Fréttir Greiningar

Spáum óbreyttum stýrivöxtum 1. júní

27.05.2016 11:16

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands (SBÍ) muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi sínum 1. júní nk. Munu rök nefndarinnar fyrir óbreyttum stýrivöxtum væntanlega m.a. verða að þrátt fyrir miklar launahækkanir og vaxandi framleiðsluspennu hefur verðbólga haldist undir markmiði um ríflega tveggja ára skeið og að öðru óbreyttu er útlit fyrir að verðbólgan verði undir markmiði fram eftir ári. 

Mjög stutt er liðið frá síðustu vaxtaákvörðun nefndarinnar en hún var 11. maí sl. Nefndin ákvað þá að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í takti við spá okkar og aðrar opinberar spár. Kom fram í fundargerð vegna þeirrar ákvörðunar að full samstaða nefndarmanna hafði verði um ákvörðunina og að enginn nefndarmaður taldi ástæðu til að breyta vöxtum þá. Lítið sem ekkert hefur gerst á þeim stutta tíma sem liðinn er frá síðustu vaxtaákvörðun sem ætti að breyta afstöðu nefndarmanna til stýrivaxta bankans. 

Framsýn leiðsögn óbreytt

Framsýna leiðsögnin í yfirlýsingu nefndarinnar vegna síðustu vaxtaákvörðunar var að mestu óbreytt frá vaxtaákvörðuninni á undan. Talar nefndin um í yfirlýsingu sinni að alþjóðleg verðlagsþróun og sterkari króna hafi veitt svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt, en að það breyti hins vegar ekki því að miðað við spá Seðlabankans er líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst af framvindunni. Reiknum við með því að nefndin endurtaki þessa framsýnu leiðsögn sína nú. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall