Fréttir Greiningar

Hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóðanna dregst saman

08.10.2013 10:45

nullHlutfall erlendrar verðbréfaeignar til greiðslu lífeyris hefur dregist töluvert saman frá hruni, en í ágúst mánuði nam hlutfallið 22%. Á árunum 2006-2010 var hlutfallið í kringum 30% en á árinu 2010 fór hlutfallið síðan að dragast hratt saman og hefur síðast liðin 2 ár verið rétt rúm 20%. Erlendar eignir sjóðanna hafa staðið því sem næst í stað frá hruni í krónum talið og lengst af flökt í kringum 500 m.kr. Í ljósi þess að sjóðirnir hafa ekki heimild til erlendra fjárfestinga þá er það fyrst og fremst þróun erlendra markaða sem hefur áhrif á flökt þessarar stærðar sem og flutningur hluta fjármuna sjóðanna til landsins. Ástæða þessa flutnings til landsins er sú áhersla sem hefur verið á, að hálfu stjórnvalda, að lífeyrissjóðirnir legðu til gjaldeyri til að losa hluta af krónueign erlendra aðila. Ber þar hæst annars vegar Avens-viðskiptin svokölluðu, þar sem sjóðirnir keyptu í raun verulegt magn ríkistryggðra bréfa af Seðlabanka Luxemborgar með milligöngu ríkissjóðs, og hins vegar gjaldeyrisútboð Seðlabankans þar sem sjóðirnir hafa keypt verðtryggð ríkisbréf.

Megnið af erlendum eignum í hlutbréfum

nullMegnið af erlendri verðbréfaeign lífeyrissjóðanna hefur verið í hlutabréfum og varð engin breyting þar á við hrun. Í ágúst mánuði voru 88% erlendra eigna í hlutabréfum og hlutabréfasjóðum en 12% í skuldabréfum og skuldabréfasjóðum.

Á meðan lífeyrissjóðirnir hafa ekki útgöngu með sína fjármuni úr íslenskri landhelgi standa líkur til að hlutfall erlendra verðbréfaeignar muni halda áfram að dragast saman á næstu misserum. Það leiðir til þess að heldur dregur úr heildar áhættudreifingu eignasafns sjóðanna.

Sjóðunum er heimilt að eiga eignir í öðrum gjaldmiðlum en krónu sem nemur allt að 50% af heildareignum, og víst er að margir þeirra vilja gjarnan auka hlutfall erlendra eigna þegar frá líður. Þannig mat Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fyrr á árinu líklegt gjaldeyrisútflæði vegna aukinna erlendra fjárfestinga lífeyrissjóðanna eftir að höftum er aflétt. Var niðurstaða sjóðsins, miðað við tilteknar forsendur, að það gæti numið ríflega 18% af VLF, eða sem nemur nálægt 300 – 350 mö.kr.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall