Fréttir Greiningar

Íslendingar flýja kuldann

03.06.2015 11:27

Talsverð fjölgun var á brottförum Íslendinga um Keflavíkurflugvöll (KEF) í nýliðnum maímánuði, þó hún hafi ekki náð sömu hæðum og hjá erlendum ferðamönnum eins og vikið er að hér síðar. Fóru alls 41,4 þús. Íslendingar frá landinu um KEF í mánuðinum, sem er fjölgun upp á 11,8% frá því í maí í fyrra. Við efumst ekki um að veðráttan hafi spilað stóra rullu hér, og má ætla að útþrá landsmanna hafi vaxið jafnt og þétt með degi hverjum þennan kaldasta maímánuð á Íslandi í 33 ár. Má því gera því skóna að Íslendingar hafi verið mjög ákafir við að panta sér ferð út fyrir landsteinanna nú í sumar, og þá að mikil fjölgun verði því á utanlandsferðum enda margir hverjir orðnir ærið svartsýnir á að sumarið láti sjá sig. Þetta má sjá í tölum Ferðamálastofu Íslands um brottfarir um KEF sem birtar voru í gær. 

Helmingur þjóðarinnar farið utan í ár

Frá áramótum talið hafa alls 160,7 þús. Íslendingar farið til útlanda, sem er aukning upp á 11,9% frá sama tímabili í fyrra. Þetta jafngildir því að upp undir helmingur landsmanna hafi látið undan útþrá sinni og haldið utan á tímabilinu. Þetta hlutfall var 44% í fyrra á þessu sama tímabili. Það fór hins vegar lægst í 31% árið 2009 en var hæst árið 2008 þegar brottfarir um KEF á fyrstu 5 mánuðum ársins námu 57% af mannfjölda. 

Ævintýralegur vöxtur í brottförum ferðamanna

Alls fóru 91,0 þús. erlendir ferðamenn frá landinu um KEF í maí sl., sem er 24,3 þús. fleiri en á sama tíma í fyrra. Jafngildir þetta fjölgun upp á 36,4%, sem er mesta fjölgun í prósentum talið á milli ára allt frá því í janúar í fyrra, og í raun um sjöunda mestu fjölgunina að ræða frá því að Ferðamálastofa hóf talningar á KEF. Eru brottfarir erlendra ferðamanna þar með komnar upp í 379,7 þús. á fyrstu fimm mánuðum ársins samanborið við 291,2 þús. á sama tímabili í fyrra, sem jafngildir 30,4% fjölgun milli ára eða sem nemur 88,6 þús. ferðamönnum. Þessi ævintýralegi vöxtur hefur leitt til þess að ferðamenn eru nú þegar orðnir fleiri en þeir voru allt árið 2005 og ávallt fyrir þann tíma.

Ferðamannajöfnuður aldrei jákvæðari

Í maí var ferðamannajöfnuður, þ.e. brottfarir erlendra gesta umfram Íslendinga, jákvæður um 49,6 þús. samanborið við 29,7 þús. í maí í fyrra. Á fyrstu fimm mánuðum ársins er ferðamannajöfnuður þar með jákvæður um 219,0 þús. samanborið við 147,5 þús. á sama tímabili í fyrra. Horfir því vel fyrir þjónustujöfnuð á 2. ársfjórðungi, en það er í öllu falli orðið ljóst að þjónustuútflutningur, og þá sér í lagi ferðaþjónustan, gegnir lykilhlutverki við að afla gjaldeyristekna fyrir þjóðarbúið eins og mátti sjá í tölum um þjónustujöfnuð á 1. ársfjórðungi. Við gerum ráð fyrir að þjónustuafgangur standi undir meginhluta þess viðskiptaafgangs sem við spáum í ár, en hann mun að mati okkar nema 4,9% af vergri landsframleiðslu. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall