Fréttir Greiningar

Velta erlendra korta í júní á pari við metveltu

14.07.2015 11:38

Líkt og við mátti búast var mikill vöxtur í kortaveltu útlendinga hér á landi í júní, og var enn eitt metið slegið í þeim efnum. Þannig nam kortavelta þeirra hér á landi 18,5 mö. kr. í mánuðinum, sem er ríflega 4,4 mö. kr. hærri fjárhæð en í júní í fyrra. Í raun var velta erlendra korta hér á landi nú í júní nánast á pari við kortaveltu þeirra í júlí 2014 sem var metmánuður hvað þessa veltu varðar. Þetta jafngildir aukningu upp á 32% í krónum talið á milli ára, sem er talsvert umfram þann vöxt sem varð á brottförum útlendinga í mánuðinum. Þannig fóru alls 137,3 þús. útlendingar frá landinu um Keflavíkurflugvöll (KEF) í júní sl. samkvæmt tölum Ferðamálastofu, sem er 24,2% fleiri en á sama tíma í fyrra.

Kortaveltujöfnuður aldrei hagstæðari í júní

Kortavelta Íslendinga í útlöndum (vegna ferðalaga og netviðskipta) nam alls 9,3 mö. kr. í júní sl., og var kortaveltujöfnuður (kortavelta útlendinga hér á landi að frádreginni veltu Íslendinga erlendis) þar með jákvæður um 9,2 ma. kr. í mánuðinum. Er hér um að ræða hagfelldustu útkomu þessa jafnaðar frá upphafi í júnímánuði, og í raun hefur jöfnuðurinn aðeins einu sinni áður verið hagstæðari sem var í júlí í fyrra. Má hér til samanburðar nefna að í júní í fyrra var jöfnuðurinn jákvæður um 6,1 ma. kr. og árið þar á undan jákvæður um 4,6 ma. kr. Enn meiru munar sé litið lengra aftur enda er ekki langt síðan að útlendingar náðu að toppa Íslendinga í þessum efnum í fyrsta sinn, en það gerðist í júní 2009.
 

Vísbending um enn meiri afgang á þjónustujöfnuði 

Á 1. ársfjórðungi var afgangur af þjónustujöfnuði vegna ferðalaga upp 6,6 ma. kr., sem er hátt í þrefalt meiri afgangur en var af þeim jöfnuði á sama tímabili í fyrra, þegar þessi hluti þjónustujafnaðar mældist jafnframt í fyrsta sinn jákvæður á þessum árstíma. Á hinn bóginn hefur afgangur mælst af þjónustujöfnuði vegna ferðalaga á 2. ársfjórðungi frá lokum síðasta áratugar, og hljóðaði hann upp á 10,9 ma. kr. í fyrra sem er met. Út frá ofangreindum tölum má álykta að við séum að sjá fram á enn hagstæðari þjónustujöfnuð vegna ferðalaga nú á 2. ársfjórðungi en á sama tíma í fyrra, og má gróflega áætla að hann komi til með að vera í það minnsta 22 ma. kr. á fjórðungnum. Ekki þarf að fjölyrða um hversu mikilvæg þessi þróun er fyrir gjaldeyrisflæði til og frá landinu, og verður áhugavert að sjá hvernig tölur um þjónustujöfnuð koma til með að líta út á 2. ársfjórðungi, en þær verða birtar í byrjun september.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall