Fréttir Greiningar

Stjórnendur vænta mikillar verðbólgu

18.10.2013 11:30

nullStjórnendur stærstu fyrirtækja landsins vænta þess að verðbólgan eftir ár verði 3,7%. Er það aukning frá því í maí þegar verðbólguvæntingar fyrirtækjastjórnenda til tólf mánaða mældust 3,2%. Þá búast fyrirtækjastjórnendur við því að verðbólgan eftir tvö ár verði komin í 4,6% og aukist þar með frá núverandi verðbólgu sem er 3,9% og einnig frá því sem stjórnendur vænta að verðbólgan verði eftir tólf mánuði. Kemur þetta fram í könnun sem Capacent gerði fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann í september síðastliðinn.

Seðlabankinn hefur áhyggjur

Verðbólguvæntingarnar eru talsvert yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Gildir einu hvort þar sé um að ræða verðbólguvæntingar fyrirtækjastjórnenda, heimilanna eða fjárfesta. Einnig eru spár greiningaraðila, þ.m.t. okkar, þær að verðbólgan muni haldast talsvert há næstu misseri.  Hefur Seðlabankinn eðlilega haft af þessu nokkrar áhyggjur, en miklar og þrálátar verðbólguvæntingar gera honum um margt erfiðara fyrir í peningastjórnuninni.

Seðlabankinn tók ákvörðun um það í maí síðastliðnum að auka virkni sína á gjaldeyrismarkaði með það að markmiði að draga úr sveiflum í gengi krónunnar og lækka verðbólguvæntingar. Vonaðist bankinn til þess að þetta myndi hjálpa honum til að ná verðbólgumarkmiði sínu fyrr en ella.

Krónan hefur verið stöðugri frá því í maí í ár en hún var á sama tímabili í fyrra. Inngrip Seðlabankans hafa eflaust haft eitthvað þar að segja.  Verðbólguvæntingar hafa hins vegar lítið breyst. Segir í fundargerð peningastefnunefndar vegna síðustu vaxtaákvörðunar nefndarinnar 2. október sl. að nefndin hafi rætt ástæður þess að inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði undanfarið hefðu ekki enn sem komið er skilað sér í lækkun verðbólguvæntinga þrátt fyrir að þau hefðu stuðlað að minni sveiflum í gengi krónunnar. Taldi nefndin líklegast að auk óvissu vegna komandi kjarasamninga stafaði tregðan í verðbólguvæntingum af óvissu um áhrif af greiðslubyrði erlendra lána, uppgjörum búa fallina banka og losun fjármagnshafta á gengisþróun næstu missera. 

Vænta þess að gengi krónunnar lækki

Það virðist rétt til getið hjá peningastefnunefndinni að væntingar eru um lækkun krónunnar á næstunni. Fram kemur í ofangreindri könnun Capacent að tæpur helmingur stjórnenda telur að gengi krónunnar muni veikjast á næstu 12 mánuðum og ekki nema 8% að það muni styrkjast. Lítil trú á stöðugleika krónunnar virðist því vera stór þáttur í því að verðbólguvæntingar haldast háar. Aukin virkni Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði virðast ekki hafa breytt miklu í varðandi þessar væntingar fyrirtækjastjórnenda, en væntingar stjórnenda um veikingu gengis krónunnar hafa samfellt komið fram í könnunum Capacent frá því í mars 2011.  

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall