Fréttir Greiningar

Búumst við 35% fjölgun ferðamanna 2017

07.09.2016 11:30

Isavia hefur birt gögn um úthlutuð stæði fyrir tímabilið 1. nóvember 2016 – 25. mars 2017. Verði nýting stæða í samræmi við úthlutun má gera ráð fyrir því að framboðaukning á ársgrundvelli á flugsætum til landsins fyrir fyrrgreint tímabil verði 58%. Við höfum uppfært forsendur í spá okkar fyrir fjölgun erlendra ferðamanna út þetta ár byggt á þessum tölum og gerum nú ráð fyrir að þeim fjölgi um 39% á árinu en að á næsta ári fjölgi þeim um 35%. Gerum við því ráð fyrir að fjöldi ferðamanna í ár verði ríflega 1760 þús. en tæplega 2.370 þús. á næsta ári. Gangi spáin eftir verður fjöldi ferðamanna hér á landi á næsta ári ríflega sjöfaldur íbúafjöldi í landinu. Afar fáar þjóðir státa af álíka háu hlutfalli. 

 

Útlit fyrir að 2017 byrji með trompi

Miðað við úthlutuð stæði fyrir janúar 2017 eykst framboð um 70% milli ára og því óhætt að fullyrða að útlit sé fyrir að árið byrji með trompi. Þess má geta að lítill munur var á úthlutuðum stæðum og raunframboði yfir vetrartímabilið 2015/2016. Isavia væntir þess, byggt á áætlaðrar sætanýtingar síðustu 5 ára, að farþegum yfir þetta tímabil muni fjölga um tæp 50%. Við teljum það mat fremur varfærið enda hefur tvennt gerst síðustu ár, annars vegar hefur sætanýting flugfélaga almennt hækkað og hins vegar hefur hlutdeild lággjaldaflugfélaga, sem almennt hafa hærri sætanýtingu en fullþjónustufélög, hækkað í Keflavík. 

Við mat á fjölgun ferðamanna horfum við til úthlutaðra stæða Isavia a.t.t.t. þróunar í sætanýtingu, hlutdeild farþega sem aðeins fer um flugvöllinn þ.e. fer aldrei út af Keflavíkurflugvelli, og hlutdeild innlendra aðila í heildar eftirspurn. Að teknu tilliti til þeirra talna er nú hafa verið birtar og litið til þróunar síðustu ára gerum við ráð fyrir að erlendum ferðamönnum fjölgi um 35% árið 2017. Þá teljum við fulla ástæðu til að ætla, litið til ætlaðs framboðs í vetur, að enn dragi úr árstíðarsveiflu í ferðaþjónustu. 

Aukin samkeppni óvissuþáttur

Óvissan í spánni snýr fyrst og fremst að sætanýtingu en útlit er fyrir verulega aukna samkeppni í flugi yfir vetrar tímabilið. Hins vegar liggur fyrir að hlutdeild lággjaldaflugfélaga er enn að aukast og þannig munu tveir víxlverkandi þættir vegast á hvað þetta varðar.

Deilihagkerfisins að taka við

Gangi spá okkar eftir fjölgar ferðamönnum milli áranna 2016 og 2017 um tæplega 620 þúsund sem svar til um 3,4% mannfjölgunaráhrifa. Þrátt fyrir að okkar áætlanir bendi til að hótel herbergjum fjölgi meira á árinu 2017 en á þessu ári þá dugar aukningin ekki til að taka við þessum fjölda. Því liggur fyrir að deilihagkerfið þarf að taka við talsvert stórum hluta þessa vaxtar. Litið til meðal dvalartíma ferðamanna á landinu má gera ráð fyrir að um 43 þúsund ferðamenn gisti á landinu að jafnaði á degi hverjum á næsta ári. Fjöldinn verður hlutfallslega meiri yfir sumarmánuðina og minni yfir vetrarmánuðina sökum árstíðarsveiflu en hún fer þó sem fyrr segir minnkandi. 

Þessi mikli vöxtur kemur til með að reyna á innviði ferðaþjónustunnar. Krefst hún hraðrar uppbyggingar í samgöngum, gistirýmum og annarri þjónustu við ferðamenn. Þó svo að hækkun gengis krónunnar undanfarin misseri dragi eflaust eitthvað úr vexti í fjölda ferðamanna er ljóst að aðrir kraftar eru sterkari um þessar mundir. Gengislækkun heimamynta ferðamanna hefur þó einhver áhrif en dæmi um slíkt má finna um þessar mundir í fjölgun Breta og Norðmanna hingað til lands en dregið hefur nokkuð úr vexti breskra ferðamanna síðustu mánuði og samdráttur er í fjölda norskra ferðamanna. 

Hér má skoða skýrslu okkar um íslenska ferðaþjónustu sem birt var fyrr á þessu ári.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall