Fréttir Greiningar

Húsnæðisliður vegur þungt í desemberhækkun VNV

20.12.2013 10:44

nullVeruleg hækkun húsnæðisliðar er meginskýring þess að vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði meira í desember en vænst hafði verið. Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði VNV um 0,53% í desembermánuði frá mánuðinum á undan, en svo mikil hækkun hefur ekki orðið á milli mánaða síðan í júní síðastliðnum. Opinberar spár lágu á bilinu 0,3% - 0,4%, og höfðum við spáð 0,4% hækkun í desember. Til samanburðar hækkaði vísitala neysluverðs án húsnæðis um 0,33% á milli mánaða í desember. Verðbólga síðustu 12 mánaða mælist nú 4,2% en var 3,7% í nóvember, enda var VNV svo til óbreytt milli mánaða í desember í fyrra.

Húsnæðið er helmingurinn

nullHúsnæðisliður VNV hækkaði um 1,0% í desember frá mánuðinum á undan (0,26% áhrif í VNV). Helming hækkunarinnar á VNV að þessu sinni má því skýra með hækkun húsnæðisliðar. Þar vó langþyngst að reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar þróun íbúðaverðs, hækkaði um 1,6% (0,22% í VNV), og skýrir sá einstaki liður einnig muninn á spá okkar og niðurstöðunni úr mælingu Hagstofunnar. Markaðsverð íbúða á landsbyggðinni hækkaði um 3,4%, verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæði hækkaði um 1,7% en verð á sérbýli á höfuðborgarsvæði um 0,5%. Þá hækkaði greidd húsaleiga um 0,8% í desember samkvæmt mælingu Hagstofu.

Ýmsir aðrir hækkunarvaldar

Kostnaður við ferðir og flutninga lagði næstmest til hækkunar VNV í desember, en sá liður hækkaði um 1,1% (0,18% í VNV). Líkt og við höfðum búist við hækkuðu flugfargjöld til útlanda talsvert (0,09% í VNV), og sömu sögu má segja um eldsneytisverð (0,07% í VNV).

Af öðrum áhrifaþáttum í desember má nefna að matvörur hækkuðu í verði um 0,6% í desember (0,08% í VNV) og skýrist sú hækkun helst af verðhækkun á kjöti og bönunum. Einnig hækkaði sjónvarpsáskrift um 3,5% og bankakostnaður um 7,3% á milli mánaða í mælingu Hagstofunnar.

Verðbólga hjaðnar á komandi mánuðum

nullVið teljum að verðbólguhorfur fyrir næstu mánuði hafi ekki breyst mikið þrátt fyrir að desembermælingin hafi reynst yfir væntingum. Krónan hefur styrkst talsvert frá nóvemberbyrjun og má telja líklegt að styrkingin skili sér í lægra verði á innfluttum vörum með mikinn veltuhraða á næstunni, t.d. matvörum og eldsneyti. Raunar hefur eldsneyti þegar lækkað um 5 kr. frá mælingu Hagstofunnar, og að óbreyttu hefur sú lækkun áhrif til 0,15% lækkunar VNV í janúar. Bráðabirgðaspá okkar hljóðar upp á 0,2% lækkun VNV í janúar, 1,0% hækkun í febrúar og 0,4% hækkun VNV í mars. Gangi spáin eftir mun verðbólga hjaðna talsvert á 1. ársfjórðungi komandi árs og mælast 3,2% í mars. Í kjölfarið er hins vegar líklegt að heldur bæti í verðbólgu að nýju, en það veltur að miklu leyti á útkomu kjarasamninga og gengisþróun krónu næstu mánuðina.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall