Fréttir Greiningar

Fjárlagafrumvarp, vaxtaákvörðun og áhugaverðir hagvísar

30.09.2013 12:00

Nokkrir mikilvægir hagvísar verða birtir í þessari viku. Má þar nefna tölur Hagstofu Íslands um gistinætur og gestakomur á hótelum í ágúst sl., og ekki er ólíklegt að tölur Ferðamálastofu Íslands um brottfarir gesta um Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE) í september verði einnig birtar í vikulok. Seðlabanki Íslands mun einnig birta nokkrar áhugaverðar tölur, eins og um þróun raungeni krónunnar í septembermánuði. Á miðvikudag mun peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynna um vaxtaákvörðun sína, en stærstu tíðindin gætu þó falist í fjárlagafrumvarpinu sem lagt verður fram síðdegis á morgun.

Fyrsta fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar

nullÁ morgun verður fyrsta fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar birt. Talsverð óvissa er um þær línur sem verða lagðar í frumvarpinu, og fyrir markaði skiptir ekki síst máli hversu mikil áætluð lánsfjárþörf er á næsta ári og hvernig ríkisstjórnin hyggst fjármagna hana. Af nýlegum fréttum má ráða að fjárlagafrumvarpið verði talsvert aðhaldssamt, en við eigum þó von á að einhver halli verði áætlaður á fjárlögum, og að nettóútgáfa ríkisverðbréfa á næsta ári verði að sama skapi einhver.

Spáum óbreyttum stýrivöxtum

nullEins og við gáfum út síðastliðinn föstudag þá reiknum við með óbreyttum stýrivöxtum. Við teljum að meginrök rök peningastefnunefndar Seðlabankans fyrir óbreyttum stýrisvöxtum á miðvikudag verði að verðbólgu- og hagvaxtarþróun hafi verið í takti við spá bankans sem birt var samhliða vaxtaákvörðun í ágúst síðastliðnum. Þannig er verðbólga svipuð og hún var þá, og vísbendingar eru um að hagvöxtur sé fremur hægur þessa dagana. Þó hefur þrýstingur á hækkun vaxta aukist, sem kann að kalla á eitthvað aðhaldssamari tón í yfirlýsingu peningastefnunefndar. Tölur af vinnumarkaði benda til þess að mun meiri gangur sé í honum um þessar mundir en raunin var í fyrra, og virðist staða hans ekki hafa verið betri en síðan fyrir hrun. Þá hefur gengi krónunnar lækkað frá síðustu vaxtaákvörðun og verðbólguálag á markaði hækkað nokkuð.

Þar að auki er talsverð óvissa tengd bæði kjarasamningum í vetur og fjárlögum nýrrar ríkisstjórnar. Nefndin mun eflaust halda inni þeim varnaðarorðum sem hún var með varðandi þessa tvo þætti í yfirlýsingu sinni vegna vaxtaákvörðunarinnar í ágúst. Nálgast má stýrivaxtaspá okkar sem birt var á sl. föstudag hér.

Spútnik tölur úr ferðaþjónustu

nullLíkur eru á að Ferðamálastofa Íslands muni birta í vikulok tölur fyrir septembermánuð um brottfarir gesta frá landinu um FLE, eins og getið er um hér á ofan. Í ágúst síðastliðnum námu brottfarir erlendra gesta um 132 þúsund, og er hér um að ræða stærsta mánuð frá upphafi í fjölda þeirra. Eru brottfarir erlendra ferðamanna nú komnar upp í 567 þúsund á fyrstu átta mánuðum ársins, samanborið við rúmlega 472 þúsund á sama tímabili í fyrra. Er um að ræða 20% aukningu á milli ára, eða sem nemur rúmlega 94 þúsund ferðamönnum, og eru þeir nú þegar orðnir fleiri en þeir voru allt árið 2011 og raunar öll árin fyrir þann tíma.

Erlendir ferðamenn hafa að jafnaði verið um helmingi færri í september en í ágúst, og hefur fjöldi þeirra mest farið upp í um 64.700 sem var í september í fyrra. Miðað við mikinn fjölda erlendra gesta í ágúst sl. og að þróunin verði með líkum hætti og hún hefur verið á milli ágúst og september síðustu ár, má ætla að erlendir ferðamenn hafi verið í það minnsta 70 þúsund talsins hér á landi í september.

Færri Íslendingar halda erlendis

nullTölur Ferðamálastofu ná einnig til brottfara Íslendinga um Leifsstöð. Í ágúst síðastliðnum héldu tæplega 37 þúsund Íslendingar erlendis, sem er fækkun upp á tæpt 1% frá sama tíma í fyrra. Þetta var þriðji mánuðurinn í röð sem samdráttur átti sér stað, en í júní nam hann tæpum 8% og í júlí 5%. Þessi þróun hefur komið okkur á óvart, enda skýtur hún skökku við það óhagstæða tíðarfar sem var hér á landi í sumar, sem alla jafna ætti að auka spurn eftir ferðum til sólríkari staði. Er því spurning hvort vætutíðin í sumar muni endurspeglast í að fleiri Íslendingar haldi erlendis nú á haustmánuðum en gerðu á sama tíma í fyrra, og verður því áhugavert að sjá hvernig tölur septembermánaðar muni koma út hvað þetta varðar.

Gistinætur aldrei fleiri

nullÁ föstudag mun Hagstofan birta tölur um gistinætur og gestakomur á hótelum hér á landi í ágúst síðastliðnum. Ofangreindar tölur Ferðamálastofu ríma vel við tölur Hagstofunnar um gistinætur, og hafa þær aldrei verið fleiri en nú í ár. Þannig eru gistinætur á fyrstu sjö mánuðum ársins komnar upp í 1.218 þúsund talsins, sem er 17% aukning miðað við sama tímabili í fyrra. Má rekja aukninguna að mestu til 19% fjölgunar á gistinóttum erlendra ríkisborgara, en gistinætur þeirra eru um 85% af heildarfjölda gistinátta og hefur það hlutfall aldrei áður farið svo hátt á þessu tímabili. Þó hefur einnig orðið dágóð aukning á gistinóttum Íslendinga að undanförnu, og í raun benda þessar tölur til þess að landinn hafi aldrei áður leyft sér að kaupa gistingu á hótelum innanlands í eins ríkum mæli og nú í ár. Hefur gistinóttum Íslendinga fjölgað um rúmlega 11% á milli ára, sem rímar við að landsmenn hafi í auknum mæli varið sumarfríum sínum í ferðalög innanlands þrátt fyrir rysjótt veður á stórum hluta landsins.

Raungengi krónunnar mun líklega lækka

nullÁ fimmtudag mun Seðlabanki Íslands birta raungengi íslensku krónunnar fyrir septembermánuð. Í ágúst sl. hækkaði raungengi krónunnar um 1,3% frá fyrri mánuði á mælikvarða hlutfallslegs verðlags. Þetta var annar mánuðurinn í röð sem raungengi krónunnar þróast í þessa átt, og stendur það nú í 80,4 stigum sem er næsthæsta gildi þess frá því í september árið 2008.

Hækkunina á raungengi krónunnar á milli júlí og ágúst mátti að mestu rekja til 1,1% hækkunar á nafngengi krónunnar á tímabilinu. Þó hefur verðlag hækkað eitthvað meira hér á landi í ágúst en í okkar helstu viðskiptalöndum, en vísitala neysluverðs hækkaði um 0,3% í ágúst frá fyrri mánuði. Búast má við að þróunin á raungengi krónunnar nú í september verði önnur en á síðustu tveimur mánuðum, og lækki á milli mánaða vegna lækkunar á nafngengi krónunnar á tímabilinu. Þannig hefur nafngengi krónunnar verið að jafnaði um 1,6% lægra í september en ágúst. Vísitala neysluverðs mun svo væntanlega dempa lækkunina eitthvað líkt og oft er raunin, en hún hækkaði um rúm 0,3% á sama tíma. 

Dags.

Efni

Heimild

30.sep.13

Vöruskipti við útlönd, janúar-ágúst 2013

Hagstofa Íslands

30.sep.13

Ársfjórðungsáætlun Lánamála - 4. ársfjórðungur 2013

Lánamál ríkisins

30.sep.13

Verðbréfafjárfesting í ágúst 2013

Seðlabanki Íslands

1.okt.13

Innflutt hráefni til fiskvinnslu 2012

Hagstofa Íslands

1.okt.13

Mannfjöldi eftir menntunarstöðu 2012

Hagstofa Íslands

1.okt.13

Frumvarp til fjárlaga

Fjármálaráðuneyti

2.okt.13

Ráðstöfunartekjur heimilageirans 2012

Hagstofa Íslands

2.okt.13

Fjármálareikningar 2012, bráðabirgðatölur

Hagstofa Íslands

2.okt.13

Vaxtaákvörðunardagur

Seðlabanki Íslands

2.okt.13

Hópuppsagnir í september 2013

Vinnumálastofnun

2.okt.13

Fasteignamarkaðurinn í september eftir landshlutum

Þjóðskrá Íslands

4.okt.13

Gistinætur og gestakomur á hótelum í ágúst 2013

Hagstofa Íslands

4.okt.13

Vöruskipti við útlönd, september 2013, brb.tölur

Hagstofa Íslands

4.okt.13

Staða Lífeyrissjóða í lok ágúst 2013

Seðlabanki Íslands

4.okt.13

Gjaldeyrismarkaður í september 2013

Seðlabanki Íslands

4.okt.13

Raungengi krónunnar í september 2013

Seðlabanki Íslands

4.okt.13

Brottfarir gesta frá landinu um FLE í september 2013

Ferðamálastofa Íslands

4.okt.13

Útboð ríkisbréfa

Lánamál ríkisins

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall