Fréttir Greiningar

Hægari hagvöxtur en vænst var á fyrri helmingi ársins

08.09.2017 14:05

Minni vöxtur fjárfestingar atvinnuvega og þjónustuútflutnings eru helstu ástæður þess að hagvöxtur var með hóflegra móti á fyrri helmingi ársins, samanborið við síðustu misseri. Hagvöxtur síðasta árs var hins vegar endurskoðaður til hækkunar, og virðist ljóst að toppi hagsveiflunnar hafi verið náð á því ári.

Hagvöxtur á fyrri helmingi yfirstandandi árs var 4,3% m.v. sama tímabil í fyrra samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Er það svipaður vöxtur og mældist á fyrri helmingi síðasta árs, en talsvert hægari vöxtur en var á árinu 2016 í heild. Vöxturinn á fyrri helmingi ársins er nokkuð undir flestum spám fyrir árið 2017 í heild, og eru ástæðurnar helst hægari vöxtur fjármunamyndunar og  útflutnings. Á móti hefur innflutningur einnig aukist heldur minna en vænta mátti.

Verulegur vöxtur einkaneyslu

Einkaneysla á fyrri helmingi ársins 2017 jókst um 8,3% samanborið við fyrstu sex mánuði ársins 2016. Sér í lagi var einkaneysluvöxturinn hraður á öðrum fjórðungi ársins, en þá nam hann um 9,5% milli ára. Þetta er mesti vöxtur einkaneyslu síðan á fjórða ársfjórðungi 2007. Virðist ljóst að landsmenn hafa nýtt sér hátt raungengi krónu til hins ýtrasta með kaupum á varanlegum neysluvörum og auknum utanlandsferðum, eins og endurspeglast hefur í kortaveltutölum og öðrum hagvísum undanfarið.

Hægir á vexti fjárfestingar atvinnuvega

Fjárfesting fyrstu sex mánuði ársins 2017 jókst um 5,2% borið saman við sama tíma 2016. Það er mun hægari vöxtur en við áttum von á. Vöxtinn má að mestu rekja til íbúðafjárfestingar sem jókst um 28,6%, en íbúðafjárfesting tók mikinn kipp eftir mitt síðasta ár og virðist enn vera í hröðum vexti. Á sama tíma jókst fjárfesting atvinnuveganna um 1,3% og fjárfesting hins opinbera um 5,6%. Lítill vöxtur fjárfestingar atvinnuvega vekur athygli. Að frádreginni fjárfestingu í skipum og flugvélum jókst atvinnuvegafjárfesting um 8,4% og fjárfesting alls um 11,5% borið saman við sama tíma í fyrra.

Minni útflutningsvöxtur 

Útflutningur á fyrri hluta ársins 2017 jókst um 6,4% borið saman við fyrstu sex mánuði síðasta árs. Þar af jókst vöruútflutningur um 1,5% og þjónustuútflutningur um 12,2%. Á sama tíma jókst innflutningur um 10%. Þar af jókst vöruinnflutningur um 5,4% og þjónustuinnflutningur um 18,9%. Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar var því neikvætt á tímabilinu. Tölur um raunvöxt þjónustuútflutnings ríma við aðrar nýlegar hagtölur sem benda til þess að hausatalning ferðamanna segi langt í frá alla söguna um vöxt ferðaþjónustunnar milli ára. Er greinilegt að hver ferðamaður eyðir nú umtalsvert minna í krónum talið meðan hann dvelur á Íslandi en raunin var í fyrra.

Hagvaxtartoppur árið 2016

Hagstofan birti einnig endurskoðun á landsframleiðslu síðustu ára. Vöxtur landsframleiðslunnar nam 7,4% að raungildi á árinu 2016 og er hún nú 11% meiri en árið 2008. Einkaneysla og fjárfesting vógu þyngst í vexti landsframleiðslunnar en alls jukust þjóðarútgjöld um 8,9%. Einkaneysla jókst um 7,1%, samneysla um 1,9% og fjárfesting um 22,8%. Árlegur vöxtur einkaneyslu hefur ekki mælst meiri frá árinu 2005.

Hér þarf þó að hafa í huga hversu hlutfall einkaneyslu af landsframleiðslu lækkaði skarpt undir lok síðasta áratugar. Árið 2016 reyndist hlutfall einkaneyslu af landsframleiðslu vera 49,5% sem er lægsta hlutfall frá því mælingar hófust árið 1945. Í sögulegu samhengi hefur þetta hlutfall verið mjög lágt frá árinu 2008 eða að meðaltali 51,8% samanborið við 58,4% á tímabilinu 1980 til 2007.

Mikill vöxtur í fjárfestingu í fyrra

Fjárfesting jókst um 22,8% á síðasta ári, en árlegur vöxtur fjárfestingar hefur ekki mælst meiri síðan árið 2006. Umtalsverð aukning var í fjárfestingu atvinnuveganna, eða 26,4% og sömuleiðis í íbúðafjárfestingu, eða 29,4%. Sér í lagi óx íbúðafjárfesting hratt á seinni hluta síðasta árs. Hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu var 21,3% á árinu 2016 sem er töluvert nær sögulegu meðaltali en verið hefur síðustu ár.

Þjónustuútflutningur orðinn meiri en vöruútflutningur 

Útflutningur jókst um 10,9% á árinu 2016. Þar af nam aukning í útflutningi þjónustu 18,6% og vöruútflutningi 3,7%. Þetta er í fyrsta skipti frá því að gerð þjóðhagsreikninga hófst árið 1945 sem tekjur af útfluttri þjónustu mælast hærri en tekjur af vöruútflutningi. Vöxtur innflutnings nam 14,5% á árinu 2016 og dró utanríkisverslun því úr hagvexti þrátt fyrir 155,4 milljarða króna afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum á liðnu ári. Er það áttunda árið í röð sem afgangur er af utanríkisviðskiptum Íslands.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall