Fréttir Greiningar

Áfram metinnflæði gjaldeyris vegna ferðamanna

14.05.2014 12:05

nullAlls nam kortavelta útlendinga hér á landi 6,8 mö.kr. í apríl sl., sem er aukning upp á 29% í krónum talið á milli ára samkvæmt tölum Seðlabankans um greiðslumiðlun. Þetta er framhald af þeirri þróun sem hefur átt sér stað á fyrstu þremur mánuðum ársins, og hafa erlendir ferðamenn nú náð að strauja kortin sín fyrir rúma 25,2 ma.kr. á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Í krónum talið er þetta 28% hærri fjárhæð en þeir straujuðu kortin sín fyrir á fyrstu fjórum mánuðum ársins í fyrra (sem þá var met), og 75% hærri fjárhæð en á sama tímabili 2012. Þetta rímar við tölur Ferðamálastofu um brottfarir erlendra ferðamanna frá landinu um Keflavíkurflugvöll. Samkvæmt þeim voru erlendir ferðamenn 224,5 þúsund á fyrstu fjórum mánuðum ársins, sem er þriðjungs aukning en á sama tímabili í fyrra en 79% fjölgun sé borið saman við sama tímabil 2012. 

Kortaveltujöfnuður aldrei hagstæðari

nullKortavelta Íslendinga í útlöndum nam tæplega 6,9 mö.kr. í apríl sl., og var kortaveltujöfnuður þar með neikvæður um 57 m.kr. í mánuðinum. Er hér um langhagfelldustu útkomu þessa jafnaðar frá upphafi í aprílmánuði, og má hér til samanburðar nefna að í apríl í fyrra var jöfnuðurinn neikvæður um 765 m.kr. og sé litið lengra aftur má sjá mun hærri neikvæða tölu.

Frá áramótum talið er kortaveltujöfnuður jákvæður um sem nemur 651 m.kr., og er þetta í fyrsta sinn sem kortavelta útlendinga hér á landi er umfram kortaveltu Íslendinga í útlöndum á þessu tímabili. Á sama tímabili í fyrra straujuðu Íslendingar kortin sín í útlöndum fyrir 2,5 ma.kr. hærri fjárhæð en útlendingar hér á landi, og árið þar á undan munaði 6,8 mö.kr.

Auknar ferðamannatekjur afar mikilvægar fyrir þjóðarbúið

nullStóraukinn útflutningur þjónustu var einn helsti drifkraftur hagvaxtar á liðnu ári, og er óhætt að fullyrða að það yrði talsvert dýrkeypt fyrir þjóðarbúið ef bakslag yrði þar á líkt og verið hefur í vöruútflutningi á árinu. Á síðastliðnu ári öx þjónustuútflutningur um 9,6%, og var framlag hans til hagvaxtar í fyrra 2,1%. Virðist ljóst að sá 3,3% hagvöxtur sem mældist í fyrra hefði verið heldur rýr ef ekki hefði komið til mikil fjölgun ferðamanna og stóraukin umsvif fyrirtækja í ferðaþjónustu og samgöngum. Ofangreindar tölur um ferðamenn og kortanotkun þeirra á fyrsta þriðjungi ársins benda til að þjónustuútflutningur hafi haldið áfram að vaxa myndarlega, og sömu sögu segja hagvísar á borð við hótelbókanir og framboð flugsæta fyrir sumarið.

Í nýlegri þjóðhagsspá okkar gerum við ráð fyrir því að þjónustuútflutningur muni aukast um rúm 8% á yfirstandandi ári frá fyrra ári. Mun þjónustuútflutningurinn þar með standa undir nærri 2/3 hlutum af þeim 3,7% útflutningsvexti sem við áætlum að verði í ár. Vöxtur þjónustuútflutnings hefur einnig vegið drjúgt gegn dræmum vöruútflutningi það sem af er ári, og hjálpað þar með til við að halda gengi krónu í horfinu síðustu mánuðina. Við teljum raunar að aukinn afgangur af þjónustujöfnuði muni vega upp óhagstæðari vöruskiptajöfnuð. Gjaldeyrisinnflæði vegna vöru- og þjónustuviðskipta verður því líklega svipað í ár og í fyrra, þegar það reyndist ríflega 130 ma.kr. Það gæti því reynst nokkuð afdrifaríkt fyrir efnahagslífið ef verulegt bakslag kemur í aukningu á ferðamannastraumi hingað til lands, t.d. vegna verkfallsaðgerða sem boðaðar eru á komandi vikum.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall