Fréttir Greiningar

Meirihluti ríkisbréfaútgáfu á fyrri árshelmingi

01.04.2014 12:13

nullÚtlit er fyrir að framboð ríkisbréfa í útboðum á öðrum ársfjórðungi verði með svipuðu sniði og var á fyrsta fjórðungi ársins. Samkvæmt nýbirtri útgáfuáætlun Lánamála ríkisins er áætlað að gefa út ríkisbréf fyrir 10-20 ma.kr. að söluverði á fjórðungum sem nú er nýhafinn. Gangi áætlunin eftir verður ríkisbréfaútgáfa komin í 30-40 ma.kr. í júnílok, en ársáætlun gerir ráð fyrir 50 ma.kr. útgáfu á árinu 2014 í heild.

Líkt og í áætlun fyrir fyrsta ársfjórðung er stefnt að útgáfu í þremur ríkisbréfaflokkum í almennum útboðum. Eru það tveggja ára flokkurinn RIKB16, nýjasti ríkisbréfaflokkurinn RIKB20 og sá lengsti, RIKB31. Raunar hefur enn ekki verið gefið út í síðastnefnda flokknum það sem af er ári. Að hámarki verður gefið út fyrir 15 ma.kr. í hvorum styttri flokkanna, en fyrir 10 ma.kr. í RIKB31.

Takmörk sett á verðtryggða útgáfu

Auk útgáfu í almennum útboðum mun útgáfa verðtryggða ríkisbréfaflokksins RIKS33 í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans telja inn í heildarútgáfuna. Útgáfa í RIKS33 mun því minnka útgáfu í almennum útboðum um samsvarandi fjárhæð líkt og verið hefur. Í því samhengi vekur athygli að Lánamál tilkynntu í gær að heildarsala RIKS33 í næsta gjaldeyrisútboði, sem haldið verður 14. maí næstkomandi, yrði að hámarki 400 m.kr. Ef sama skilyrði verður sett í gjaldeyrisútboðinu sem fyrirhugað er í júní verður útgáfa RIKS33 í gjaldeyrisútboðum á öðrum ársfjórðungi 800 m.kr. að hámarki. Til samanburðar var útgáfa RIKS33 vegna gjaldeyrisútboða á fyrsta ársfjórðungi 4,5 ma.kr.

Þegar hafa verið gefin út ríkisbréf fyrir 20,2 ma.kr. að söluvirði það sem af er ári. Auk fyrrnefndrar útgáfu RIKS33-bréfa hafa verið gefin út RIKB16-bréf fyrir 3,4 ma.kr. og bréf í RIKB20-flokknum fyrir 12,4 ma.kr. Eins og áður segir er áætluð útgáfa á árinu 2014 í heild 50 ma.kr., og útgáfan nú á fyrsta fjórðungi ársins þegar komin upp í rúmlega 40% af heildaráætlun ársins. Miðað við hina nýbirtu ársfjórðungsáætlun má gera ráð fyrir að útgáfa ríkisbréfa muni nema 30-40 mö.kr. í júnílok, eða sem nemur á bilinu 60% - 80% af  áætlaðri heildarútgáfu ársins.

Verður útgáfa ársins umfram áætlun?

nullÚtgáfa ársins á ríkisbréfum gæti þó reynst meiri en áætlað er nú. Undanfarin 3 ár hefur endanleg ríkisbréfaútgáfa verið á bilinu 4-7 mö.kr. meiri en upphafleg áætlun hljóðaði upp á. Má nefna a.m.k. þrjár mögulegar ástæður fyrir aukinni útgáfu:

Í fyrsta lagi gæti staða ríkisvíxla orðið lægri um næstu áramót en þeir 30 ma.kr. sem ársáætlunin gerir ráð fyrir. Staða útistandandi ríkisvíxla var 22,2 ma.kr. um síðustu mánaðamót, eða tæpum 8 mö.kr. undir framangreindu áramótatakmarki. Nóg er þó eftir af árinu og verður fróðlegt að fylgjast með þróun ríkisvíxlanna, nú þegar erlendir aðilar virðast hættir að kaupa þá.

Í öðru lagi gætu ríkisútgjöld reynst meiri en gert er ráð fyrir í fjárlögum 2014, t.d. ef launahækkun opinberra starfsmanna í kjölfar yfirstandandi kjarasamningalotu reynist umtalsvert meiri en áætlað var í fjárlögunum.

Í þriðja lagi kom í ljós á ársfundi Seðlabankans í síðustu viku að skuldabréf útgefið af ríkissjóði til að styrkja eigið fé Seðlabankans mun bera vexti tengda innlánsvöxtum Seðlabankans. Þeir vextir eru nú 5%, en höfuðstóll skuldabréfsins nam tæpum 171 ma.kr. um síðustu áramót samkvæmt Markaðsupplýsingum Lánamála. Að teknu tilliti til þess að fyrirhugaðar breytingar á lögum um Seðlabankann gera væntanlega mögulegt að lækka stöðu þessa skuldabréfs um 26 ma.kr. má að öðru óbreyttu búast við að vaxtakostnaður ríkissjóðs vegna bréfsins verði u.þ.b. 7 ma.kr. á yfirstandandi ári. Í fjárlögum ársins var hins vegar gert ráð fyrir að skuldabréfið yrði vaxtalaust frá og með þessu ári og að vaxtagjöld ársins 2014 myndu lækka um 4,3 ma.kr. vegna þessa.

Ekkert framangreindra atriða skiptir sköpum um stóraukið framboð ríkisbréfa eitt og sér. Hins vegar gæti orðið umtalsverð aukning á framboðinu ef tvö þeirra, eða jafnvel öll, hefðu veruleg áhrif í þá áttina.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall