Fréttir Greiningar

Breyting á veiðigjöldum

25.04.2014 10:47

Atvinnuvegaráðuneytið tilkynnt 23. apríl sl. að kynnt hefði verið fyrir þingflokkum stjórnarflokkanna frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á lögum um veiðigjöld sem gildir fyrir næsta fiskveiðiár.   Að teknu tilliti til afkomu í sjávarútvegi er um sambærilega álagningu veiðigjaldanna að ræða og á yfirstandandi fiskveiðiári.

Greiða um 8 ma.kr.

Áætlanir ráðuneytisins eru að veiðigjöld muni nema 9,5 mö.kr á næsta fiskveiðiári en sú tala lækkar vegna frádráttarliða þ.e. vegna frítekjumarks og tímabundinnar skuldalækkunar. Áætlun ráðuneytisins er að þessir liðir muni lækka brúttó veiðigjöldin um 1,5 ma.kr. Byggir þessi áætlun á því að heildaraflamark íslenskra skipa á fiskveiðiárinu verði um 515 þúsund þorskígildistonn. Heildarfjárhæð veiðigjaldanna er ákveðin þannig að hún sé samtala 35% af hagnaði ársins 2012 án áhrifa tekjuskatts af veiðum og 20% af hagnaði fiskvinnslu. Áætlað er því að tekjur ríkisins muni nema um 8 mö.kr. á komandi fiskveiðiári.  Fjárlög 2014 gera ráð fyrir að tekjur af veiðigjöldum muni nema 9,77 mö.kr.

Enn frekari frestun á heildarlausn

Í tilkynningu ráðuneytisins kemur einnig fram að ákveðið hefur verið að fresta því fram á vetur að leggja fram frumvarp um samningaleið (samninga um veiðirétt og leigugjald) í sjávarútvegi og leigugjald sem unnið hefur verið að.  Ástæða þess að frestun verður á framlagningu frumvarps um þetta er að sögn ráðuneytisins að óleyst eru tæknilega úrlausnarefni, fáir þingdagar séu eftir og um svo umfangsmikið mál sé að ræða sem þarfnist ítarlegrar umræðu sem rúmist ekki innan svo fárra þingdaga. 

Ráðuneytið lýsir yfir vonbrigðum að ekki hafi náðst að koma fram með þá heildarlausn sem samningaleiðin var hluti af, en samningaleiðin átti að vera í anda sáttanefndarinnar svokallaðrar þar sem innleiða átti samninga um veiðirétt og leigugjald til lengri tíma.   Það var hluti af stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar að lög um veiðigjöld skyldu tekin til endurskoðunar.  Þar var einnig lýst vilja til að efla sátt um framtíðarskipulag sjávarútvegs með því að vinna áfram með tillögu frá september 2010 frá sáttanefndinni, um að samningsbundin tímabundin réttindi um nýtingu aflaheimilda taki við af ótímabundinni úthlutun.

Við ákvörðun um heildarfjárhæð veiðigjalda samkvæmt frumvarpinu var byggt á því að álagningin væri sambærileg þeirri sem ákveðin var fyrir yfirstandandi fiskveiðiár að teknu tilliti til breytinga á ytri aðstæðum sjávarútvegsins, m.a. lakari verði á mörkuðum um vísbendinga um versnandi afkomu sjávarútvegsfyrirtækja árið 2013.  Þannig má benda á að verðvísitala sjávarafurða hefur lækkað umtalsvert á síðustu misserum. Þá eru horfur á alþjóðlegum mörkuðum slæmar.

Afkomustuðlar og meginefni frumvarpsins.

Meginefni frumvarpsins er að grunnur útreiknings veiðigjaldsins á komandi fiskveiðiári er svokallaðir afkomustuðlar fyrir veiðar á hverri fisktegund. Afkomustuðlar eru reiknaðir út frá tekjum og kostnaði af veiðum samkvæmt tilteknum skilgreiningum og veiðigjöldunum verður síðan dreift á fisktegundir samkvæmt þeim.  Tilgangur þessara afkomustuðla er að jafna niður veiðigjöldum á einstaka fiskistofna sem byggjast á framlegð við veiðiúthald.

Veiðigjöldin verða einnig ákveðin sem föst krónutala á afla úr sjó á fiskveiðiárinu 2014/2015.   Áður fyrr féll niður álagning veiðigjalds  þ.e. þannig að af fyrstu 30.000 þorskígildiskílóum greiðist ekkert gjald og 70.000 þorskígildiskílóum þar á eftir greiðist hálft gjald.  Álagningin á gjaldinu núna byggir ekki á þorskígildiskílóum og því var nauðsynlegt að breyta þessar aðferð.

Frítekjumark er skilgreint sem 250 þ.kr. og veiðigjöld undir því falla niður.  Þá tekur afsláttur vegna skulda sem stofnað hafi verið til vegna kaupa á aflaheimildum breytingum. Gildistími hans er styttur um 1 ár og afslátturinn reiknast upp árlega þannig að tekið er mið af skuldastöðu á hverjum tíma.

Greiða einnig tekjuskatt

Ekki má líta framhjá því að félög sem greiða veiðigjaldið, greiða einnig lögbundinn tekjuskatt af hagnaði sínum og í útreikningi á honum eru veiðigjöld frádráttarbært.   Tekjuskattsgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja hafa verið að hækka verulega síðustu árin, en sé litið til gjaldfærðs tekjuskatts í ársreikningum félaganna sést ekki þessi þróun. Ástæðan liggur í því að hækkunin á eiginlegum tekjuskattsgreiðslum helst í hendur við sífellt minni stofna af yfirfæranlegu skattalegu tapi jafnvel þótt gjaldfærður tekjuskattur sveiflist ekki með sama hætti.

Veiðigjöld HB Granda

Í dag er fyrsti viðskiptadagur með hlutabréf HB Granda á Aðallista Kauphallarinnar.   Útboðsgengið var 27,7 kr. á hlut í báðum tilboðsbókum útboðsins en útboðið nam 27% af útgefnum hlutum í HB Granda. Gengi bréfa félagsins er nú þegar þetta er ritað í útboðsgenginu en viðskipti hafa verið lítil með félagið það sem af er morgni.

Félagið er hefur til ráðstöfunar rúm 12% af heildarverðmæti aflahlutdeilda allra tegunda.  Á árinu 2013 gjaldfærði félagið um 1,8 ma. kr. vegna veiðigjalda (2012: 915 m.kr). Mjög erfitt er að áætla hver áhrif af ofangreindu frumvarpi verða á félagið en líkur eru til að samhliða lækkun veiðigjaldsins muni rekstur félagsins verða þungur á fiskveiðiárinu 2014/2015 vegna aðstæðna á mörkuðum erlendis ásamt því að lægri veiðigjöld leiða til hærri tekjuskattsgreiðslna en ella.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall