lækkun verðbólguvæntinga vógu þar þyngra en áhyggjur af tiltölulega dökkum skammtímahorfum um verðbólgu. 

Þeir möguleikar sem til greina komu að mati peningastefnunefndarinnar voru að halda stýrivöxtum óbreyttum eða hækka þá um 0,25 prósentur.

Rök með óbreyttum vöxtum:

  • Horfur á að framleiðslupenna í hagkerfinu minnkaði hraðar en áður var talið.
  • Hætta á enn hraðari kólnun hagkerfisins ef kemur til verkfalla á komandi mánuðum.
  • Langtímaverðbólguvæntingar hafa þokast niður og taumhald peningastefnunnar því aukist lítillega á þann kvarða

Rök með hækkun vaxta:

  •  Verðbólga nokkuð yfir markmiði
  • Verðbólguhorfur hafa versnað
  • Verðbólguvæntingar yfir markmiði á alla mælikvarða
  • Hætta á niðurstöður kjarasamninga yrðu ekki í samræmi við verðbólgumarkmiðið og/eða aðgerðir ríkisstjórnar myndu leiða til minna aðhalds ríkisfjármála

Að binda eða ekki binda (krónur)?

Bindiskylda í ýmsum myndum var peningastefnunefndinni hugleikin á síðasta vaxtaákvörðunarfundi. Var nefndin á því að aðstæður væru nú til þess að draga úr sérstöku bindiskyldunni. Hún tekur til innflæðis vegna nýrra fjárfestinga erlendra aðila í íslenskum vöxtum og felur í sér að vilji þeir kaupa innlend skuldabréf eða leggja fé á innstæðureikninga í krónum þurfa þeir að leggja fjárhæð sem svarar til 20% af fjárfestingunni inn á 12 mánaða bundinn, vaxtalausan reikning í Seðlabankanum. Áður hefur komið fram að vilji Seðlabankafólks stendur til þess að setja þetta bindihlutfall niður í núll og væri það bæði kærkomin og tímabær breyting til batnaðar að mati okkar.

Minna tilefni sjáum við til vangavelta um að hækka almenna bindiskyldu innlánsstofnana, sem einnig voru hluti af umræðum peningastefnunefndar í aðdraganda vaxtaákvörðunarinnar í febrúar. Í desember hafði nefndin velt því upp hvort nú væri að myndast tilefni til að hækka hana vegna aukins útlánavaxtar. Góðu heilli virðist hafa dregið úr áhuga nefndarmanna á slíkri hækkun, enda virðist sem nú sé að hægja á útlánavexti að nýju. Nefnt var til sögunnar að FME væri nýbúið að ákveða að hækka sveiflujöfnunarauka á innlendar áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækja auk þess sem útlánavöxtur væri ekki óhóflegur að mati nefndarinnar. Í ljósi þess að vísbendingar eru um minnkandi lausafjárgnótt í fjármálakerfinu á sama tíma og umtalsverðar blikur eru á lofti um skammtíma efnahagshorfur teljum við að það væri misráðið að þrengja frekar að peningalegum skilyrðum að svo stöddu.

Er frekari hækkun vaxta í kortunum?

Líkt og undanfarið ítrekaði peningastefnunefndin að 
„..hún hefði bæði vilja og þau tæki sem þyrfti til að halda verðbólgu og verðbólguvæntingum við markmið til lengri tíma litið og var sammála um að það gæti kallað á harðara taumhald peningastefnunnar á komandi mánuðum.“

 Það eru þó að okkar mati mestar líkur á að stýrivextir verði óbreyttir enn um sinn. Leiðandi vísbendingar benda til þess að hagkerfið sé að kólna allhratt. Þá bendir flest til þess að framundan séu átök á vinnumarkaði sem gætu valdið talsverðum tímabundnum búsifjum í hagkerfinu á sama tíma og ekki er búið að bíta úr nálinni með hvort ferðaþjónustan siglir klakklaust í gegnum það brimrót sem hefur verið í geiranum síðustu mánuði, sér í lagi hvað varðar flugframboð. Það væri því líklega ekki á bætandi að herða á peningalegu aðhaldi þegar slíkar aðstæður eru uppi, sér í lagi ef verðbólguþrýstingur vegna krónu og íbúðamarkaðar hjaðnar á komandi mánuðum.
 

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall