Fréttir Greiningar

Þjónustujöfnuður: Snardregur úr halla

28.02.2014 11:32

nullHallinn á þjónustujöfnuði við útlönd nam 3,6 mö.kr. á síðasta ársfjórðungi í fyrra, sem er mun betri niðurstaða en oftast á því tímabili ársins. Til samanburðar má nefna að á 4. ársfjórðungi árið 2012 nam hallinn á þjónustujöfnuði 10,8 mö.kr. og árið þar á undan 4,8 mö.kr. Alls nam útflutningur á þjónustu 94,2 mö.kr. og jókst um 18% á milli ára, en innflutningur þjónustu nam rúmlega 97,8 mö.kr. og jókst um 8% milli ára. Hallinn á fjórða ársfjórðungi kemur til vegna rúmlega 11,7 ma.kr. halla á „annarri þjónustu“ og 6,7 ma.kr. halla á þjónustu tengdri ferðalögum. Það sem vó á móti þessu var 14,8 ma.kr. afgangur af viðskiptum vegna samgangna sem er stærsti þjónustuliður í útflutningi. Hagstofan hefur einnig endurskoðað tölur fyrir þjónustujöfnuð á fyrstu þremur fjórðungum ársins, og munar þar litlu á ef litið er á tímabilið í heild. Þannig benda tölurnar til þess að afgangurinn á því tímabili hafi verið 66,0 ma.kr. í stað 65,2 ma.kr. líkt og fyrri tölur gáfu til kynna.

Langmesti afgangur frá upphafi

nullSé tekið mið af árinu 2013 í heild hljóðar afgangur af þjónustujöfnuði upp á 62,4 ma.kr., sem er langmesti afgangur sem mælst hefur á jöfnuðinum frá upphafi. Er hér um gríðarlega aukningu að ræða á milli ára, en árið 2012 nam afgangurinn af þjónustujöfnuði 26,3 mö.kr. og áður hafði afgangurinn mest farið upp í 39,1 ma.kr. sem var árið 2009. Fyrir hrun var jöfnuðurinn oftar en ekki neikvæður og var þá talsverður dragbítur á viðskiptajöfnuð, þá sér í lagi á góðæristímabilinu 2005-2008.  Ljóst er að nú er öldin önnur í þeim efnum.

... sem þakka má gríðarlegum vexti í ferðaþjónustu

nullVart kemur á óvart að þessa jákvæðu þróun á þjónustujöfnuði megi að langstærstum hluta  hluta rekja til ferðaþjónustu, sem hefur heldur betur fært landinu björg í bú á undanförnum árum. Bæði samgöngur og ferðalög skiluðu meiri afgangi en nokkru sinni fyrr, en þó er enn talsverður halli á „annarri þjónustu“ þótt hallinn minnki raunar á milli ára. Þannig nam afgangur vegna ferðalaga 25,8 mö.kr. í fyrra samanborið við 10,3 ma.kr. árið á undan, og nemur aukningin á milli ára heilum 150%. Samgöngur skiluðu afgangi upp á 84,9 ma.kr., sem er aukning upp á 19% milli ára. Á móti þessu vó 48,3 ma.kr. halli af „annarri þjónustu“, sem var 13% minni en árið á undan. Allt frá árinu 2002 hefur ávallt mælst halli á þessum lið og er stærsta skýringin rekstrarleiga, sem væntanlega endurspeglar leigu flutningafyrirtækja á skipum og flugvélum. Annars innifelur liðurinn afar fjölbreytta flóru þjónustuviðskipta, allt frá fjármálaþjónustu til höfundarréttargjalda.

Gjöfulasta ferðamannaár frá upphafi

nullSamanlagt skiluðu samgöngur og ferðalög 110,7 ma.kr. afgangi í fyrra, samanborið við 81,6 ma.kr. árið 2012. Þýðir þetta m.ö.o. að ferðamennska og aðrir flutningar hafi skilað 29,1 mö.kr. meira af gjaldeyrisinnflæði í fyrra en árið á undan, og er munurinn meiri eftir því sem litið er lengra til aftur í tímann. Af þessu tölum Hagstofunnar sem og öðrum tölum er varða ferðaþjónustu er ljóst að ferðamannaárið í fyrra hafi verið það gjöfulasta frá upphafi. Þannig höfðu tölur Ferðamálastofu Íslands sýnt að um metár var að ræða hvað fjölda erlendra ferðamanna varðar, og var fjölgun þeirra hér á landi verulega umfram fjölgun á utanlandsferðum Íslendinga, eða um 21% á móti 2%. Jafnframt sýndu tölur Seðlabanka Íslands um kortanotkun erlendra aðila hér á landi að þeir hafa aldrei straujað kortin sín af jafn miklu kappi á einu ári og í fyrra, og var notkun þeirra jafnframt talsvert umfarm kortanotkun Íslendinga í útlöndum, sem er afar sjaldséð. Var kortaveltujöfnuður jákvæður um 12,7 ma.kr. í fyrra, sem er fjórtánfalt meiri afgangur en var árið á undan. Fyrir þann tíma hafði hann aðeins einu sinni áður mælst jákvæður.

... og 2014 byrjar með látum

nullEkki er ofmælt að segja að ferðamannaárið 2014 fari af stað með miklum látum í ár, en aldrei hafa fleiri erlendir ferðamenn sótt landið heim í janúarmánuði og nú. Sömu sögu má segja um kortanotkun þeirra, en þeir hafa aldrei áður straujað kortin sín í eins miklum mæli í janúarmánuði og nú, og tókst þeim jafnframt í fyrsta sinn að skáka Íslendingum við í þeim efnum í janúarmánuði. Var mismunur á kortaveltu útlendinga hér á landi og veltu Íslendinga í útlöndum 233 m.kr., og er þetta í fyrsta sinn svo langt aftur sem tölur Seðlabanka Íslands ná sem um jákvæðan kortaveltujöfnuð er að ræða í janúarmánuði.

Samsetning viðskiptajafnaðar að breytast

Nú liggja fyrir tölur um tvo undirþætti viðskiptajafnaðar fyrir árið 2013. Afgangur af vöruskiptum var 69,4 ma.kr. á síðasta ári, og samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum var því 131,8 ma.kr. Til samanburðar var 103,6 ma.kr. afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum árið 2012, og jókst afgangurinn því um 27% í krónum talið á milli ára. Afgangur vöru- og þjónustuviðskipta var reyndar svipaður í fyrra og árið 2011, en samsetning hans er þó ólík. Dregið hefur töluvert úr vöruskiptaafgangi á meðan afgangur af þjónustuviðskipum hefur vaxið mikið, eins og sjá má á myndinni.

Spáum svipuðum afgangi í ár

nullVið teljum að horfur séu á svipuðum afgangi af vöru- og þjónustuviðskipum í ár og var í fyrra. Bráðabirgðaspá okkar gerir ráð fyrir að afgangur af þjónustujöfnuði reynist ríflega 70 ma.kr. í ár. Þjónustuútflutningur mun að okkar mati vaxa allhratt á árinu, en á móti vegur að innflutt þjónusta er líkleg til að vaxa hraðar en áður samfara aukinni einkaneyslu. Þá teljum við að afgangur af vöruskiptum við útlönd gæti reynst ríflega 60 ma.kr. á yfirstandandi ári. Léleg loðnuvertíð og minni álframleiðsla vegna tímabundinnar skömmtunar á rafmagni til álframleiðenda hefur neikvæð áhrif á vöruútflutning að mati okkar, en aukinn útflutningur botnfisks og hófleg verðhækkun sjávarafurða vegur til aukningar. Þá mun vöruinnflutningur væntanlega aukast í takti við vaxandi innlenda eftirspurn.

Samanlagt spáum við að afgangur vöru- og þjónustuviðskipta reynist í námunda við 135 ma.kr. í ár, en vart þarf að taka fram að verðþróun á erlendum mörkuðum, gæftir á fiskimiðunum og framvinda efnahagsmála hér innanlands sem erlendis eru allt óvissuþættir í þeirri spá.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall