Fréttir Greiningar

Væntingar neytenda breytast lítið

27.11.2013 08:16

nullLítil breyting var á væntingum íslenskra neytenda á milli október og nóvember, og eru þeir þar með áfram fremur svartsýnir á stöðu og horfur í efnahagslífinu. Þetta sýnir mæling Væntingavísitölu Gallup (VVG) fyrir nóvembermánuð sem var birt í gær. Vísitalan mælist nú 68,4 stig, hækkar um 0,8 stig frá októbermánuði en mælist 7,5 stigum lægri en fyrir ári síðan.

Mismunandi þróun var á undirvísitölum VVG í nóvembermánuði. Þannig hækkar mat á efnahagslífinu um 11,2 stig og mælist nú 55,9 stig og væntingar til aðstæðna í efnahags- og atvinnumálum eftir 6 mánuði hækka um 2,4 stig og mælast 93,9 stig. Á hinn bóginn lækkar mat á núverandi ástandi um 1,6 stig og mælist 30,1 stig, og mat á atvinnuástandinu lækkar um 1,1 stig og mælist 73 stig.

Dregur úr svartsýni kvenna en eykst hjá körlum

nullÓlík þróun var á væntingum hjá konum og körlum í nóvember. Þannig hækkar VVG hjá konum um 5,6 stig á milli mánaða en lækkar hjá körlum um 3,9 stig, og samkvæmt þessu virðist því hafa dregið úr svartsýni kvenna á sama tíma og hún hefur aukist hjá körlum. Þrátt fyrir þessa þróun er VVG kvenna enn mun lægri en VVG karla, eða 55,0 stig á móti 80,5 stigum, sem þýðir að konur eru mun svartsýnni en karlar þessa daganna. Það er þó síður en svo nýtt á nálinni enda hefur slíkt verið upp á teningnum í 147 mælingum af 153, eða 96% tilvika. Samkvæmt þessu virðast konur kerfisbundið hafa minni væntingar um efnahags- og atvinnulífið en karlar.

Mun útfærslan í vikunni hafa áhrif?

Þróun VVG nú í nóvember kemur í raun ekki á óvart, enda hefur fátt dregið til tíðinda að undanförnu sem hreyfir við væntingum neytenda. Jafnframt eru margir hverjir að bíða eftir útfærslu á kosningaloforðum ríkisstjórnarflokkana um niðurfærslu á verðtryggðum íbúðalánum og skattfrjálsar innborganir inn á höfuðstól lána. Sú niðurstaða mun eflaust hafa sitt að segja um hvernig væntingar neytenda munu þróast í desember, en fá  kosningaloforð virðast hafa hreyft meira við væntingum neytenda í kringum alþingiskosningar undanfarinn áratug og loforð um skuldaniðurfærsluna nú, ef marka má miklar sveiflur í Væntingavísitölunni á vordögum.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall