Fréttir Greiningar

Hjöðnun verðbólgu í boði krónu og samkeppni

29.06.2017 11:33

Styrking krónu á fyrri hluta ársins og vaxandi samkeppni hefur leitt til þess að verðbólga hjaðnað nokkuð síðustu mánuði þrátt fyrir verulega hækkun húsnæðisverðs og vaxandi launakostnað hérlendis. Útlit er fyrir að þessir kraftar takist áfram á í verðlagsþróuninni, en að á heildina litið muni verðbólga áfram verða hófleg hér á landi.

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar var vísitala neysluverðs (VNV) óbreytt í júní frá fyrri mánuði. Verðbólga mælist nú 1,5% en var 1,7% í maí. Hefur verðbólga ekki mælst minni hér á landi frá ágúst í fyrra. VNV án húsnæðis lækkaði hins vegar um 0,41% í júní og m.v. þá vísitölu mælist 3,1% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði. Þessi mikli munur á VNV með og án húsnæðis endurspeglar þá staðreynd að íbúðaverð hefur undanfarið verið langstærsti áhrifaþáttur til hækkunar VNV á meðan verðlækkun á innfluttum vörum hefur vegið æ þyngra til lækkunar VNV.

Mæling júnímánaðar er í neðri kantinum miðað við birtar spár.  Við spáðum 0,2% hækkun VNV milli mánaða, en opinberar spár hljóðuðu ýmist upp á óbreytta VNV eða 0,2% hækkun milli mánaða.  Munurinn á spá okkar og niðurstöðu Hagstofu liggur að mestu í meiri verðlækkun á matvörum, húsgögnum, og tómstundum og menningu en við gerðum ráð fyrir. Á móti eru föt að hækka talsvert meira í verði en við spáðum, og kemur það nokkuð á óvart í ljósi þróunar krónu og harðnandi samkeppni.

Húsnæðisliður, flugfargjöld og fatnaður til hækkunar

Eins og undanfarið vó húsnæðisliður VNV mest til hækkunar hennar í júnímánuði (0,30% áhrif í VNV). Þar af hækkaði reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar þróun íbúðaverðs, um ríflega 1,2% (0,24% í VNV). Þótt hér sé um drjúga hækkun að ræða hefur þessi liður þó ekki hækkað minna frá júlí í fyrra. Eflaust spila árstíðarbundin áhrif hér inn í, en einnig teljum við vísbendingar vera um að almennt sé að draga heldur úr þeim hraða hækkunartakti sem einkennt hefur íbúðamarkað það sem af er ári.

Þá hækkuðu flugfargjöld til útlanda um 11,6% (0,13% í VNV). Er sú hækkun í takti við væntingar okkar og skýrist af árstíðarbundinni sveiflu nú þegar ferðamannatíminn er að ná hámarki. Þrátt fyrir þá hækkun hafa flugfargjöld til útlanda samanlagt lækkað um  tæplega 13% frá sama tíma í fyrra, enda hefur krónan styrkst og samkeppni í millilandaflugi aukist á tímabilinu.

Meira kemur á óvart 3,5% hækkun á fataverði milli mánaða (0,11% í VNV). Við áttum frekar von á einhverri lækkun þessa liðar í ljósi vaxandi samkeppni og þróunar krónu undanfarna mánuði. Hins vegar reyndist hækkun á þjónustu hótela og veitingastaða hóflegri en við höfðum áætlað (0,02% í VNV), og gæti skýringin verið að aðilar í ferðaþjónustu vilji fara varlega í verðhækkanir þar sem styrking krónu hefur þegar gert þjónustu þeirra mun dýrari en í fyrra, mælt í heimamynt erlendra ferðamanna.

Lækkunaráhrif af styrkingu krónu og aukinni samkeppni

Á móti ofangreindum liðum vega allmargir undirliðir VNV til lækkunar hennar að þessu sinni. Þar vegur þyngst 1,2% lækkun á verði matar og drykkjarvara (-0,16% í VNV), ekki síst vegna umtalsverðrar verðlækkunar á grænmeti, ávöxtum, fuglakjöti og drykkjarvörum.

Ýmsar innfluttar sérvörur lækkuðu einnig töluvert í verði. Má þar nefna húsgögn og heimilisbúnað (-0,09% í VNV), eldsneyti (-0,08% í VNV), bifreiðar (-0,08% í VNV), sjónvörp og önnur rafeindatæki til afþreyingar (-0,04% í VNV) og lyf og lækningarvörur (-0,03% í VNV). Styrking krónu frá áramótum til maíloka á hér eflaust drjúgan hluta að máli. Einnig má leiða að því líkur að innkoma Costco á íslenskan smásölumarkað í maí sl. hafi haft talsverð áhrif á verðlagningu ýmissa innfluttra vara þótt verslunin sjálf sé ekki mæld af Hagstofunni enn sem komið er. 

Opnun Costco er þó í rauninni fyrst og fremst nýjasta skrefið í þróun í átt til meiri samkeppni á íslenskum smásölumarkaði sem staðið hefur undanfarin ár. Bæði má þar benda komu ýmissa erlendra verslunarkeðja hingað til lands á síðustu árum, vinsældir fatakaupa í utanlandsferðum landans og síðast en ekki síst vaxandi hlutdeild alþjóðlegra netverslana í innkaupum íslenskra heimila. Þessi þróun hefur aukið kaupmátt íslenskra heimila töluvert, og er sú kaupmáttaraukning í raun vanmetin í mælingum Hagstofu þar sem þær taka ekki til netverslunar erlendis frá eða fatakaupa í utanlandsferðum.

Áfram hófleg verðbólga

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn muni aðeins hækka næstu mánuðina. Verðbólga mun þó áfram verða nokkuð undir 2,5% markmiði Seðlabankans að mati okkar. Sterkari króna, aukin samkeppni á smásölumarkaði og hægari hækkun íbúðaverðs en undanfarna mánuði munu samanlagt halda aftur af verðbólgunni næsta kastið. Við spáum 0,1% lækkun vísitölunnar í júlí, 0,5% hækkun í ágúst og 0,3% hækkun í september. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 1,7% í septembermánuði.

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu í spá okkar, eða 0,23% í mánuði hverjum að jafnaði. Útsöluáhrif munu svo setja svip sinn á júlímælingu VNV að vanda og útsölulok að sama skapi á ágúst- og septembermælingarnar. Þá gerum við ráð fyrir nokkurri árstíðarbundinni hækkun flugfargjalda í júlí, en lækkun í ágúst og september.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall