Fréttir Greiningar

Þjóðhagsspá: Þáttaskil í íslensku efnahagslífi

15.10.2015 12:35

  • Þáttaskil eru að eiga sér stað í íslensku efnahagslífi. Eftir tímabil talsverðs slaka eru nú farin að sjást merki um spennu á vissum sviðum hagkerfisins. 
  • Hagvöxtur í núverandi uppsveiflu hefur verið fremur hóflegur í sögulegu samhengi. Við reiknum með að breyting verði á því í ár og spáum við talsvert meiri vexti en hingað til hefur mælst í þessari uppsveiflu.
  • Spáum við 4,3% hagvexti í ár og viðlíka hagvexti á næsta ári, eða 4,4%, en talsvert hægari á árinu 2017, eða 2,5%.
  • Þenslueinkenna er nú farið að gæta á vissum sviðum efnahagslífsins. Eru þau sýnileg t.d. á vinnumarkaði og eignamarkaði, en framundan er að okkar mati talsvert hröð hækkun launa og húsnæðisverðs.
  • Í þessari uppsveiflu hefur útflutningur hingað til verið veigamesti þátturinn í hagvexti. Spáum við því að hagvöxtur í ár og á næstu tveimur árum verði byggður á verulegum vexti í innlendri eftirspurn og að hún komi til með að vega mun þyngra í hagvexti á spátímabilinu en hún hefur áður gert í þessari uppsveiflu.
  • Við spáum áframhaldandi vexti í útflutningi, sem áfram má að stórum hluta rekja til ferðaþjónustunnar en þó einnig til sjávarútvegs. Spáum við 7,7% vexti útflutnings vöru og þjónustu í ár, 3,8% á næsta ári og 3,1% árið 2017.
  • Þrátt fyrir fremur hóflegan hagvöxt síðustu ár hefur hann verið nægur til að skapa talsverðan fjölda starfa, enda hefur vöxturinn að stórum hluta tengst mannaflsfrekum greinum, sér í lagi ferðaþjónustu. Þannig hefur dregið nokkuð hratt úr atvinnuleysi, og reiknum við með að það verði komið niður í 3,5% árið 2017 samanborið við 5,0% í fyrra.
  • Að okkar mati verður vinnuaflsþörf hagkerfisins á spátímabilinu mætt með innflutningi á vinnuafli að stórum hluta og mun meiri en við höfum áður séð í þessari uppsveiflu. Mun þetta draga úr þenslu á vinnumarkaði og gera það að verkum að launaskrið verður minna en ella.
  • Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hefur verið að aukast og eiginfjárstaða heimilanna að batna með hækkun á eignaverði, þ.m.t. íbúðaverði, og lækkun á skuldum heimilanna. Reiknum við með því að hagur heimilanna muni halda áfram að vænkast á næstunni sem mun birtast í aukinni neyslu sem og fjárfestingum heimilanna. Spáum við 4,8% vexti einkaneyslu í ár, 5,2% á næsta ári og 2,8% 2017.
  • Rekstrarskilyrði fyrirtækja eru að taka talsverðum breytingum um þessar mundir. Töluverður vöxtur er í innlendri eftirspurn en hagvöxtur í helstu viðskiptalöndunum hefur aftur á móti verið hægur.
  • Við reiknum með því að áfram verði umtalsverður munur í eftirspurnarvexti innanlands og erlendis. Raungengi krónunnar hefur hækkað talsvert, sem skerðir samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem helst keppa við erlend fyrirtæki og kemur m.a. niður á ferðaþjónustunni sem hefur verið í örum vexti undanfarið.
  • Reiknum við með því að fjárfestingar atvinnuveganna muni færast í aukana á næstunni. Spáum við 23,9% vexti þeirra í ár og 18,8% á næsta ári. Hins vegar mun að okkar mati draga úr þeim á árinu 2017 um 1,9%.
  • Við reiknum með að verðbólgan muni haldast nálægt verðbólgumarkmiði Seðlabankans næsta kastið en aukast síðan þegar líða tekur á spátímabilið og fara nokkuð yfir verðbólgumarkmið bankans. Mun peningastefnunefnd Seðlabankans bregðast við þessari þróun með frekari hækkun stýrivaxta.
  • Yfirstandandi ferli við losun fjármagnshafta skapar óvissu um þróun efnahagsmála á næstunni. Um er að ræða afar stóra framkvæmd þar sem áhrif á peningastærðir og raunhagkerfið eru alls ekki með öllu fyrirséð. Óvíst er þannig með hvaða hætti þær aðgerðir munu hafa áhrif á stöðugleika hagkerfisins til skemmri tíma litið þó að losun fjármagnshafta sé afar jákvætt skref fyrir íslenskt efnahagslíf og stór hluti af þeim þáttaskilum sem eru að eiga sér stað í hagkerfinu um þessar mundir.
  • Hætta er á því að ofþensla myndist í hagkerfinu á spátímabilinu þar sem ójafnvægi skapast með of miklum vexti innlendrar eftirspurnar og launahækkunum umfram það sem innistæða er fyrir. Slík þróun mun á endanum leiða til samdráttar hagkerfisins og leiðréttingar í formi lækkunar gengis krónunnar, verðbólguskots, aukins atvinnuleysis og rýrnunar kaupmáttar svo eitthvað sé talið af neikvæðum fylgifiskum slíkrar þróunar, sem vel er þekkt hér á landi frá fyrri hagsveiflum.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall