Fréttir Greiningar

Lítilsháttar hjöðnun verðbólgu í júní

26.06.2015 11:08

Verðbólga í júní mældist prósentustigi undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans, og hefur verðbólga nú verið undir markmiðinu samfleytt í hálft annað ár. Horfur eru hins vegar á vaxandi verðbólgu eftir því sem líður á árið, og líklega fer hún yfir markmiðið fyrir árslok.

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,26% í júní. Var niðurstaðan í samræmi við spá okkar (0,3% hækkun), en spár á markaði voru á bilinu 0,3% - 0,4% hækkun. Verðbólga mælist nú 1,5%, en var 1,6% í maí síðastliðnum. Árstaktur verðbólgunnar lækkar því lítillega. Miðað við VNV án húsnæðis mælist hins vegar 0,2% verðbólga undanfarna 12 mánuði, en ekki er langt síðan verðhjöðnun mældist á þennan kvarða.

Faraldsfóturinn dýrkeyptari

Liðir tengdir ferðalögum, flutningum og ferðaþjónustu standa að baki stærstum hluta hækkunar VNV í júní. . Þar af skýrir á verði ferða- og flutningaliða ríflega helming hækkunar VNV í júní. Alls hækkaði sá undirliður um 0,9% (0,14% áhrif í VNV). Þar af hækkaði verð á flutningum í lofti um 4,9% (0,07% í VNV), og er þar að stórum hluta um árstíðabundin áhrif að ræða þegar háannatími ferðaþjónustunnar fer í hönd. Auk þess hækkaði eldsneytisverð um rúm 1,5% í júní (0,06% í VNV) og skrifast sú hækkun væntanlega á hærra heimsmarkaðsverð í krónum talið. Þá hækkaði þjónusta hótela og veitingastaða í verði um 1,9% (0,1% í VNV) og koma þar til bæði tæplega 12% hækkun á verði gistingar (0,05% í VNV) og 1,1% verðhækkun hjá veitingastöðum (0,05% í VNV). Þessir liðir þróuðust í samræmi spá okkar.

Enn fremur hafði verðhækkun á fatnaði nokkur áhrif á júnímælingu VNV. Verð á fötum og skóm hækkaði um 1,6% (0,07% í VNV). Var það talsvert umfram okkar spá.

Kostnaður við hús og híbýli lækkar

Á hinn bóginn lækkaði húsnæðisliðurinn VNV um 0,05% í júní (-0,02% í VNV). Reiknuð húsaleiga var nánast óbreytt milli mánaða (0,0% í VNV). Sú mæling er lituð af verkfalli lögfræðinga á tímabilinu þar sem engum kaupsamningum var þinglýst á höfuðborgarsvæðinu milli aprílbyrjunar og seinni hluta júnímánaðar. Þetta hafði í för með sér að engar nýjar mælingar á íbúðaverði bættust við á stærstum hluta húsnæðismarkaðar, en íbúðaverð endurspeglast í reiknaðri húsaleigu VNV. Greidd húsaleiga lækkaði um 0,26% í júní (-0,01% í VNV). Þá lækkuðu húsgögn og heimilisbúnaður í verði um 0,3% í júní (-0,01% í VNV), en þar höfðum við gert ráð fyrir óverulegum verðbreytingum.

Verð á mat og drykk var nánast óbreytt í júnímælingunni frá síðasta mánuði (0,0% í VNV). Margir undirliðir lækkuðu, en áhrifin voru einna mest af 4,7% verðlækkun grænmetis (-0,06% í VNV), 0,7% lækkun á kjöti (-0,02% í VNV) og 0,8% lækkun á fiski (-0,01% í VNV). Á móti vó 6,8% verðhækkun á ávöxtum (0,07% í VNV).

Verðbólga hófleg fram á haustið

Verðbólguhorfur fyrir næstu mánuði eru svipaðar og fyrr að okkar mati. Þó gæti hækkun húsnæðisliðar orðið meiri í júlí en við gerum nú ráð fyrir (0,7%), þegar kaupsamningar sem gerðir hafa verið á með verkfall BHM stóð yfir detta inn í mælingu á reiknaðri húsaleigu. Auk þess gæti greidd húsaleiga hækkað talsvert í júlí eftir lækkunina nú í júní. Þessir þættir vega þó ekki nægilega þungt til þess að breyta júníspá okkar enn sem komið er. Verðbólguþróun næstu mánaða litast að vanda talsvert af sumarútsölum, sem þrýsta niður VNV í júlí en ýta vísitölunni upp að nýju í ágúst og september. Auk þess má búast við að verðskrárhækkun tengd afþreyingu, tómstundum og námi vegi til hækkunar VNV í september líkt og undanfarin ár. Bráðabirgðaspá okkar nú gerir ráð fyrir að VNV lækki um 0,2% í júlí, 0,4% hækkun í ágúst og 0,3% hækkun í september. Verðbólga verður skv. spánni 2,1% í september 2015.

Í kjölfarið má búast við stíganda í árstakti verðbólgunnar. Er það bæði vegna þess að tímabil verðstöðnunar á seinni hluta síðasta árs hverfur jafnt og þétt úr 12 mánaða mælingu VNV og eins mun vaxandi innlendur kostnaðarþrýstingur fara að segja til sín, ekki síst hækkandi launakostnaður á almennum markaði. Teljum við að verðbólgan fari yfir 3% fyrir lok árs, og að á næsta ári verði hún að jafnaði nokkuð yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall