Fréttir Greiningar

Bjartsýni áfram ríkjandi meðal neytenda

23.03.2016 10:05

Væntingavísitala Gallup (VVG) hækkaði um 5,5 stig í mars sl. frá fyrri mánuði, og stendur vísitalan nú í 124,0 stigum. Er gildi vísitölunnar þar með svipað og það var í janúar sl. (124,3 stig) sem er hæsta gildi hennar frá október 2007. Þetta er áttundi mánuðurinn í röð sem gildi vísitölunnar mælist yfir 100 stigunum sem markar jafnvægi á milli bjart- og svartsýni og virðist því sem bjartsýni sé áfram ríkjandi hér á landi. Þetta má sjá í fréttatilkynningu sem Gallup birti í gær.

Neytendur ánægðir með núverandi stöðu

Íslenskir neytendur hafa mun meiri tiltrú á núverandi ástandi en þeir hafa gert frá því í janúar 2008, en sú vísitala hækkar um rúm 19 stig á milli mánaða og mælist nú 129 stig. Á hinn bóginn lækkar vísitalan sem mælir væntingar neytenda til 6 mánaða um tæp 4 stig, og mælist sú vísitala nú tæp 121 stig. Þetta er í annað sinn síðan í ársbyrjun 2008 sem fyrrgreinda undirvísitalan mælist hærri en sú síðarnefnda, en þannig voru innbyrðis gildi þessara undirvísitalna undantekningarlaust í hverjum mánuði allt frá september 2004 til apríl 2008. Þó var mat neytenda á núverandi ástandi töluvert hærra að jafnaði á því tímabili en það er nú, en væntingar þeirra til aðstæðna eftir 6 mánuði eru hins vegar nokkru meiri nú en þær voru á þessum tíma að jafnaði. Í rauninni virðist sýn landsmanna á stöðu og horfur nú keimlík því sem var í ársbyrjun 2005, þegar síðasta góðæri var komið á góðan skrið en innlend eftirspurn enn ekki farin úr böndunum í þeim mæli sem síðar varð. Þessa stöðu má túlka sem svo að landinn sé almennt ánægður með stöðuna nú, auk þess sem flestir vænta þess að ástandið komi til með að verða enn betra í náinni framtíð.

... eins og og stjórnendur

Ofangreindri þróun á undirvísitölum VVG svipar til þróunar á vísitölu efnahagslífisins úr könnun Gallup á meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins sem gerð er fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann. Niðurstöður þeirrar könnunar einkenndust af miklum og vaxandi umsvifum í efnahagslífinu hér á landi vegna örs vaxtar ferðaþjónustu, stóraukins kaupmáttar heimila og vaxandi fjárfestingum. Þá sýndi vísitala efnahagslífsins að mati stjórnenda á núverandi aðstæðum í atvinnulífinu svipaði til mats þeirra á árinu 2007, en væntingar þeirra til aðstæðna eftir 6 mánuði voru hins vegar mun meiri nú en var fyrir níu árum síðan. Meiri líkindi voru hins vegar með þróuninni nú og í ársbyrjun 2005, rétt eins og í VVG.

Lítil breyting á stórkaupavísitölunni

Samhliða VVG birti Gallup einnig niðurstöður úr ársfjórðungslegum mælingum sínum á fyrirhuguðum stórkaupum neytenda. Ekki var mikil breyting á þeirri vísitölu, en hún lækkaði um 1 stig nú á fyrsta ársfjórðungi á milli mælinga og mældist 63,3 stig. 

Undirvísitölur stórkaupavísitölunnar, sem eru þrjár talsins, þróuðust hver með sínum hætti. Má hér fyrst nefna vísitöluna fyrir húsnæðiskaup sem stóð í stað á milli mælinga. Sú vísitala mælist nú 7,9 stig, sem er talsvert undir langtímameðaltali hennar (9,5 stig), en í samræmi við meðaltal síðustu ára. Allt frá seinni hluta ársins 2008 hefur vísitalan fyrir húsnæðiskaup verið talsvert lægri að jafnaði en hún var á góðæristímanum 2003-2007. Virðist því sem landsmenn fari hægar í sakirnar nú varðandi húsnæðiskaup en fyrir áratug síðan þrátt fyrir batnandi hag. Gæti þar komið til takmarkaðri aðgangur að ódýru lánsfé en þá var, og einnig að neytendur líti á mikla skuldsetningu vegna íbúðakaupa á þeim tíma sem víti til varnaðar. Vísitalan fyrir bifreiðakaup hækkaði um rúm 2 stig frá síðustu mælingu og mælist nú 26,4 stig sem er nokkuð hærra en hún hefur mælst að jafnaði til lengri tíma (24,4 stig). Rímar sú þróun ágætlega við fregnir af þeirri aukningu sem er í sölu á nýjum fólksbílum þessa dagana. Vísitalan fyrir fyrirhugaðar utanlandsferðir lækkaði hins vegar um 5 stig á milli mælinga, og mælist hún nú 155,6 stig sem er nokkuð yfir langtímameðaltali hennar (144,7 stig). Almennt er því þróun stórkaupavísitölunnar og undirvísitalna að okkar mati til marks um að landsmenn nýti margir hverjir bættan hag sinn til gera heldur betur við sig en áður í húsakosti, fararskjótum og ferðalögum, en gangi þó hægar um gleðinnar dyr í þeim efnum en á þensluskeiðinu fyrir áratug.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall