Fréttir Greiningar

Óbreyttir stýrivextir í takti við spá

16.03.2016 10:48

Ákvörðun Seðlabankans að halda vöxtum óbreyttum kom fáum á óvart og engin breyting varð á tóni peningastefnunefndar frá fyrri vaxtaákvörðun. Hins vegar kom fram á kynningarfundi Seðlabankans vegna vaxtaákvörðunarinnar að líklega mun draga til tíðinda varðandi aflandskrónuútboð og höft á innflæði gjaldeyris á ársfundi bankans á morgun.

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í takti við spá okkar og annarra sem birta spár um stýrivexti bankans. Meginvextir bankans, vextir á 7d bundnum innlánum, verða því áfram 5,75%.

Framsýna leiðsögnin í yfirlýsingu nefndarinnar er orðrétt óbreytt frá síðustu vaxtaákvörðun. Talar nefndin um í yfirlýsingu sinni að alþjóðleg verðlagsþróun og sterkari króna hafi veitt svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt en að það breyti hins vegar ekki því að miðað við spá Seðlabankans er líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings.

Talar nefndin um að hagvaxtarhorfur fyrir þetta ár hafi lítið breyst og útlit sé einnig fyrir kröftugan hagvöxt á næstu misserum.    

Verðbólguspá Seðlabankans er mjög lík okkar fyrir næstu misseri. Reiknum við líkt og Seðlabankinn með því að verðbólgan fari yfir 2,5% verðbólgumarkmiðið á fjórða  fjórðungi þessa árs en að hún verði við 2% fram að því. Minni samhljómur er milli spár Seðlabankans og okkar þegar kemur fram á næsta ár, en þá liggur spá okkar nokkuð undir spá Seðlabankans þó að báðar spárnar geri ráð fyrir því að það ár verði verðbólgan nokkuð yfir verðbólgumarkmiði bankans.

Við reiknum með því að peningastefnunefndin bregðist við aukinni verðbólgu, vaxandi spennu í efnahagslífinu og minnkandi peningalegu aðhaldi með hækkun stýrivaxta á þessu ári. Spáum við 0,5  prósentustiga hækkun stýrivaxta á síðasta fjórðungi ársins. Við það bætist væntanlega aukið peningalegt aðhald þegar virkir stýrivextir bankans færast nær miðju vaxtagangsins, sem við reiknum með að verði þegar kemur fram á sumarið.

Tíðinda af aflandskrónuútboði að vænta á morgun 

Í svari við spurningu okkar sagði Már Guðmundsson að vænta mætti frétta af aflandskrónuútboði á ársfundi Seðlabankans, sem haldinn verður á morgun. Sama gildir um boðuð höft á innflæði. Þar mátti skilja af orðum Más að þau yrðu í formi bindiskyldu á hluta innflæðis vegna verðbréfafjárfestinga, og að tækið yrði innleitt fyrr en seinna, en yrði stillt á núll svo lengi sem innflæðið væri ekki óhóflegt.

Þá sagði Már að undanfarið hefði Seðlabankinn safnað gjaldeyrisforða til að undirbúa aflandskrónuútboð og losun hafta á innlenda aðila. Takmörk væru fyrir því hversu stór forðinn ætti að verða og þar með hversu lengi bankinn gæti haldið uppteknum hætti við stórtæk gjaldeyriskaup á innlendum markaði ef innflæði gjaldeyris héldi áfram um langa hríð. Hins vegar væru aðstæður líklega að breytast á þann veg að fleiri leiðir yrðu til þess að halda aftur af frekari forðasöfnun Seðlabankans, eða eins og Már orðaði það “..að það eru framundan aðrar leiðir til að losna svo aftur við þennan gjaldeyrisforða”. Varðandi frekari upplýsingar vísaði Már enn og aftur í ræðu sína á ársfundinum. Ljóst virðist því að ræða Seðlabankastjóra á ársfundi bankans á morgun verður býsna upplýsandi varðandi næstu skref í losun gjaldeyrishafta.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall