Fréttir Greiningar

Spáum óbreyttum stýrivöxtum 2. október

27.09.2013 09:44

Við spáum því að Seðlabankinn muni halda stýrivöxtum sínum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi, sem verður 2. október næstkomandi. Meginforsenda spárinnar er að  verðbólgu- og hagvaxtarþróun hefur verið í takti við spá bankans, verðbólgan er svipuð því sem hún var við síðustu vaxtaákvörðun og hagvöxtur hefur verið fremur hægur.

 
nullÞrýstingur á hækkun vaxta hefur hins vegar aukist og kann það að kalla á eitthvað aðhaldssamari tón í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar og jafnvel kann það að vekja vaxtahauk nefndarinnar, sem hefur greitt atkvæði sitt með óbreyttum vöxtum á síðustu vaxtaákvörðunarfundum. Talsverður kraftur er í vinnumarkaðinum og framleiðnivöxtur lítill og virðast verðbólguhorfur til lengri tíma hafa versnað í þessu ljósi frá síðustu spá Seðlabankans sem birt var í ágúst. Þá hefur gengi krónunnar lækkað frá síðustu vaxtaákvörðun.

Auk þessa er talsverð óvissa tengd bæði kjarasamningum í vetur og fjárlögum nýrrar ríkisstjórnar, en fyrsta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar verður lagt fram deginum fyrir næstu vaxtaákvörðun. Mun nefndin eflaust halda inni þeim varnaðarorðum sem hún var með varðandi þessa tvo þætti í yfirlýsingu sinni vegna vaxtaákvörðunarinnar í ágúst.  

Gengi krónunnar hefur veikst frá síðustu vaxtaákvörðun

nullGengi krónunnar, miðað við viðskiptavegið meðalgengi krónunnar á innlendum gjaldeyrismarkaði,  hefur lækkað um ríflega 2% frá síðasta fundi peningastefnunefndarinnar í ágúst.  Þá er gengi krónunnar lægra en gengið er út frá í nýjustu verðbólguspá Seðlabankans sem birt var samhliða vaxtaákvörðuninni í ágúst sl. Var gengisvísitala krónunnar m.v. þrönga viðskiptavog sett þar föst í 215,3 út spátímabilið en nú stendur hún í 219,5 sem merkir að krónan er nú 2% lægri en í spánni. Í þessu felast nokkuð lakari verðbólguhorfur en bankinn spáir en m.v. þessa gengisvísitölu spáði bankinn því að verðbólgan myndi hjaðna nokkuð á næsta ári og að verðbólgumarkmið hans yrði í höfn undir lok spátímabilsins þ.e. á fyrri hluta árs 2016.

Verðbólgan í takti við spá bankans

Verðbólga hefur aukist úr 3,8% í 3,9% frá síðustu vaxtaákvörðun. Í síðustu verðbólguspá  Seðlabankans, sem lögð var fram samhliða vaxtaákvörðuninni 15. maí sl., reiknaði bankinn með því að verðbólgan á þriðja ársfjórðungi þessa árs yrði 4,0%. Gekk sú spá eftir. Þá spáði bankinn því að verðbólgan myndi aukast aðeins á fjórða ársfjórðungi og verða 4,1% að meðaltali á þeim fjórðungi. Er þetta sama verðbólga og við teljum að verði á fjórðungnum.

 
Í síðustu verðbólguspá Seðlabankans kemur fram að hann telur að verðbólgan muni hjaðna þegar kemur fram á næsta ár. Spáir hann því að verðbólgan verði komin niður í 3,0% undir lok þess árs. Að mati bankans verður verðbólgumarkmiðinu hins vegar ekki náð fyrr en á fyrri hluta árs 2016 líkt og áður sagði. Er þetta talsvert minni verðbólga en við spáum, en spá okkar gerir ráð fyrir því að verðbólgan haldist um 4% út spátímabilið sem nær út árið 2015. Verðbólgumarkmiðinu verður því ekki náð á tímabilinu samkvæmt okkar spá. Þess má geta að kerfislægt hefur Seðlabankinn spáð minni verðbólgu en raunin hefur orðið í sínum langtímaverðbólguspám. 

    
nullSeðlabankinn hefur mælt aðhaldsstig peningastefnunnar út frá raunstýrivöxtum. Samkvæmt Seðlabankanum ættu virkir nafnstýrivextir um þessar mundir að vera nálægt einföldu meðaltali innlánsvaxta Seðlabankans og hámarksvaxta innistæðubréfa. Með óbreyttum stýrivöxtum og aukinni verðbólgu frá síðustu vaxtaákvörðun hafa raunstýrivextir lækkað úr 1,6% niður í 1,5%. Aðhaldsstigið er því nær óbreytt frá síðasta fundi.  

Kröftugur bati á vinnumarkaði

Peningastefnunefndin hefur horft talsvert í gögn af vinnumarkaði en þau gögn hafa bent til kröftugs bata á vinnumarkaði undanfarið og mun kröftugri en mætti ætla út frá landsframleiðslutölum. Frá síðustu vaxtaákvörðun hefur Hagstofan birt vinnumarkaðskönnun sína fyrir ágústmánuð sem sýnir jafnvel enn kröftugri bata á vinnumarkaði en fyrri tölur bentu til. Ef teknir eru síðustu þrír mánuðir var vöxturinn í fjölda starfandi 3,9% frá sama tímabili í fyrra sem er mesti þriggja mánaða vöxtur sem mælst hefur frá hruni. Ársíðarleiðrétt nullatvinnuleysi lækkaði einnig. Við þetta bætist að starfandi í fullu starfi fjölgar og atvinnuþátttaka er að aukast. Þá eru fleiri að flytja til landsins en frá því, og stór hluti þeirra sem fara af atvinnuleysisskrá hverfa til launaðrar vinnu.  

 
Þess má geta að í síðustu verðbólguspá sinni segir Seðlabankinn að verðbólguhorfur til næstu missera hefðu heldur versnað og að helstu skýringar á því sé meiri fjölgun heildarvinnustunda á sama tíma og spáð er hægari hagvexti. Þetta leiðir til þess að framleiðnivöxtur næstu ára verður hægari en bankinn spáði áður og hækkar launakostnað á framleidda einingu sem veldur aukinni verðbólgu. Nýjar tölur um vinnumarkaðinn benda til jafnvel enn minni framleiðnivaxtar en Seðlabankinn var með í sinni síðustu spá og renna þannig stoðum undir þá skoðun að verðbólguspá bankans kunni að vanmeta verðbólguna næstu misseri.

Fremur hægur hagvöxtur

Frá síðustu vaxtaákvörðun hafa verið birtar hagvaxtartölur fyrir fyrsta árshelming. Mældist hagvöxturinn 2,2% á tímabilinu. Spáir Seðlabankinn því í sinni nýjustu hagvaxtarspá sem birt var í samhliða vaxtaákvörðuninni í ágúst að hagvöxtur ársins verði 1,9%. Virðast nýjar tölur benda til þess að sú spá sé raunhæf. Tvennt þarf þó að skoða í því samnbandi. Í fyrsta lagi skiptir máli að Hagsofan færði hagvaxtartölur síðustu tveggja ára niður um 0,4% og þannig er sá vöxtur sem mældist hér á fyrri helmingi ársins sem þegar var kominn inn í fyrra mat á landsframleiðslunni og í leiðinni framleiðsluslakanum.

Í öðru lagi benda nýlegar tölur á borð við kortaveltu- og innflutningstölur til þess að innlend eftirspurn vaxi hægt um þessar mundir. Meðalvöxtur kortaveltu á 3. ársfjórðungi mælist nú 1,4%, þ.e. þegar litið er á júlí og ágúst. Er það svipaður vöxtur og var á 2F, þegar einkaneysluvöxtur mældist 1,4%. Tölurnar benda því til þess að einkaneysluvöxtur á þriðja ársfjórðungi verði hægur, líkt og var á fyrri hluta ársins.

Óbreyttir stýrivextir út árið

Við teljum að vegna þess hve hægur efnahagsbatinn er um þessar mundir og vegna þess að verðbólgan ætti að haldast á svipuðu róli og hún er nú á næstu mánuðum muni peningastefnunefnd Seðlabankans halda stýrivöxtum bankans óbreyttum út þetta ár. Við teljum síðan að peningastefnunefndin sjái ekki þörf á að hækka stýrivexti bankans fyrr en á næsta ári þegar hagvöxtur hefur glæðst og komið hefur fram að verðbólgan er þrálátari en felst í núverandi verðbólguspá bankans. Spáum við því að Seðlabankinn muni halda vaxtahækkunarferlinu áfram á næsta ári, og að vextir af lánum gegn veði til 7 daga hjá bankanum verði 6,3% að meðaltali á næsta ári samanborið við 6,0% í ár.

Stýrivaxtaspánna má nálgast hér.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall