Fréttir Greiningar

Spáum 0,3% hækkun neysluverðs í ágúst

15.08.2014 09:53

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,3% í ágúst. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða taktur verðbólgu hjaðna lítillega, úr 2,4% í 2,3%. 

Verðbólguhorfur eru sem fyrr ágætar út yfirstandandi ár. Við gerum ráð fyrir að verðbólgan muni verða nærri verðbólgumarkmiði Seðlabankans út árið. Í kjölfarið spáum við aukinni verðbólgu eftir því sem hjól efnahagslífsins fara að snúast hraðar, þótt verðbólga verði áfram minni en hún hefur verið undanfarin ár. Hagstofan birtir VNV fyrir ágúst kl.09:00 þann 27. ágúst næstkomandi.

Útsölulok og húsnæði til hækkunar..

Að vanda munu útsölulok vega talsvert þungt til hækkunar VNV í ágúst. Við gerum ráð fyrir svipuðum áhrifum útsöluloka nú og undanfarin ár, og teljum að þau verði til 0,3% hækkunar VNV. 

Þá gerum við ráð fyrir að hækkun á húsnæðislið VNV hafi áhrif til 0,1% hækkunar ágúst. Vísbendingar eru af markaði um að reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar breytingar á íbúðaverði, muni hækka um 0,6% í ágúst eftir lækkun í júní og kyrrstöðu í júlí. 

..en flug og eldsneyti til lækkunar 

Hins vegar lítur út fyrir að ferða- og flutningaliður VNV muni lækka talsvert í ágúst (-0,17% áhrif í VNV) vegna lækkunar á tveimur veigamiklum undirliðum. Annars vegar er hér um að ræða eldsneyti (-0,07% í VNV), en eldsneytisverð hefur lækkað talsvert á íslenskum bensínstöðum í kjölfar lækkunar á heimsmarkaðsverði undanfarið. Hins vegar teljum við að flugfargjöld til útlanda muni lækka talsvert eftir mikla hækkun í júní og júlí (-0,09% í VNV). Aðrir liðir hafa minni áhrif, en vega samanlagt til u.þ.b. 0,05% hækkunar VNV í spá okkar.

Verðbólga svipuð út árið 

Það sem eftir lifir árs teljum við að verðbólga verði áfram hófleg. Útsölulok og árstíðabundin verðhækkun á þjónustuliðum tengdum afþreyingu, menningu og íþróttaiðkun munu væntanlega setja svip sinn á september, og spáum við 0,5% hækkun VNV í þeim mánuði. Í október og nóvember gerum við ráð fyrir 0,2% hækkun VNV í hvorum mánuði, og í desember spáum við 0,3% hækkun VNV. Samkvæmt þeirri spá mun verðbólga mælast 2,3% í árslok.

Á næsta ári spáum við nokkuð meiri  verðbólgu en á yfirstandandi ári. Aukinn snúningshraði hjóla efnahagslífsins mun væntanlega endurspeglast í hraðari hækkun launa og áframhaldandi raunhækkun fasteignaverðs. Við gerum ráð fyrir að verðbólga verði að jafnaði 3,0% á árinu 2015 og 3,1% á árinu 2016. 

Helstu forsendur langtímaspár okkar eru að íbúðaverð hækki um 5% - 7% á hverju ári út spátímann, laun muni hækka hraðar á næstu misserum samhliða meiri spennu á vinnumarkaði og að litlar breytingar verði á gengi krónu. 

Verðbólguspá fyrir ágúst

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall