Fréttir Greiningar

Þjónustuviðskiptin í lykilhlutverki við gjaldeyrisöflun

04.07.2014 11:47

Allt bendir til þess að hreint gjaldeyrisinnflæði vegna þjónustuviðskipta verði umtalsvert meira en vegna vöruskipta í ár, sem er viðsnúningur frá því sem verið hefur. Er innbyrðis þróunin þarna á milli að gerast mun hraðar en við áttum von á. Þannig hefur innflæði vegna þjónustuviðskipta vaxið ívið meira á sama tíma og vöruskiptin hafa reynst mun óhagstæðari en við reiknuðum með. Er þetta viðsnúningur frá því sem verið hefur en fyrstu árin eftir hrun var afgangur af vöruskiptum hátt í þrisvar sinnum meiri en hann var af þjónustuviðskiptum, en í fyrra munaði þó litlu þarna á milli.

Ferðamönnum fjölgar áfram

Eitt af því sem skýrir þessa þróun er hraður vöxtur í gjaldeyristekjum af erlendum ferðamönnum hér á landi. Þannig hefur erlendum ferðamönnum fjölgað samfellt á milli ára allt frá því í október 2010. Nýlega tölur Ferðamálastofu Íslands fyrir júní staðfesta að þessi vöxtur heldur áfram. Alls námu brottfarir erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll (KEF) 110,6 þús. talsins í mánuðinum, sem er aukning upp á 23% frá því í júní í fyrra. Á sama tíma námu brottfarir Íslendinga um KEF 41,2 þús. talsins, og fjölgaði þeim um rúmlega 13% á milli ára. Þess má geta að ekki hafa jafn margir Íslendingar haldið erlendis í einum mánuði síðan í júlí 2008.

Metafgangur af þjónustujöfnuði í uppsiglingu?

Brottfarir erlendra ferðamanna um KEF á 2. ársfjórðungi nema alls 236,5 þús. talsins á sama tíma og brottfarir Íslendinga eru 113,6 þús. Er ferðamannajöfnuður, þ.e. brottfarir erlendra gesta umfram Íslendinga, þar með 122,9 þús. á 2. ársfjórðungi samanborið við 90,4 þús. á sama tímabili í fyrra. Miðað við þessar tölur má ætla að afgangur af þjónustujöfnuði vegna ferðalaga hafi aldrei verið meiri á 2. ársfjórðungi og nú í ár. Má gróflega áætla að hann komi til með að vera um 12 ma.kr. á fjórðungnum samanborið við 7,5 ma.kr. í fyrra, þ.e. að því gefnu að hver erlendur ferðamaður og hver Íslendingur hafi eytt jafn miklu í krónum talið og hann gerði á 2. ársfjórðungi í fyrra. Í heild nam afgangur af þjónustujöfnuði 19,5 mö.kr. á 2. ársfjórðungi í fyrra, en þar af skiluðu samgöngur, sem er stærsti þjónustuliðurinn, 23,1 ma.kr. afgangi en halli var af „annarri þjónustu“ upp á 11,0 ma.kr. Við reiknum með að afgangur af samgöngum komi til með að vaxa eitthvað á milli ára, og að því gefnu að hallinn á annarri þjónustu verði svipaður á milli ára má áætla að afgangurinn af þjónustujöfnuði í heild verði í kringum 25 ma.kr. á 2. ársfjórðungi.

Mesti halli á vöruskiptum síðan fyrir hrun

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar voru vöruskipti við útlönd óhagstæð um 7,7 ma.kr. í júní sl. Er hér um að ræða mesta halla á vöruskiptum frá því í júlí 2008, sem á við hvort sem leiðrétt er fyrir sveiflum í gengi krónunnar eða ei. Í apríl var vöruskiptajöfnuður óhagstæður um 6,9 ma.kr. en hagstæður um 2,4 ma.kr. í maí. Ef bráðabirgðatölurnar reynast nærri lagi er vöruskiptajöfnuður óhagstæður um 12,2 ma.kr. á 2. ársfjórðungi, og er hér um að ræða mesta halla á vöruskiptum við útlönd á einum fjórðungi síðan fyrir hrun og í raun aðeins í annað sinn sem slíkt er upp á teningnum. Á 2. ársfjórðungi í fyrra mældist lítilsháttar halli á á vöruskiptajöfnuði, eða um 1,5 ma.kr.

Það er fyrst og fremst rýr útflutningur sem skýrir ofangreinda halla á vöruskiptum. Nam verðmæti vöruútflutnings 128,5 mö.kr. á 2. ársfjórðungi, og hefur það ekki verið minna síðan á 2. fjórðungi 2009. Hér hefur bæði útflutningsverðmæti sjávarafurða og iðnaðarvara dregist saman. Verðmæti vöruinnflutnings nam alls 140,7 mö.kr. á 2. ársfjórðungi sem er svipað og það var á sama tímabili í fyrra. Rétt er þó að geta þess að innflutningur hefur aukist að magni til sem er í takti við þann kraft sem er í innlendri eftirspurn um þessar mundir. Á móti hefur innflutningur lækkað í verði í krónum talið, enda var gengi krónunnar töluvert sterkara á 2. ársfjórðungi í ár en á sama tíma í fyrra.

Af ofangreindu er þó ljóst að þjónustuútflutningur gegnir orðið lykilhlutverki við að afla gjaldeyris fyrir þjóðarbúið, og eins og áður segir bendir allt til þess að hreint gjaldeyrisinnflæði vegna þjónustuviðskipta verði umtalsvert meira en hreint innflæði vegna vöruskipta í ár.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall