Fréttir Greiningar

Gengi krónunnar stöðugt

20.11.2013 09:46

nullGengi krónunnar hefur verið mjög stöðugt bæði í október og það sem af er nóvember eftir að hafa veikst nokkuð í september. Hefur veltan á millibankamarkaðinum með gjaldeyri verið fremur lítil og sérstaklega núna í nóvember. Þá hefur Seðlabankinn ekki verið með inngrip á þeim markaði frá miðjum október, sem er lengsta tímabil án inngripa síðan í júlí á þessu ári.

Stöðugleiki krónunnar undanfarið er góð tíðindi. Sú mikla lækkun krónunnar sem var haustið 2012 og fram á vetur 2012/2013 er ekki að endurtaka sig nú. Rekstrarumhverfi fyrirtækja og heimila er því öllu stöðugra hvað þetta varðar en var fyrir ári. Hefur krónan auk þess verið um 3% sterkari gagnvart vegnu meðaltali helstu viðskiptamynta það sem af er nóvember en á sama tíma í fyrra og yfir síðustu þrjá mánuði hefur hún verið ríflega 2% sterkari en á sama tíma í fyrra. Afraksturinn er lægri verðbólga og verðbólguvæntingar.

Minni verðbólga og verðbólguvæntingar

nullTímasetning aukins stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og sterkari krónu er sérstaklega mikilvæg í ljósi þess að framundan eru kjarasamningar þar sem verðbólguvæntingar eru mótandi fyrir þær launahækkanir sem samið verður um og þar með þá verðbólgu sem í fylgir í kjölfarið. Verðbólgan hefur nú lækkað úr 4,3% í ágúst niður í 3,6% í október. Verðbólguvæntingar aðila á fjármálamarkaði, litið til næstu tólf mánaða, hafa að meðaltali farið úr 4,3% í ágúst sl. niður í 3,9% í lok síðasta mánaðar samkvæmt könnun Seðlabankans. Einnig hafa verðbólguvæntingar eins og þær koma fyrir í mun verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa á innlendum verðbréfamarkaði lækkað á sama tíma. Auk þessa höfum við undanfarið gerst öllu bjartsýnni á verðbólguþróunina næsta kastið í verðbólguspám okkar.  

Minni niðurgreiðslur erlendra lána

Í lok síðastliðins sumars var ljóst að framundan væri minni þrýstingur til lækkunar krónunnar vegna niðurgreiðslu erlendra skulda innlendra aðila en var á sama tíma í fyrra. Mátti því reikna með stöðugari krónu en í fyrrahaust, sem hefur verið raunin. Einnig hefur undirliggjandi viðskiptajöfnuður verið nokkuð hagfelldari í ár en í fyrra. Er það m.a. vegna minni undirliggjandi þáttatekjuhalla þar sem dregið hefur úr vaxtagreiðslum af erlendum lánum á milli ára. Þá hafa auknar tekjur af ferðaþjónustu og aukið magn af útfluttum sjávarafurðum hjálpað til, þótt lakari viðskiptakjör hafi vegið á móti.

Ný inngripastefna Seðlabankans

Minna flökt hefur verið í gengi krónunnar alveg frá því að Seðlabankinn gaf út í maí síðastliðnum að hann hygðist verða virkari á gjaldeyrismarkaði. Flökt krónunnar var mun meira frá maí fram í nóvember í fyrra. Markmið bankans með hinni nýju inngripastefnu var að draga úr sveiflum krónunnar og skapa þannig skilyrði fyrir lægri verðbólguvæntingar og verðbólgu. Segja má að miðað hafi í rétta átt hvað þessa þætti varðar. Hvort hins vegar megi þakka hinni nýju inngripastefnu alfarið þann áfanga verður að teljast ólíklegt, en líkt og áður sagði hefur Seðlabankinn haldið sig til hlés á millibankamarkaðinum með gjaldeyri síðan 14. október sl. Einhver áhrif, bæði bein og óbein, hefur hin nýja stefna hins vegar eflaust haft a.m.k. til skemmri tíma. 

Þróunin á næstunni

nullÍ fyrra lækkaði gengi krónu um ríflega 4% frá nóvember 2012 fram til febrúar 2013. Ólíklegt finnst okkur að krónan muni lækka viðlíka þennan veturinn þó að ómögulegt sé að segja til um slíkt með vissu. Minni afborganir af erlendum lánum innlendra aðila skipta þar mestu. Á móti vegur hins vegar að spáð er að afgangur af undirliggjandi viðskiptajöfnuði verði heldur rýrari á næsta ári en á þessu ári. Spáir Seðlabankinn því þannig í nýju hefti Peningamála sem kom út fyrr í þessum mánuði að undirliggjandi viðskiptajöfnuður verði 0,5% af landsframleiðslu á næsta ári samanborið við 3,1% áætlaðan afgang í ár. Við erum öllu bjartsýnni í okkar nýjustu þjóðhagsspá þar sem við reiknum með 1,4% afgangi af undirliggjandi viðskiptajöfnuði á næsta ári. Engu að síður spáum við því, líkt og Seðlabankinn, að afgangurinn minnki á milli ára og þannig dragi úr þeim stuðningi sem hann hefur verið við gengi krónunnar. Í þessu ljósi reiknum við með því að krónan muni lækka á milli ára 2013 og 2014 en í skjóli haftanna er ólíklegt að okkar mati að lækkunin verði umtalsverð.  

Flestir vænta hóflegrar lækkunar krónunnar

Flestir virðast gera ráð fyrir því að gengi krónunnar muni lækka næstu misseri. Tæpur helmingur stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins vænta þess að gengi krónunnar muni lækka á næstu tólf mánuðum en ekki nema 8% vænta þess að hún muni styrkjast samkvæmt könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann í september síðastliðnum. Þá vænta aðilar á fjármálamarkaði þess að gengi krónunnar muni lækka á næstu tólf mánuðum samkvæmt könnun sem Seðlabanki Íslands gerði í lok október síðastliðins.

Á meðan flestir virðast vera á því að gengi krónunnar muni lækka næsta kastið þá er ekki reiknað með að sú lækkun verði veruleg. Þannig kom fram í könnun meðal stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins að þeir vænta ekki nema 2% lækkun krónunnar yfir næsta ár. Að sama skapi kom fram í könnun Seðlabankans meðal markaðsaðila að þeir vænta þess að gengi evrunnar standi í 169,1 krónu í lok október á næsta ári sem er ríflega 2% lægra gengi krónu gagnvart evru en var þegar könnunin var gerð í lok október síðastliðinn.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall