Fréttir Greiningar

Stýrivextir óbreyttir þvert á spá okkar

16.11.2016 11:48

Peningastefnunefnd Seðlabankans hélt stýrivöxtum bankans óbreyttum í dag þvert á spá okkar um 0,25 prósentustiga lækkun. Opinberar spár hljóðuðu ýmist upp á óbreytta vexti eða lækkun í takti við okkar spá. Í yfirlýsingu nefndarinnar vegna ákvörðunarinnar segir að horfur séu á kröftugri hagvexti á þessu og næsta ári en bankinn spáði í ágúst, og að skýrari merki eru um að hraður vöxtur eftirspurnar sé farinn að reyna á þanþol innlendra framleiðsluþátta. Á móti reiknar bankinn nú með mun minni verðbólgu en hann gerði í ágústspá sinni, en segir jafnframt að breytt verðbólguspá bankans gefi ekki jafn mikið tilefni til viðbragða peningastefnunnar og ætla mætti vegna þess að peningastefnunefnd hefur byggt ákvarðanir sínar á undanförnu á væntingum um að frekari styrking krónu væri líkleg.

Framsýn leiðsögn nefndarinnar er líkt og við reiknuðum með óbreytt frá síðustu vaxtaákvörðun og hlutlaus varðandi næstu skref í breytingu stýrivaxta. Segir í niðurlagi yfirlýsingarinnar að þótt kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmiðið virðist halda áfram að styrkjast og aðhald peningastefnunnar hafi að einhverju leyti aukist í gegnum hækkun gengis krónunnar, kalla kröftugur vöxtur eftirspurnar og óvissuþættir tengdir ríkisfjármálum, vinnumarkaði, losun fjármagnshafta og alþjóðlegum efnahagshorfum á varkárni við ákvörðun vaxta. Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn. Í því sambandi benti aðalhagfræðingur bankans á það að ef horft er framhjá áhrifum af stöðugleikaframlögum slitabúa verður aðhald ríkisfjármála lítið í ár og líklegt að það minnkaði enn frekar á komandi árum. Seðlabankastjóri tók hins vegar fram að töluvert þyrfti til að stýrivextir hækkuðu að nýju næsta kastið.

Varfærnar breytingar á inngripum og gengisspá

Nokkrar væntingar voru um að peningastefnunefndin myndi tilkynna um breytingar á inngripastefnu sinni á gjaldeyrismarkaði. Segir nefndin í yfirlýsingu sinni nú að hún telji að óbreyttu rétt að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið undanfarna mánuði þar sem bankinn hefur verið að kaupa hlutfallslega minna af gjaldeyrisinnstreyminu. Á kynningarfundi Seðlabankans í morgun sagði Seðlabankastjóri að hlutdeild Seðlabankans í viðskiptum á gjaldeyrismarkaði hefði minnkað upp á síðkastið, og hlutdeildin yrði minnkuð frekar á komandi mánuðum. Þær breytingar yrðu þó varfærnar og yrði stefnan jafnframt endurskoðuð með hliðsjón af aðstæðum.

Í þessu sambandi reiknar bankinn með því að gengi krónunnar verði svipað á næsta ári og það var þegar bankinn lokaði verðbólguspá sinni nú, en að krónan komi til með að styrkjast lítillega þegar kemur fram á árið 2018. Bankinn fer því mjög varlega inn á þessa nýju braut að byggja verðbólguspá sína á spá um genginsþróun krónunnar, þ.e. ekki er um verulega breytingu í forsendum varðandi gengisþróunina frá því sem áður var þegar bankinn byggði á þeirri tæknilegu forsendu að gengi krónunnar héldist óbreytt út spátímabilið. Þessi breyting á gengisforsendum bankans er kærkomin, en að sama skapi er óheppilegt að undirliggjandi forsenda peningastefnunefndar um gengisþróun hafi ekki komið skýrt fram í yfirlýsingum nefndarinnar og opinberum birtingum bankans síðustu mánuði. Væntanlega hefur spánni verið lokað fyrir 2-3 vikum síðan, og frá þeim tíma hefur sú styrking sem spáð var fyrir næsta ár komið fram að verulegu leyti.

Seðlabankamenn virðast þó ekki hafa ýkja miklar áhyggjur af hraðri styrkingu krónunnar undanfarið, hvað þá að þeir telji að hún sé nú sterkari en góðu hófi gegnir. Aðalhagfræðingur bankans lét þess getið á kynningarfundi að eðlilegt væri að gengið styrktist í uppsveiflu eins og nú er, og beindi þannig hluta innlendrar eftirspurnar beint eða óbeint út úr hagkerfinu.

Minni framleiðsluspenna þrátt fyrir hraðari vöxt

Þórarinn Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, benti á það að almennt væru vísbendingar á þá leið að vöxtur eftirspurnar yrði enn kröftugri næstu misserin en bankinn hafði áður gert ráð fyrir. Á móti spáir bankinn nú talsvert meiri innflutningi vinnuafls en í fyrri spá, og verður því spennan á vinnumarkaði, sem og framleiðsluspenna, minni sem því nemur. Spennan verður eftir sem áður talsverð, og sker íslenska hagkerfið sig að því leyti úr meðal iðnríkja sem flest hafa ónýtta framleiðslugetu.

Aðspurður um kosti og galla myntráðs sagði Seðlabankastjóri að bæði fastgengi og flotgengi hefðu kosti og galla. Fastgengi leiddi til þess að búhnykkjum og áföllum í hagkerfinu þyrfti að mæta með sveiflum í atvinnuleysi, hagvexti og jafnvel skammtímavöxtum fremur en í gegnum gengi gjaldmiðilsins eins og raunin er í flotgengi. Flotgengið gæti aftur á móti leitt til þess að sveiflan í hagkerfinu magnaðist upp þar sem verð gjaldmiðla væri ekki eingöngu hagstærð sem brygðist við efnahagslegum forsendum heldur eignaverð á markaði. Kjarni málsins væri að hvor stefnan um sig gæti dugað ef vel væri á málum haldið við hagstjórn að öðru leyti.

Við reiknuðum með óbreyttum stýrivöxtum á næsta vaxtaákvörðunarfundi nefndarinnar í desember. Ákvörðun peningastefnunefndar nú og hlutlaus framsýn leiðsögn hans renna enn frekari stoðum undir þá spá að okkar mati.  

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall