Fréttir Greiningar

Litlar breytingar á verðbólgutaktinum í september

27.09.2018 12:01

 Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,24% september skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 2,7% en var 2,6% í ágúst. Verðbólga er því áfram rétt við markmið Seðlabankans. VNV án húsnæðis hækkaði um 0,26% í september og m.v. þá vísitölu mælist 1,8% verðbólga undanfarna 12 mánuði. 

 

Mæling septembermánaðar er aðeins undir spám greiningardeilda bankanna. Við spáðum 0,3% hækkun VNV milli mánaða og liggur helsti munurinn á spá okkar og niðurstöðu Hagstofu í meiri hækkun á fatnaði og skóm en við gerðum ráð fyrir en á móti meiri lækkun í liðnum ferðir og flutningar sem og lítilsháttar lækkun í ýmsum liðum á borð við heilsu.

Íbúðaverð í jafnvægi?

Hækkun íbúðaverðs í septembermánuði var nokkuð hófleg líkt og í ágústmánuði eftir myndarlega hækkun síðustu mánuði þar á undan. Í september hækkaði húsnæðisliðurinn í heild um 0,27% (0,09% í VNV). Greidd húsaleiga hækkaði um 0,99% (0,04% í VNV) og reiknuð húsaleiga sem byggir að mestu á þróun íbúðaverðs hækkaði um 0,19% (0,04% í VNV)

Undirvísitölur Hagstofunnar fyrir markaðsverð íbúðarhúsnæðis sýna þróunina eftir tegund og staðsetningu húsnæðis. Á höfuðborgarsvæðinu hækkaði fjölbýli um 0,6% milli mánaða en sérbýli lækkuðu um 0,6%. Mest hækkar verð á landsbyggðinni, eða um 0,6%, og hefur verð á landsbyggðinni hækkað mest á árinu eða um 13,4%.

Undanfarið hefur dregið úr hækkunartakti íbúðaverðs hér á landi sem fór hæst síðasta sumar. Virðist sem jafnvægi sé að myndast á markaði þessa dagana enda hefur framboð íbúða á höfuðborgarsvæðinu verið að aukast jafnt og þétt. Hröð hækkun íbúðaverðs á landsbyggðinni undanfarið er þó athyglisverð og er líkleg ástæða vaxandi eftirspurn eftir eignum í stórum þéttbýliskjörnum nálægt höfuðborgarsvæðinu á borð við Reykjanesbæ og Árborg.

Flugfargjöld og heilsuliður lækka

Liðurinn ferðir og flutningar lækkaði í heild um 1,47% (-0,25% í VNV) og þar vó mest liðurinn flutningar í lofti sem lækkaði um 22,6% (-0,38% í VNV). Er það örlítið meiri lækkun en við gerðum ráð fyrir, en um árstíðabundna lækkun er að ræða þar sem algengt er að þessi liður lækki á haustin eftir hækkanir yfir sumartímann. Einnig lækkaði liðurinn heilsa um 1,82 (-0,07% í VNV).

Útsölulok hafa talsvert að segja um hækkun VNV í septembermánuði. Verð á fötum og skóm hækkaði um 8,74% (0,29% í VNV) og húsgögn og heimilisbúnaður hækkaði í verði um 1,79% (0,07% í VNV). Einnig hækkaði verð á matar- og drykkjarvörum um 1,19% (0,13% í VNV) og liðurinn tómstundir og menning hækkaði um 0,65% (0,06% í VNV).

Aukin verðbólga næstu mánuði

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn muni aðeins hækka næstu mánuðina og mun verðbólga áfram vera örlítið yfir 2,5% markmiði Seðlabankans. Bráðabirgðaspá okkar hljóðar upp á 0,3 hækkun VNV í október, 0,1% hækkun í nóvember og 0,4% hækkun í desember. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,9% í desember.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall