Fréttir Greiningar

Meiri lækkun neysluverðs en vænst var í september

25.09.2015 11:34

Verðbólgumæling Hagstofunnar í september er talsvert undir spám, og hjaðnar því 12 mánaða taktur verðbólgunnar á ný í mánuðinum. Útlit er fyrir að verðbólga verði undir markmiði Seðlabankans út árið. VNV mælingin nú styður þá skoðun okkar að Seðlabankinn muni halda stýrivöxtum óbreyttum næstkomandi miðvikudag.

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar lækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,39% í september. Niðurstaðan var talsvert undir spám á markaði. Við spáðum 0,1% lækkun VNV milli mánaða og vorum raunar ein um að spá lækkun vísitölunnar. Aðrar spár hljóðuðu ýmist upp á óbreytta VNV milli mánaða eða 0,1% hækkun hennar. Verðbólga síðustu 12 mánaða mælist nú 1,9%, en var 2,2% í ágúst síðastliðnum. Árstaktur verðbólgunnar lækkar því nokkuð. Miðað við VNV án húsnæðis mælist hins vegar 0,5% verðbólga undanfarna 12 mánuði og lækkar taktur hennar einnig í september.

Faraldsfóturinn talsvert ódýrari í september

Ferða- og flutningakostnaður lækkaði verulega í septembermánuði, og skýrir sú breyting að mestu lækkun VNV í mánuðinum. Bæði lækkaði eldsneytisverð um 5,3% (-0,19% í VNV) og eins lækkuðu flugfargjöld til útlanda um 24,6% (-0,43% í VNV). Hvað síðarnefnda liðinn varðar leggjast að okkar mati á eitt árstíðarsveifla, aukin samkeppni, lækkun eldsneytisverðs á heimsmarkaði, og styrking krónu. Seinni liðirnir tveir skýra svo einnig lækkun á eldsneytislið VNV. Þá lækkaði verð á gistingu um 7,5% í september, og er það aðalskýringin á 1,0% verðlækkun á þjónustu hótela og veitingastaða (-0,05% í VNV) í september.

Árvissir liðir skýra bróðurpart hækkunar

Að vanda vógu útsölulok til nokkurrar hækkunar VNV í september. Föt og skór hækkuðu í verði um 4,4% í mánuðinum (0,19% í VNV), sem var í takti við okkar spá. Hins vegar var liðurinn húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. nánast óbreyttur milli mánaða, en þar vógu áhrif af verðlækkun IKEA og hugsanlega fleiri verslana í kjölfarið á styrkingu krónunnar upp á móti útsölulokum raftækjaverslana. Af öðrum hækkunarliðnum má nefna tómstundir og menningu, sem hækkaði um 0,6% (0,06% í VNV) vegna árvissrar hækkunar á verði íþróttastarfs og afþreyingar, og mat og drykk sem hækkaði um 0,3% (0,05% í VNV).

Hægari hækkun húsnæðisverðs en vænta mátti

Húsnæðisliður VNV hækkaði um 0,3% milli mánaða, sem er talsvert undir okkar spá þar sem við spáðum 0,6% hækkun. Þar vegur þyngst að reiknuð húsaleiga hækkaði aðeins um 0,3% (0,04% í VNV). Segja má að hófleg hækkun þessa liðar undanfarna mánuði komi nokkuð á óvart, enda hefur nú þinglýsing kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu, sem lá niðri meðan á verkfalli lögfræðinga sýslumanns stóð, nú að mestu færst í eðlilegt horf.

Betri verðbólguhorfur til skemmri tíma 

Verðbólguhorfur hafa batnað talsvert undanfarnar vikur, og horfur eru nú á mun minni verðbólgu á næstunni en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í sinni síðustu spá í ágúst. Styður það þá skoðun okkar að stýrivextir verði óbreyttir eftir vaxtaákvörðun bankans næstkomandi miðvikudag. Bráðabirgðaspá okkar gerir ráð fyrir 0,1% hækkun VNV í október, 0,1% í nóvember og 0,2% hækkun í desember. Gangi sú spá eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 2,4% í desember. Verðbólga verður samkvæmt því undir 2,5% markmiði Seðlabankans út árið, en verðbólgan mældist síðast yfir markmiðinu í janúar 2014. Til samanburðar gerði Seðlabankinn í ágústspá sinni ráð fyrir því að verðbólga yrði að jafnaði 2,4% á 3. fjórðungi yfirstandandi árs, en raunin er 2,0% verðbólga. Á síðasta fjórðungi gerði bankinn svo ráð fyrir 3,8% verðbólgu, og spáði henni þar með við efri þolmörk markmiðsins fyrir árslok. Bráðabirgðaspá okkar fyrir sama tímabil hljóðar upp á 2,2% verðbólgu, og er því munurinn þarna á milli verulegur.

Raungengishækkun í stað vaxtahækkunar?

Raunar má benda á að bankinn á sjálfur talsverðan þátt í því að verðbólga hefur þróast með öðrum hætti en hann spáði í ágúst. Styrking krónu frá miðju ári á stóran þátt í batnandi skammtíma verðbólguhorfum, en sem kunnugt er stýrir Seðlabankinn gengi krónunnar í núverandi umhverfi með ákvörðunum sínum um umfang inngripa á gjaldeyrismarkaði. Þar sem peningastefnunefndin leggur línurnar varðandi breiðu drættina í gjaldeyriskaupum Seðlabankans á markaði virðist nærtækt að álykta sem svo að ákvörðun hafi verið tekin um að halda aftur af verðbólgu með innfluttri verðhjöðnun til að vega á móti innlendum kostnaðarhækkunum í kjölfar hinnar rausnarlegu kjarasamninga sem litið hafa dagsins ljós frá vormánuðum. Að auki hefur hagstæð verðþróun á eldsneyti og öðrum hrávörum hjálpað til að ýta innflutningsverði niður undanfarið.

Sá galli er á gjöf Njarðar að þegar veruleg hækkun innlendra launa og styrking krónu eiga sér stað á sama tíma hækkar raungengi krónunnar, þ.e. mælikvarðinn á samkeppnisstöðu þjóðarbúsins, hratt. M.ö.o. verður Ísland þá fljótt talsvert „dýrara“ hvað vinnuafl og verðlag innlendra þátta varðar. Hins vegar kann Seðlabankinn að meta stöðuna sem svo að mikið gjaldeyrisinnflæði, væntanlegur bati á erlendri stöðu þjóðarbúsins í kjölfar slita gömlu bankanna og losunar aflandskróna, og þenslumerki í innlendri eftirspurn gefi svigrúm fyrir slíkri hækkun raungengisins án þess að ytri jöfnuði eða hagvaxtarhorfum sé ógnað.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall