Fréttir Greiningar

Bjartsýni landans eykst með hækkandi sól

28.03.2018 09:32

Íslenskir neytendur hyggjast draga úr bifreiðakaupum sínum en bæta í utanlandsferðir á næstunni ef marka má könnun Gallup. Einnig virðist áhugi á fasteignakaupum vera að glæðast á nýjan leik. Þá eru flestir neytendur sáttir við stöðu efnahags- og atvinnumála þótt nokkuð hafi dregið úr bjartsýni á stöðu og horfur í efnahagslífinu undanfarin misseri.

Almennt sáttir með stöðu efnahagsmála

Væntingavísitala Gallup (VVG) var birt í morgun. Vísitalan hækkar um 5 stig í mars og mælist nú 117,4 stig. Það er þó 12 stigum undir gildi hennar fyrir ári síðan. Hágildum sínum í núverandi uppsveiflu náði VVG á síðari hluta ársins 2016 og hefur leitni hennar fremur verið niður á við síðan.

Íslenskir neytendur eru þó eftir sem áður flestir ánægðir með núverandi ástand efnahags- og atvinnulífsins, en 100 stiga gildi VVG markar jafnvægi milli bjartsýni og svartsýni neytenda. Undirvísitalan fyrir mat á núverandi ástandi hækkar í tæp 164 stig mars og er nærri hæstu gildum sínum frá upphafi áratugarins. Hins vegar hafa væntingar til efnahags- og atvinnumála að sex mánuðum liðnum minnkað talsvert frá því sem hæst varð fyrir hálfu öðru ári síðan og skýrir það lægri gildi VVG upp á síðkastið. Sú þróun á sér fordæmi úr fyrri hagsveiflu, enda má segja að þegar þorri fólks telur ástandið með besta móti eru minni líkur á að almennt sé vænst enn betri stöðu á komandi misserum.

Eins og jafnan eru væntingar karla hærri en væntingar kvenna. Þá hækka væntingar karla nokkuð á milli mánaða en væntingar kvenna lækka. Meðal beggja kynja eru þó fleiri bjartsýnir en svartsýnir á stöðu og horfur í íslensku hagkerfi. 

Færri bílar, fleiri utanlandsferðir?

Gallup birti einnig niðurstöður ársfjórðungslegra mælinga á fyrirhuguðum stórkaupum íslenskra neytenda að þessu sinni. Athygli vekur að vísitala fyrirhugaðra bifreiðakaupa lækkar talsvert milli mælinga og hefur ekki verið lægri frá 3. ársfjórðungi 2016. Telja 14% svarenda líklegt að þeir muni kaupa bifreið á næstunni. Til samanburðar má nefna að 19% svarenda hugðu á bílakaup fyrir ári síðan.

Hins vegar hefur áhugi landans á utanlandsferðum aukist frá síðustu mælingu. Nærri 80% svarenda hyggur á ferð til útlanda á næstunni og hefur hlutfallið sjaldan verið hærra það sem af er þessum áratug. Þetta gæti bent til þess að stækkandi hluti heimila sé nú búinn að endurnýja bílakost sinn og nýti þá þann hluta ráðstöfunartekna sem aukreitis er til ferðalaga í kjölfarið.

 

Þá hefur áhugi neytenda á húsnæðiskaupum glæðst á ný og hyggjast 5% svarenda ráðast í slík kaup á næstunni. Það er hæsta hlutfall frá því fyrir ári síðan og gæti gefið til kynna að aukið líf væri að færast að nýju í íbúðamarkað. Af myndinni má ráða að samband hafi verið milli þróunar vísitölu fyrir húsnæðiskaup og verðþróunar á íbúðamarkaði næstu fjórðunga á eftir. Það skal þó ósagt látið hvort nýjasta mæling þessarar vísitölu gefur til kynna að aftur kunni að bæta í hækkunartaktinn á íbúðamarkaði.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall