Fréttir Greiningar

Mikill gengismunur í gjaldeyrisútboði

16.10.2013 13:00

nullMunurinn á kaup- og sölugengi í gjaldeyrisútboði Seðlabankans í gær var sá mesti frá því útboðin hófu göngu sína sumarið 2011. Virðist sem bankanum sé nokkuð í mun að hagnast á útboðunum, þrátt fyrir að yfirlýstur tilgangur þeirra sé að minnka þrýsting á gengi krónunnar vegna aflandskróna. Niðurstaða útboðsins var að öðru leyti í takti við síðasta útboð, sem fram fór í septemberbyrjun. Alls skiptu 4,9 ma.kr. um hendur fyrir u.þ.b. 21,4 m. evra, en frá upphafi hafa útboðin losað 109 ma.kr. af aflandskrónum.

Sama kaupgengi frá apríl

Í fyrri hluta útboðsins, þar sem Seðlabankinn keypti evrur gegn greiðslu í verðtryggðum ríkisskuldabréfum eða reiðufé skv. hinni svokölluðu 50/50 leið, námu tilboð alls 24,9 m.evra. Tilboðum fyrir 21,4 m.evra var tekið á genginu 210 krónur fyrir hverja evru. Það er óbreytt gengi frá síðustu þremur útboðum, og jafngildir u.þ.b. 28% hærra gengi evru en er á millibankamarkaði. Alls komu 17,9 m. evra inn í gegn um 50/50 leiðina en 3,5 m. evra gegn greiðslu í RIKS33-bréfum. RIKS33-bréf fyrir um 0,7 ma.kr. að nafnvirði voru afhent fyrir evrurnar.

Í seinni hluta útboðsins, þar sem Seðlabankinn seldi evrur gegn greiðslu í aflandskrónum, nam heildareftirspurn 14,6 mö.kr. Seðlabankinn seldi 21,6 m. evra fyrir 4,9 ma.kr. á genginu 227 krónur á evru. Í september var gengið í seinni hlutanum hins vegar 224 krónur fyrir evruna. Alls hafa 39,1 ma.kr. af aflandskrónum farið út í gegn um útboðin á árinu 2013. Frá upphafi hafa útboðin losað 109 ma.kr. úr aflandskrónustabbanum, sem er nú u.þ.b. 330 ma.kr. að stærð.

Er mikill gengismunur af hinu góða?

Sem fyrr segir var munurinn í gær á kaup- og sölugengi Seðlabankans á evrum, sem var 17 kr., sá mesti frá því útboðin hófu göngu sína. Er það athyglisvert í ljósi þess að 14% tilboða í kaupleggnum, og u.þ.b. 2/3 tilboða í söluleggnum, var hafnað. Í september voru samsvarandi tölur 8% og 70%. Þótt líklega hefði ekki há fjárhæð bæst við niðurstöðu útboðsins í gær með minni gengismun hefði væntanlega losnað um einhver hundruð milljóna af aflandskrónum til viðbótar fyrir vikið.

Í ljósi þess að tilgangur útboðanna er að létta á þrýstingi vegna aflandskróna hlýtur sú spurning að vakna hvort ekki hefði verið réttara að slá af þessum gengismun, þótt munurinn hafi falið í sér talsverðan reiknaðan hagnað Seðlabankans af útboðinu í gær. Í því sambandi má hafa í huga að niðurstöður síðustu útboða gefa tóninn fyrir hvers vænta má í næstu útboðum. Sjái eigendur gjaldeyris sér síður hag í því að selja hann í útboðunum vegna þess að niðurstöðugengið (þ.e. verð í krónum á hverja evru) er lægra en ella verður þátttakan í útboðunum að sama skapi minni.

Þetta skiptir sér í lagi máli vegna þess að þeir eigendur gjaldeyris sem ætla hvort eð er að flytja hann til landsins eru minna verðnæmir en þeir sem eru að velja milli Íslands og annarra landa sem fjárfestingarkosts. Í því sambandi er rétt að halda til haga að skv. tölum Seðlabankans voru innlendir fjárfestar með 43% af fjárhæð í 50/50 útboðum árið 2012, en nýrri tölur liggja ekki fyrir. Eðli máls samkvæmt hlýtur að teljast líklegra að innlendir fjárfestar séu á leið með gjaldeyri inn í hagkerfið óháð útboðunum en þeir erlendu.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall