Fréttir Greiningar

Hraður hagvöxtur en aðeins undir spám

09.09.2016 10:18

Landsframleiðslan á fyrstu sex mánuðum ársins jókst um 4,1% frá sama tímabili í fyrra. Er þetta nokkuð minni hagvöxtur en spáð hefur verið fyrir árið í heild, en í nýlega uppfærðri spá Seðlabankans er spáð 4,9% hagvexti á árinu og í þjóðhagsspá okkar frá því í júní sl. er reiknað með 5,4% hagvexti. 

Fyrstu tölum skal taka með fyrirvara

Um er að ræða fyrstu tölur Hagstofunnar fyrir annan fjórðung þessa árs og endurskoðaðar tölur fyrir fyrsta ársfjórðung. Tölurnar þarf að skoða í því ljósi. Hækkar stofnunin þannig hagvaxtartölur fyrsta ársfjórðungs úr 4,2% í 4,4% frá fyrstu tölum um þann fjórðung sem birtar voru í maí sl. Einnig breytir stofnunin tölum fyrir hagvöxt á árunum 2014 og 2015, og lækkar hagvöxturinn 2014 úr 2,0% í 1,9% en hagvöxturinn í fyrra fer upp úr 4,0% í 4,2%.  

Aukin rök fyrir vaxtalækkun

Í ljósi þeirrar miklu óvissu sem fylgir fyrstu tölum um landsframleiðslu er líklegt að peningastefnunefnd Seðlabankans gefi þeim ekki mikla vigt í næstu vaxtaákvörðun sem verður 5. október nk. Tölurnar eru þó, ásamt styrkingu krónunnar undanfarið og lækkun verðbólguvæntinga, rök fyrir því að nefndin muni taka annað skref í lækkun vaxta þá.  

 

Hraður vöxtur í alþjóðlegum samanburði

Hagvöxturinn á fyrri árshelmingi er mikill í alþjóðlegum samanburði. Mældist hagvöxturinn á sama tíma í Bandaríkjunum 1,4% á sama tíma, 2,1%  í Bretlandi og 1,8% í Þýskalandi svo dæmi sé tekin. 

Einkaneysluvöxturinn hraður og í takti við spá okkar

Einkaneyslan jókst um 7,7% á fyrri árshelmingi frá sama tíma í fyrra. Er þetta í takti við spá okkar um vöxt einkaneyslu á þessu ári sem hljóðar upp á 7,8%. Seðlabankinn spáir 6,7% vexti og virðist ljóst að sú spá er í lægri kantinum m.v. niðurstöðu fyrri árshelmings. Undirliggjandi í þessum mikla vexti er bætt fjárhagsleg staða heimilanna og sérstaklega mjög hraður vöxtur í kaupmætti launa, en hann mældist 10,4% á fyrri árshelmingi. 

Hraður vöxtur fjárfestingar

Afar myndarlegur vöxtur var í fjárfestingu á fyrri helmingi ársins frá sama tíma í fyrra.Í heild nam vöxturinn 29,5%, og var hann borinn uppi af 37,3% vexti atvinnuvegafjárfestingar. Á sama tíma jókst íbúðafjárfesting um 17,3% og fjárfesting hins opinbera um 1,9%. Þessi hraði vöxtur leiddi einnig til þess að fjárfestingarstigið í hagkerfinu mældist það hæsta frá hruni, en það nam 23% af VLF á fyrri helmingi ársins. Stór hluti þessa vaxtar í fjármunamyndun tengist ferðaþjónustu beint eða óbeint, en auk þess hefur verið talsverður gangur í iðnaðaruppbyggingu það sem af er ári. Góður vöxtur í íbúðafjárfestingu er jákvætt merki að okkar mati, enda hefur framboð nýrra íbúða verið af skornum skammti síðustu misserin. Lítill vöxtur opinberrar fjárfestingar endurspeglar svo viðvarandi aðhald í rekstri ríkis og sveitarfélaga, en víða virðist þó komið að mörkum hins skynsamlega hvað varðar lítið viðhald og uppbyggingu á innviðum, t.d. vegakerfinu og orkuflutningsnetinu.

Innflutningur vex þrefalt hraðar en útflutningur

Neikvætt framlag utanríkisviðskipta kemur okkur á óvart, og sér í lagi er vöxtur þjónustuútflutnings á fyrri hluta ársins undir væntingum okkar. Í heild jókst útflutningur um 5,3% á fyrri árshelmingi frá sama tíma í fyrra. Þar af jókst vöruútflutningur um 1,9% og þjónustuútflutningur um 9,0%. Í ljósi 35% fjölgunar ferðamanna á tímabilinu virðist þessi aukning þjónustuútflutnings í hóflegri kantinum, en þar kemur raunar einnig til samdráttur í ýmsum öðrum liðum á borð við hugverkaþjónustu. Lítill vöxtur vöruútflutnings skýrist svo að verulegu leyti af lélegri loðnuvertíð síðastliðinn vetur.

Vöxtur innflutnings er einnig hraðari en við höfðum áætlað. Alls óx innflutningur um 16,2% á fyrri árshelmingi. Þar af jókst þjónustuinnflutningur um 12,9% og vöruinnflutningur um 18,0%. Þessi hraði innflutningsvöxtur tengist reyndar að verulegu leyti uppbyggingu í ferðaþjónustu, en einnig kemur til mikill vöxtur í innfluttri einkaneyslu, t.d. bifreiðum til einkanota, óvaranlegum neysluvörum og innfluttri þjónustu vegna utanlandsferða svo nokkuð sé nefnt.

Á heildina litið var framlag utanríkisviðskipta neikvætt um 4,8% á fyrri árshelmingi. Þrátt fyrir þetta var myndarlegur afgangur af utanríkisviðskiptum á tímabilinu, en ljóst er að hann gæti minnkað allhratt ef framhald verður á þessari þróun.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall