Fréttir Greiningar

Fjórðungi minni vöruskiptaafgangur það sem af er ári

30.09.2013 12:10

nullVöruskiptaafgangur það sem af er ári er fjórðungi lakari en raunin var í fyrra. Skrifast sú þróun fyrst og fremst á óhagstæða verðþróun á helstu útflutningsafurðum Íslands, sjávarafurðum og áli. Bæði innflutningur og útflutningur hafa skroppið saman á milli ára í magni mælt, sem hlýtur að teljast nokkuð áhyggjuefni, enda hvílir aukinn hagvöxtur á annars vegar auknum útflutningi og hins vegar meiri innlendri eftirspurn sem endurspeglast ætti í auknum innflutningi. Þó eru jákvæðar vísbendingar í aukningu á innflutningi ýmissa fjárfestingarvara. Afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði í ár verður því borinn uppi af þjónustuviðskiptum í mun meiri mæli en raunin hefur verið nokkru sinni fyrr.

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar um vöruskipti við útlönd nam vöruskiptaafgangur í ágústmánuði 2,9 mö.kr. Er það í samræmi við bráðabirgðatölur fyrir mánuðinn. Vöruútflutningur nam 44,1 mö.kr. en vöruinnflutningur 41,2 mö.kr. Báðar tölurnar eru í lægra lagi miðað við undanfarna mánuði, og raunar var innflutningurinn sá minnsti í krónum talið síðan í ágúst í fyrra.

Á fyrstu átta mánuðum ársins nemur vöruútflutningur samtals 393,8 mö.kr. en innflutningur nemur 362,6 mö.kr. Afgangur af vöruskiptum frá áramótum er því 31,1 ma.kr. Á sama tímabili í fyrra var afgangurinn 40,2 ma.kr., og er hann því 9,1 mö.kr. minni það sem af er ári en raunin var árið 2012.

Ólíkar ástæður fyrir samdrætti inn- og útflutnings

Lítill vöruútflutningur það sem af er ári skrifast á óhagstæða verðþróun á erlendum mörkuðum. Á fyrstu átta mánuðum þessa árs hefur verð sjávarafurða verið u.þ.b. 5,6% lægra og verð áls 5,1% lægra á heimsmarkaði en raunin var á þessu tímabili í fyrra, ef miðað er við vísitölu framleiðsluverðs sem Hagstofan birtir og gengisvísitala krónu notuð til að leiðrétta fyrir gengisbreytingum. Enn liggja ekki fyrir magntölur fyrir út- og innflutning í ágúst en á fyrstu sjö mánuðum ársins jókst útflutningur í magni mælt um 1,4% frá fyrra ári. Munaði þar mestu að útflutningur sjávarafurða óx um 4,4%, en á sama tíma stóð útflutningur iðnaðarvara nánast í stað samkvæmt tölum Hagstofunnar. Heldur virðist vera að rofa til varðandi verð sjávarafurða erlendis, en álverð er enn lágt.

Minnkandi innflutningur orsakast að mestu af mun minni innflutningi skipa og flugvéla það sem af er ári en raunin var í fyrra. Almennur innflutningur jókst þannig í magni mælt um 5,0% á fyrstu sjö mánuðum ársins m.v. sama tíma í fyrra, en sé skipum og flugvélum bætt við er niðurstaðan 1,6% samdráttur. Það jákvæða í innflutningstölunum er að innflutningur fjárfestingarvara, annarra en skipa og flugvéla, jókst um tæp 19% á þessu tímabili, sem er vísbending um vöxt í a.m.k. sumum tegundum fjárfestingar um þessar mundir. Hins vegar hefur vöxtur í innflutning neysluvara verið hægur, og vegur þar nokkuð þungt að innflutningur bíla til einkanota dróst saman um ríflega 5% á þessu tímabili.

Meiri þjónustuafgangur vegur á móti

Útlit er fyrir að vöruskiptaafgangur verði á bilinu 50 – 60 ma.kr. á yfirstandandi ári. Í fyrra var afgangurinn 77,3 ma.kr., og er útlitið því talsvert rýrara fyrir árið í ár. Á móti vegur að afgangur af þjónustujöfnuði verður væntanlega umtalsvert meiri í ár en hann var í fyrra. Við teljum því á heildina litið að afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði gæti orðið heldur meiri en hann var í fyrra, en þá nam hann 103,6 mö.kr. Gjaldeyrisinnflæði vegna vöru- og þjónustuviðskipta verður því líklega að sama skapi heldur meira en var í fyrra, sem vegur gegn verulegu gjaldeyrisútflæði vegna vaxta og afborgana af erlendum skuldum.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall