Fréttir Greiningar

Spáum óbreyttum stýrivöxtum 11. desember nk.

06.12.2013 11:00

nullVið spáum því að Seðlabankinn muni halda stýrivöxtum sínum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi, sem verður 11. desember næstkomandi. Helstu rök fyrir óbreyttum vöxtum eru að verðbólgan hefur þróast í takti við spá Seðlabankans og að krónan hefur styrkst. Þá hefur óvissu varðandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar til lækkunar á húsnæðisskuldum verið eytt og þó svo að þær merki nokkuð aukna verðbólgu á næstu árum þá eru áhrifin ekki það mikil að þau kalli á vaxtahækkun nú. Niðurstaða yfirstandandi kjarasamninga mun hafa talsvert mótandi áhrif á þá vaxtaákvörðun sem fylgir í kjölfarið, en við reiknum ekki með að samningar muni nást fyrir vaxtaákvörðunina nú í desember.   

Skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar verðbólguhvetjandi

Viðbúið er að nýkynntar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til lækkunar á húsnæðisskuldum muni auka nokkuð við hagvöxt á komandi árum og gera það að verkum að slakinn hverfur fyrr úr hagkerfinu. Aðgerðirnar hafa jákvæð áhrif á hreina eignastöðu heimilanna og ráðstöfunartekjur og þar með einkaneyslu og fjárfestingu heimilanna. Hins vegar má reikna með að aðgerðirnar hafi einnig í för með sér hliðarverkanir og auki verðbólgu, a.m.k. á því fjögurra ára tímabili sem þær koma til framkvæmda, og leiði til þess að stýrivöxtum Seðlabankans verður haldið hærri en ella á tímabilinu.

Í nýjustu þjóðhags- og verðbólguspá Seðlabankans, sem birt var samhliða síðustu vaxtaákvörðun 6. nóvember sl., var ekki reiknað með ofangreindum aðgerðum ríkisins til handa skuldugum heimilum. Óvissa var mikil um umfang aðgerðanna, tímasetningar og framkvæmd og í því ljósi tók bankinn þær ekki með í spánni. Nú eru tillögurnar komnar fram og ljóst að þeim fylgja hliðarverkanir í formi hærri verðbólgu en ella. Verðbólguhorfur hafa í þessu ljósi versnað frá síðustu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar en samhliða hefur ákveðinni óvissu verið eytt. 

Beðið niðurstöðu kjarasamninga

Niðurstaða yfirstandandi kjarasamningsviðræðna verður að okkar mati mjög mótandi fyrir vaxtaákvörðunina sem kemur í kjölfarið. Peningastefnunefndin hefur sagt að verði launahækkanir í samræmi við spá Seðlabankans, og þannig umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiði bankans, sé líklegt að nefndin  fylgi eftir með því að hækka stýrivexti bankans. Af tón kjarasamningsviðræðna má ráða að það stefnir í stuttan kjarasamning og er þar rætt um samning til eins árs. Einnig virðist áherslan vera á að varðveita kaupmátt og á aðkomu ríkisvaldsins að kjarasamningum frekar en á umfangsmiklar nafnlaunahækkanir. Í þessu ljósi er ekki loku fyrir það skotið að niðurstaða kjarasamninga verði innan þeirra marka sem Seðlabankinn hefur sett. Við teljum það þó ólíklegra en hitt, þ.e. að niðurstaða kjarasamninga, samhliða nýlegu útspili ríkisstjórnarinnar, kalli á hærri stýrivexti í kjölfarið. Við teljum hins vegar ólíklegt að niðurstaða kjarasamninga verði komin fyrir vaxtaákvörðunina 11. desember.

Gengi krónunnar nú svipað og í verðbólguspá bankans

Gengi krónunnar, miðað við viðskiptavegið meðalgengi á innlendum gjaldeyrismarkaði, hefur hækkað um 1,8% frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi 6. nóvember. Ástæðu nullstyrkingarinnar má eflaust rekja til þess að undirliggjandi viðskiptajöfnuður hefur verið talsvert hagfelldari í ár en í fyrra, m.a. vegna minni undirliggjandi þáttatekjuhalla þar sem dregið hefur úr vaxtagreiðslum af erlendum lánum á milli ára. Þá hafa auknar tekjur af ferðaþjónustu og aukið magn af útfluttum sjávarafurðum hjálpað til. Auk þess hefur verið minna um afborganir erlendra skulda innlendra aðila síðustu mánuði en var í fyrra, og einnig minna um sjóðasöfnun slíkra aðila í erlendri mynt. Gengi krónunnar er nú mjög nálægt því sem miðað var við að hún yrði út spátímabilið í nýjustu verðbólguspá Seðlabankans, sem birt var samhliða síðustu vaxtaákvörðun. Var gengisvísitala krónunnar m.v. þrönga viðskiptavog sett föst í spánni í 215,6 út spátímabilið, en nú stendur hún í 216,2 sem merkir að krónan er nú ekki nema 0,3% lægri en í spánni.  

Verðbólguþróunin í takti við spá bankans

Verðbólgan hefur aukist úr 3,6% í 3,7% frá síðustu vaxtaákvörðun. Hækkun vísitölu neysluverðs í nóvember um 0,36% var heldur yfir væntingum. Reiknum við með að nullverðbólgan muni verða 3,8% á fjórða fjórðungi þessa árs, sem er það sama og Seðlabankinn spáir. Litið fram í tímann erum við öllu svartsýnni á verðbólguhorfur en Seðlabankinn og spáum því t.d. að yfir árið 2015 verði verðbólgan 3,7%, en Seðlabankinn spáir 2,7% verðbólgu. Þess má geta að kerfislægt hefur Seðlabankinn spáð minni verðbólgu en raunin hefur verið í sínum langtímaverðbólguspám.   

  
Seðlabankinn hefur mælt aðhaldsstig peningastefnunnar út frá raunstýrivöxtum. Samkvæmt Seðlabankanum ættu virkir nafnstýrivextir um þessar mundir að vera nálægt einföldu meðaltali innlánsvaxta Seðlabankans og hámarksvaxta innistæðubréfa. Með óbreyttum stýrivöxtum og aukinni  verðbólgu frá síðustu vaxtaákvörðun hafa raunstýrivextir lækkað úr 1,8% niður í 1,7%, sé miðað við framangreinda vexti og liðna verðbólgu. Aðhaldsstigið hefur því minnkað lítillega frá síðasta fundi.        

Svipaðar hagvaxtaspár

Í lok þessarar viku og fyrir vaxtaákvörðunina í næstu viku verða birtar tölur um nulllandsframleiðslu á þriðja fjórðungi þessa árs. Seðlabankinn reiknar með að hagvöxtur ársins verði 2,3%, en hagvöxtur á fyrri helmingi ársins var 2,2%. Miðað við nýlegar vísbendingar um þróun landsframleiðslunnar teljum við að hagvöxtur ársins verði rétt undir spá Seðlabankans. Hagvöxtur næstu tvö árin verður hins vegar í takti við spá Seðlabankans að okkar mati. Þannig spáir Seðlabankinn 2,6% hagvexti á næsta ári og 2,8% hagvexti 2015. Okkar spá hljóðar hins vegar upp á 2,6% hagvöxt á næsta ári og 2,7% hagvöxt árið 2015.  Við, líkt og Seðlabankinn, teljum að slakinn verði horfinn úr hagkerfinu á árinu 2015. 

Tvær vaxtahækkanir á næsta ári

Við teljum að peningastefnunefndin muni hækka stýrivexti bankans á næsta ári þegar hagvöxtur hefur glæðst og komið hefur fram að verðbólgan er þrálátari en felst í núverandi verðbólguspá bankans. Peningastefnunefndin hefur ítrekað sagt í yfirlýsingum sínum undanfarið að eftir því sem slakinn hverfur úr þjóðarbúskapnum er nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi einnig. Ólíkt Seðlabankanum teljum við að sú aðlögun muni eiga sér stað með hækkun nafnstýrivaxta Seðlabankans frekar en hjöðnun verðbólgunnar. Spáum við því að bankinn muni á næsta ári hækka vexti í tvígang um 0,25 prósentur í hvort sinn. Við spáum síðan frekari vaxtahækkun árið 2015, eða um 0,25 prósentur. 

Hér má nálgast spá Greiningar

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall