Fréttir Greiningar

Einkaneysluvöxtur áfram á útivelli

14.11.2013 09:46

nullNýjustu tölur yfir greiðslukortaveltu benda til þess að nokkur vöxtur hafi verið í einkaneyslu í október síðastliðnum frá fyrra ári. Sá vöxtur er að miklu leyti til kominn vegna aukinnar neyslu Íslendinga á erlendri grundu, líkt og verið hefur á árinu. Þá má lesa út úr tölunum mikla breytingu á kortaveltujöfnuði, sem hefur aldrei áður verið eins hagstæður og nú í ár. Það má svo aftur rekja til þeirrar gríðarlegu fjölgunar sem átt hefur sér stað á erlendum ferðamönnum hér á landi.

Samkvæmt tölum Seðlabankans, sem birtar voru í gær, jókst kortavelta Íslendinga innanlands að raungildi um 1,5% í októbermánuði frá sama mánuði í fyrra, en kortavelta þeirra erlendis jókst hins vegar um 8,5% á sama mælikvarða. Síðarnefndi vöxturinn er í takti við tölur Ferðamálastofu Íslands um brottfarir Íslendinga um Flugstöð Leifs Eiríkssonar af landinu í októbermánuði sem jukust um 6,4% frá sama mánuði í fyrra. Samanlagt jókst kortavelta einstaklinga um 2,3% að raunvirði á milli ára í október.

Aukin neysla erlendis drifkraftur í einkaneysluvexti

nullVöxturinn í kortaveltu einstaklinga í október er heldur hægari en sá 4,3% raunvöxtur kortaveltu sem var í september, en þó hraðari en sá 1,1% vöxtur sem hefur að jafnaði verið það sem af er ári. Það athyglisverða við kortatölurnar er að vöxturinn er nánast allur í kortaveltu erlendis það sem af er ári. Kortavelta Íslendinga á erlendri grundu hefur vaxið um 5,2% að raunvirði það sem af er ári, en kortavelta innanlands aðeins um 0,6% á sama tíma. Þessi munur stingur enn meira í augu í ljósi þess að utanferðum Íslendinga hefur aðeins fjölgað um 0,3% á milli ára á sama tímabili.

Miðað við kortaveltutölurnar einar og sér mætti því draga þá ályktun að vöxtur í einkaneyslu það sem af er ári sé nær eingöngu vegna þess að hver Íslendingur sem heldur utan eyðir mun meira í ferðalaginu þetta árið en raunin var í fyrra. Ef sú er raunin að vöxtur einkaneyslu eigi sér að miklu leyti stað utan landsteinanna gætu framangreindar tölur bent til eitthvað hægari hagvaxtar en ella, enda kemur erlend neysla að fullu til frádráttar í innflutningsliðum þjóðhagsreikninga en innlend neysla aðeins að hluta.

Fylgni við einkaneyslu hefur minnkað

nullRétt er samt að halda því til haga að þótt kortavelta endurspegli u.þ.b. tvo þriðju hluta einkaneyslu landsmanna nær hún ekki utan um öll útgjöld, t.d. vegna húsnæðis og bílakaupa. Jafnframt hefur talsvert dregið úr fylgni milli kortaveltu og einkaneyslu undanfarið eins og við höfum áður fjallað um. Þannig hefur einkaneyslan vaxið hraðar en kortavelta á síðustu fjórðungum, en fjórðungana þar á undan var þessu öfugt farið. Má hér nefna að á fyrri helmingi ársins mældist vöxtur kortaveltu einungis 0,2% en vöxtur einkaneyslu 1,2%.

Kortatölur ríma við þjóðhagsspána

Engu að síður má draga þá ályktun út frá kortatölunum að vöxtur einkaneyslu verði heldur meiri á síðari helmingi þessa árs en þeim fyrri. Það er í takti við það sem við gerum ráð fyrir í nýlegri Þjóðhagsspá okkar, en við búumst við að einkaneyslan vaxi um 1,6% á yfirstandandi ári. Af þeim fjórum mánuðum sem liðnir eru af seinni helmingi árs hefur kortaveltan aukist að raungildi um 2,3% sem er mun meiri en sá 0,2% vöxtur sem átti sér stað á fyrri helmingi árs. 

Aldrei meiri afgangur af kortaveltujöfnuði

nullAlls nam kortavelta útlendinga hér á landi rúmlega 5,7 mö.kr. í október, sem er aukning upp á 27,2% í krónum talið á milli ára. Er það heldur meiri vöxtur en í ferðamannatölum þeirra, en brottförum erlendra ferðamanna um FLE fjölgaði um 17,6% í október á milli ára. Ekki er hægt að rekja það til þess að tímabilið hér undir sé ekki nákvæmlega hið sama þar sem minni aukning átti sér stað á brottförum í september. Á sama tíma nam kortavelta Íslendinga erlendis 7,8 mö.kr. og var því mismunur á kortaveltu Íslendinga erlendis og veltu útlendinga hér á landi tæpir 2,1 ma.kr. Hefur hallinn á kortaveltujöfnuði ekki verið minni í október frá því á árinu 2009 þegar utanlandsferðir Íslendinga voru í lágmarki.

Sé tekið mið af fyrstu tíu mánuðum þessa árs er kortaveltujöfnuður hagstæður um 16,8 ma.kr. Er hér um gríðarlega breytingu að ræða á þessum jöfnuði frá því sem áður var. Í fyrra var afgangur upp á 5,7 ma.kr. og árið þar á undan 1,6 ma.kr. Fyrir hrun var kortaveltujöfnuður hins vegar ávallt í halla á þessu tímabili, og má hér nefna að árið 2008 var hallinn kominn upp í 27,4 ma.kr. og árið 2007 upp í 25,8 ma.kr. þegar 10 mánuðir voru liðnir af árinu.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall