Fréttir Greiningar

Væntingar nánast óbreyttar í ágúst

27.08.2014 11:08

Ekki lyftist brúnin á landanum mikið nú í ágústmánuði eftir að hafa þyngst talsvert mánuðinn á undan. Þannig hækkar Væntingavísitala Gallup (VVG) lítillega, eða um 1,3 stig, á milli júlí og ágúst, og mælist vísitalan nú 86,5 stig. Er hún þar með enn talsvert undir þeim 100 stigum sem marka jafnvægi á milli bjartsýni og svartsýni neytenda á stöðu og horfur í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar.

Allar undirvísitölur hækka í ágúst frá fyrri mánuði, að frátalinni undirvísitölunni sem mælir væntingar neytenda til aðstæðna eftir 6 mánuði. Sú vísitala lækkar um 5 stig og mælist nú 104,4 stig sem er lægsta gildi hennar frá því í nóvember í fyrra. Mest hækkar vísitalan sem mælir mat neytenda á núverandi ástandi (10,8 stig) og mælist hún nú 59,8 stig. Mat á efnahagslífinu hækkar svo um 7 stig og mat á atvinnuástandinu um 3 stig. Mælist fyrrnefnda vísitalan 82,0 stig og sú síðarnefnda 91,2 stig. 

Úr takti við hagstærðir

Það kemur okkur talsvert á óvart að VVG hækki ekki meira að þessu sinni þar sem fjölmörg teikn eru um að hagur neytenda fari batnandi, auk þess sem efnahagshorfur eru allgóðar fyrir næstu misserin. Þannig benda tölur af vinnumarkaði til þess að ágætis gangur sé í honum, og virðist staðan þar ekki hafa verið betri síðan fyrir hrun. Jafnframt hefur kaupmáttur launa verið að aukast, og nam árs hækkunartaktur kaupmáttarins 3,5% í júlí síðastliðnum samkvæmt tölum Hagstofunnar. Það rímar vel við tölur frá eftirspurnarhlið hagkerfisins á borð við kortaveltu, innflutning neysluvara og veltu í smásöluverslun sem benda til þess að einkaneysluvöxtur muni verða all myndarlegur á árinu. Í júlí sl. töldum við að lækkun VVG frá fyrri mánuði gæti verið að hluta til vegna hversu úrkomusamur og sólarlítill mánuðurinn var um mest allt land. Tíðarfarið hefur verið talsvert skárra nú í ágúst, a.m.k. á Suðvesturhorni landsins, og er því erfitt að heimfæra þá kenningu upp á nýjustu VVG-mælinguna. Við teljum hins vegar að eftir sem áður muni leitni VVG verða upp á við á komandi mánuðum líkt og verið hefur frá miðju síðasta ári. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall