Fréttir Greiningar

Nokkuð hraður hagvöxtur á fyrstu níu mánuðum ársins

08.12.2015 11:12

Hagvöxtur mældist 4,5% á fyrstu níu mánuðum þessa árs sem telst nokkuð hraður hagvöxtur. Er vöxturinn í góðu samræmi við spá okkar og Seðlabankans en spá okkar hljóðar upp á 4,3% fyrir árið í heild og spá Seðlabankans 4,6%. Hagstofan birti í morgun þjóðhagsreikninga fyrir fyrstu þrjá fjórðunga ársins þar sem þetta kemur fram.

Byggður á breiðum grunni 

Hagvöxturinn á fyrstu níu mánuðum ársins var byggður á talsvert breiðum grundvelli og drifinn áfram af bæði umtalsverðum vexti í þjóðarútgjöldum og útflutningi. Á móti vó hröð aukning innflutnings vegna aukinnar innlendrar eftirspurnar.

Þjóðarútgjöld jukust um 6,2% á fyrstu níu mánuðum ársins, en talsverður vöxtur var bæði í neyslu og fjárfestingum á tímabilinu. Var vöxturinn aðeins minni en í spá Seðlabankans fyrir árið en spá bankans hljóðaði upp á 7,2% vöxt. Vöxturinn var hins vegar í takti við okkar spá fyrir árið.

Hraður vöxtur í einkaneyslu og fjárfestingu 

Einkaneysla jókst um 4,4% á fyrstu níu mánuðum ársins. Er þetta aðeins undir 4,6% spá Seðlabankans fyrir árið í heild og okkar 4,8% spá. Teljum við hugsanlegt að þessar tölur verði endurskoðaðar til hækkunar síðar, enda benda ýmsar hagtölur til nokkuð hraðari vaxtar einkaneyslu. 

Líkt og vænta mátti reyndist vöxtur fjármunamyndunar verulegur á fyrstu 9 mánuðum ársins. Í heild óx fjárfesting um 15,8% á tímabilinu frá sama tíma í fyrra. Vöxturinn var alfarið vegna 27,9% vaxtar atvinnuvegafjárfestingar, en á sama tíma dróst íbúðafjárfesting saman um 7,7%, og fjárfesting hins opinbera minnkaði um 3,4%. Samdráttur í síðarnefndu liðunum tveimur kemur nokkuð á óvart, en vera má að þær tölur breytist talsvert við síðari endurskoðun þjóðhagsreikninga.

Mun minni vöxtur mældist raunar í fjármunamyndun á 3. ársfjórðungi en á fyrri hluta ársins. Nam vöxturinn 5% á 3. fjórðungi, en á fyrstu tveimur fjórðungum ársins nam vöxturinn að meðaltali tæplega 23%.  Hafa ber í huga að fjárfestingartölur í þjóðhagsreikningum eru gjarnan endurskoðaðar hressilega, og sveiflur milli ársfjórðunga geta verið miklar.

Ferðaþjónusta drífur útflutningsvöxt 

Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar var neikvætt á fyrstu 3 fjórðungum ársins, enda óx innflutningur vöru og þjónustu um 10,9% á meðan útflutningur jókst um 7,4%.

Þjónustuútflutningur stóð nær alfarið undir útflutningsvexti, en hann óx um 14,3% á meðan vöruútflutningur jókst um 1,1%. Hér vega áhrif hins hraða vaxtar ferðaþjónustu þungt. Þjónustuútflutningur gæti vaxið heldur meira á árinu í heild en þau 11% sem við höfðum spáð, en þó ber að hafa í huga að einskiptisviðskipti á 2. ársfjórðungi höfðu nokkur áhrif á heildarvöxtinn það sem af er ári.

Vöxtur innflutnings var sérstaklega hraður hvað varðar fjárfestingarvörur, en einnig varð umtalsverð aukning í innflutningi neysluvara. Innflutningsvöxturinn er hins vegar í takti við væntingar okkar, og helst í hendur við myndarlegan vöxt í innlendri eftirspurn.

Breytir ekki spá okkar um óbreytta stýrivexti 

Ofangreindar hagvaxtartölur eru í heild í góðu samræmi við spá Seðlabankans sem birt var samhliða síðustu vaxtaákvörðun bankans í nóvember. Við teljum því að tölurnar breyti ekki sýn peningastefnunefndar á þróun hagkerfisins svo neinu nemi. Tölurnar breyta því engu um okkar stýrivaxtaspá sem hljóðar upp á óbreytta stýrivexti 9. desember. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall