Fréttir Greiningar

Verðbólga áfram undir þolmörkum Seðlabankans

26.02.2015 11:02

Verðbólga í febrúar mælist undir neðri þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans, þriðja mánuðinn í röð. Er árstaktur verðbólgunnar nú 0,8% samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar, en hann hefur verið óbreyttur frá desember síðastliðnum. Án húsnæðis mælist hins vegar 0,9% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði. Útsölulok og hækkun fasteignaliðar skýra að stærstum hluta 0,67% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í febrúar frá mánuðinum á undan. Mælingin nú var í stórum dráttum í samræmi við spár, sem lágu á bilinu 0,7% - 0,9% hækkun. Við spáðum 0,8% hækkun að þessu sinni.

Útsölulok og húsnæðisliður aðal hækkunarvaldar

Líkt og jafnan í febrúar hafa útsölulok veruleg áhrif á VNV nú. Þannig hækkuðu föt og skór í verði um 5,8% (0,24% áhrif í VNV), og húsgögn og heimilisbúnaður hækkaði í verði um 2,1% (0,09% í VNV). Í heild höfðu útsölulok áhrif til u.þ.b. 0,35% hækkunar VNV í febrúar, sem er í takti við undanfarin ár.

Húsnæðisliður VNV hafði áhrif til 0,25% hækkunar að þessu sinni. Mest munaði þar um 1,2% hækkun á reiknaðri húsaleigu (0,18% í VNV), en sá liður endurspeglar að mestu þróun markaðsverðs íbúðarhúsnæðis. Í gögnum Hagstofunnar má sjá að það er íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem leiðir þessa hækkun á reiknaðri húsaleigu enda er  húsnæðisverð á landsbyggðinni óbreytt á milli mánaða. Talsvert meiri hækkun er á verði sérbýla en íbúða í fjölbýlum á höfuðborgarsvæðinu, eða um 2,1% á móti 1,1%, og er þetta annar mánuðurinn í röð þar sem þetta er uppi á teningnum. Auk þess hækkaði viðhaldsþáttur húsnæðisliðarins um 1,8% (0,05% í VNV). Gætir þar áhrifa af lokum „allir vinna“ átaksins, þar sem virðisaukaskattur af viðhaldsvinnu við íbúðarhúsnæði fékkst endurgreiddur.

Eldsneyti hækkar, útlandaflug og matur lækkar

Líkt og við bjuggumst við hækkaði eldsneytisliður VNV um 2,5% í febrúar (0,09% í VNV). Verð á eldsneyti hefur hækkað allhratt hérlendis í kjölfar hækkunar á erlendum mörkuðum. Hefur verðið raunar þegar hækkað um5 kr. til viðbótar frá febrúarmælingu Hagstofunnar sem var framkvæmd um miðjan mánuðinn. Virðist sem olíufélögin séu öllu fyrri til hækkunar en þau voru til lækkunar þegar verð erlendis lækkaði mikið á ofanverðu síðasta ári. Á hinn bóginn lækkaði verð á flugfargjöldum til útlanda um 8,7% (-0,12% í VNV). Kemur það á óvart, enda benti verðkönnun okkar til nokkurrar hækkunar í mánuðinum. Í heild varð því lítil breyting á ferða- og flutningalið VNV þennan mánuðinn.

Mat- og drykkjarvörur lækkuðu í verði um 0,7% (-0,11%) í febrúar, sem var öllu meiri lækkun en við höfðum gert ráð fyrir. Þar má nefna að kjöt, ávextir og grænmeti lækkaði í verði, og einnig gætti áhrifa af afnámi sykurskatts í verði á sykruðum matvörum og drykkjum.

Lítil verðbólga næsta kastið

Verðbólguhorfur til skemmri tíma eru ágætar, þótt lítið eitt hafi bætt í verðbólguþrýstinginn miðað við uppfærða bráðabirgðaspá okkar. Þar eru á ferð áhrif af ofangreindri hækkun á eldsneytisverði, sem að öðru óbreyttu hækkar VNV í mars um tæplega 0,1%. Áætlum við að VNV muni hækka um 0,4% í mars, um 0,2% í apríl og um 0,2% í maí. Gangi spá okkar eftir mun verðbólga mælast 1,0% í maí næstkomandi. Það veltur svo á því hvenær niðurstaða næst í yfirstandandi kjarasamningum, og hvernig sú niðurstaða verður, hversu mikið verðbólga eykst í kjölfarið þegar líður á árið. Við teljum að verðbólga muni mælast við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans í árslok, og verða helstu verðbólguvaldarnir á seinni hluta ársins innlendur kostnaðarþrýstingur vegna hækkunar launa og áframhaldandi hækkun íbúðaverðs.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall