Fréttir Greiningar

Myndarleg raunávöxtun lífeyrissjóða árið 2013

11.02.2014 10:30

nullÚtlit er fyrir að raunávöxtun lífeyrissjóða í fyrra hafi verið nokkuð yfir 3,5% tryggingafræðilegu viðmiði, annað árið í röð. Hrein eign til greiðslu lífeyris jókst um 11,1% á árinu 2013. Þótt innflæði í sjóðina vegna iðgjalda sé nokkuð umfram útflæði vegna lífeyrisgreiðslna og úttekta séreignarsparnaðar virðist ljóst að raunávöxtun sjóðanna var að jafnaði tiltölulega myndarleg. Innlend verðbréfaeign jókst um 12,5% en erlend verðbréfaeign um 7,9%. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Seðlabankans. Lífeyrissjóðirnir mega ekki fjárfesta nýju fjármagni erlendis og má því ljóst vera að erlend verðbréfaeign sjóðanna hefur skilað nokkuð góðri ávöxtun síðast liðið ár, sérstaklega í ljósi þess að krónan styrktist nokkuð.

Stærstu lánadrottnar ríkissjóðs

nullLífeyrissjóðirnir eiga um 243 ma.kr. af útistandandi ríkisbréfum, samkvæmt upplýsingum úr Lánamálum, og mynda því saman stærsta lánadrottin ríkissjóðs. Ríkisbréf lífeyrissjóðanna námu í desember 11,9% af hreinni eign til greiðslu lífeyris en bréf bæjar- og sveitafélaga námu 2,9%. Lántaka þessara aðila bliknar þó í samanburði við hlutdeild íbúðabréfa sem námu 23% af hreinni eign til greiðslu lífeyris, en samtals nema húsnæðistengd bréf þ.e. húsbréf, húsnæðisbréf og íbúðabréf tæplega fjórðungi af hreinni eign. Lífeyrissjóðirnir eiga því þó nokkuð undir því að vandamál Íbúðalánasjóðs verði leyst með farsælum hætti. 

Af einstökum skuldabréfaflokkum hefur hlutfall skuldabréfa innlánsstofnanna hækkað mest, eða um nærri helming, þau nema þó aðeins 1,2% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Þessi stærð vanmetur reyndar heildarlán til innlánsstofnanna, enda teljast innlán til heildarlána bankanna.

Innlend hlutabréfaeign hefur aukist verulega frá hruni

nullÍ krónum talið jókst hlutabréfaeign lífeyrissjóðanna um 60% milli ára en hlutabréfavísitala Greiningar, K-90, hækkaði um 37% yfir síðastliðið ár. Þess fyrir utan hafa lífeyrissjóðirnir eflaust innleyst nokkurn hagnað við skráningu TM og N1, en lífeyrissjóðirnir voru meðal stórra eigenda í þeim félögum fyrir skráningu og eru kaup þeirra því mun minni en fyrrgreind aukning gæfi vísbendingu um. Nýjasta mat okkar á hlutdeild lífeyrissjóðanna í markaðsvirði skráðra hlutabréfa hljóðar upp á 36,8%.

Innlend hlutabréfa- og hlutabréfasjóðaeign nemur nú 11,5% af af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Erlend hlutabréfa- og hlutabréfasjóðaeign nemur aftur 20% af sömu stærð. Hlutfall verðbréfa með föstum tekjum (þ.e. skuldabréfa og skyldra eigna) nemur 56,8%.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall